Karl Gauti Hjaltason
Karl Gauti Hjaltason
Eftir Karl Gauta Hjaltason: "Hvernig sem þessu verður háttað er ekki í boði að gera ekki neitt. Vegfarendur vænta þess að vegakerfið verði uppfært til nútímans."

Nú þegar sumri hallar og verið er að malbika yfir verstu vegarskemmdir vetrarins er gott til þess að vita að það styttist í að ný samgönguáætlun stjórnvalda líti dagsins ljós.

Í þeirri áætlun munu birtast fyrirætlanir samgönguráðherra um að uppfæra vegakerfið að þeirri umferð sem um það fer, en eins og allir vita hefur verið misbrestur á því mörg síðustu ár.

Það er eins og að bera í bakkafullan lækinn að benda á þá brýnu þörf sem við blasir um nauðsyn á endurbótum á vegakerfi landsins. Allt of víða má sjá holur, sprungur og lægðir á þjóðvegunum, örmjóa vegi, einbreiðar brýr og slæma vegarkafla. Umferðarþunginn eykst ár frá ári svo talið er í tugum prósenta og margir vegir sem voru fáfarnir fyrir fáum árum eru það ekki lengur.

Ekki þarf heldur að minna á að samsetning vegfarenda hefur tekið verulegum breytingum. Nú er varla unnt að aka bæjarleið án þess að þurfa að nauðhemla nokkrum sinnum þar sem einhver erlendur ferðalangurinn hefur stöðvað bifreið sína úti í kanti og að sjálfsögðu svolítið inn á þröngum veginum og er að dást að íslenska hestinum, nú eða bara náttúrunni, sem við kannski aldrei tókum eftir.

Allt of langt mál er að telja upp alla þá vegarkafla sem nauðsynlegt er að laga án tafar, gera tvíbreiða eða endurnýja. Áætlað hefur verið að það kosti tugi milljarða að ráðast í brýnustu vegaframkvæmdir á þeim þremur leiðum sem liggja út úr höfuðborginni.

Þessari uppsöfnuðu þörf fyrir aðgerðir í vegamálum þjóðarinnar hefur ekki verið mætt. Þó lagðir séu rúmir fimm milljarðar ári í þrjú ár til að kítta í stærstu holur vegakerfisins dugir það skammt þegar við blasir að milljarðatuga framkvæmdir eru ekki aðeins brýnar, heldur bráðnauðsynlegar.

Það er auðvitað sjálfsagt að búast við því af þjóð sem lifir nú orðið að stórum hluta á ferðalögum ferðamanna um landið, að í nýrri samgönguáætlun munum við sjá fyrirætlanir um að kippa þessu ófremdarástandi í liðinn. Þar verður að vera áætlun um að gera tvíbreiða vegi út úr höfuðborginni til flugstöðvarinnar, á Selfoss og í Borgarnes.

En þá er ekki allt upp talið, því nauðsynlegt er að ganga strax í að byggja nýja brú yfir Ölfusá norðan við Selfoss. Núverandi ástand veldur ekki bara daglegum töfum við gömlu brúna, heldur skerðir öryggi íbúa verulega, þar sem lögregla og hjálparlið kemst ekki hindrunarlaust leiðar sinnar á mestu álagstímum.

Ljónið á veginum er kostnaðurinn og þar koma ýmis efni til skoðunar. Bent hefur verið á að nýta þær álögur á bifreiðaeigendur sem hafa árum saman gengið til annarra hluta en til endurbóta á vegakerfinu. Veggjöld voru mikið í umræðunni fyrir réttu ári síðan en var stungið ofan í skúffu sem sumir segja að nauðsynlegt sé að opna að nýju.

Hvernig sem þessu verður háttað er ekki í boði að gera ekki neitt, eins og segir í auglýsingunni. Vegfarendur vænta þess að vegakerfið verði uppfært til nútímans.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins. kgauti@althingi.is

Höf.: Karl Gauta Hjaltason