Pétur Stefán Kristjánsson var fæddur á Húsavík 30. júní 1924, dáinn 1. september 1990. Foreldrar hans voru Jóhanna Númadóttir og Kristján Pétursson. Stefán lauk námi frá Héraðsskólanum að Laugum, S-Þing. 1941 og frá Íþróttaskóla Björns Jakobssonar 1942.

Pétur Stefán Kristjánsson var fæddur á Húsavík 30. júní 1924, dáinn 1. september 1990. Foreldrar hans voru Jóhanna Númadóttir og Kristján Pétursson.

Stefán lauk námi frá Héraðsskólanum að Laugum, S-Þing. 1941 og frá Íþróttaskóla Björns Jakobssonar 1942. Þá um haustið hóf Stefán kennslu við Laugarnesskólann í Reykjavík. Árin 1946-1948 stundaði hann nám við Íþróttaháskóla Svíþjóðar (GCI)

Þegar heim kom kenndi Stefán við Laugarnesskólann, Réttarholtsskólann og Kennaraskóla Íslands til ársins 1965, er hann tók við starfi íþróttafulltrúa Reykjavíkurborgar. Seinni hluta vetrar 1949 kenndi Stefán við ÍKÍ að Laugarvatni skíði, frjálsar íþróttir, handknattleik og fleiri greinar. Hann var með vornámskeið við skólann til 1956.

Um árabil starfaði Stefán hjá Glímufélaginu Ármanni, kenndi þar frjálsar íþróttir, handknattleik og fleiri greinar. Hann var einnig landsliðsþjálfari í frjálsum íþróttum.

Stefán æfði fimleika hjá Ármanni og var þar í sýningarflokki. Hann keppti í mörg ár á skíðum, m.a. tvisvar á Ólympíuleikum, Ósló 1952 og Cortina 1956.

Árlega stóð hann fyrir vinsælum skíðanámskeiðum fyrir grunnskólakennara í Reykjavík í Reykjavík.

Stefán átti sæti í þjóðhátíðarnefnd Reykjavíkur á 1.100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 og var framkvæmdastjóri 200 ára afmælis Reykjavíkur 1986.

Stefán var formaður Íþróttakennarafélags Íslands 1951-1957, hann sat í stjórn FRÍ 1957-1959 og í stjórn SKÍ 1960-1969, þar af sem formaður í fimm ár.

Stefán skrifaði ásamt Þorsteini Einarssyni kennslubók í frjálsum íþróttum árið 1951.

Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Kristjana Jónsdóttir íþróttakennari og börn þeirra eru Helga, kennari, Jóhanna, sjúkraliði, Anna, læknir, og Stefán, verkfræðingur.