Turninn Stærsta eign félagsins er Höfðatorg í Borgartúni.
Turninn Stærsta eign félagsins er Höfðatorg í Borgartúni. — Morgunblaðið/Golli
Samkeppniseftirlitið hefur veitt samþykki sitt við kaupum Regins hf. á félaginu FAST-1 slhf. en samningur um kaupin var undirritaður 18. maí síðastliðinn. Með kaupunum eignast Reginn allt hlutafé dótturfélaga FAST-1 en það eru HTP ehf. og FAST-2 ehf.

Samkeppniseftirlitið hefur veitt samþykki sitt við kaupum Regins hf. á félaginu FAST-1 slhf. en samningur um kaupin var undirritaður 18. maí síðastliðinn. Með kaupunum eignast Reginn allt hlutafé dótturfélaga FAST-1 en það eru HTP ehf. og FAST-2 ehf.

Stærstu eignir félaganna sem um ræðir eru Katrínartún 2, sem oftast gengur undir nafninu Höfðatorg, og Borgartún 8-16. Aðrar eignir félaganna eru Skúlagata 21, Vegmúli 3 og Skútuvogur 1.

Kaupin fjármagnar Reginn með útgáfu nýs hlutafjár að markaðsvirði 5.800 milljónir króna og þá eru þau einnig fjármögnuð með útgáfu nýs skuldabréfaflokks.

Í forsendum kaupanna var gert ráð fyrir að heildarvirði félaganna HTO og FAST-2 væri 23.200 milljónir króna.

Í nýbirtum árshlutareikningi FAST-1 kemur fram að hagnaður af rekstri félagsins hafi numið ríflega einum milljarði króna á fyrri helmingi ársins miðað við 24,7 milljóna hagnað yfir sama tímabil í fyrra. Mestu munar þar um matsbreytingar fjárfestingareigna. Þær reyndust jákvæðar um ríflega 1,1 milljarð króna á fyrri helmingi þessa árs en voru neikvæðar sem nam tæpum 182 milljónum í fyrra.

Um mitt þetta ár námu eignir FAST-1 23,1 milljarði króna og höfðu hækkað úr tæpum 21,9 milljörðum um síðastliðin áramót.