Vöxtur „Umhverfismatið er komið og nú er verið að vinna í rekstrar- og starfsleyfinu, hjá Matvæla- og Umhverfisstofnun,“ segir Guðmundur um stækkunarplön.
Vöxtur „Umhverfismatið er komið og nú er verið að vinna í rekstrar- og starfsleyfinu, hjá Matvæla- og Umhverfisstofnun,“ segir Guðmundur um stækkunarplön.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýtt og öflugt fóðurskip á vegum Fiskeldis Austfjarða kom til heimahafnar á Djúpavogi um miðjan ágústmánuð. Stjórnarformaður fyrirtækisins segir að koma skipsins hafi margt gott í för með sér fyrir starfsemina. Frá skipinu verða laxar í Berufirði fóðraðir á degi hverjum.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Þetta er klárt skref fram á við og það nýjasta í geiranum,“ segir Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða.

„Skipið tekur sex hundruð tonn af fóðri sem gerir okkur kleift að flytja stærri fóðursendingar til landsins og lækka til muna sendingarkostnað. Skipið er búið mjög öflugu fóðurkerfi sem þýðir að við getum fóðrað allt að sextán kvíar í einu. Það gagnast okkur ekki síst á veturna, þegar dagsljóssins nýtur ekki lengi við, svo og á milli storma,“ segir hann og útskýrir frekar:

„Eldri fóðurpramminn var þannig að við gátum aðeins dælt í þrjár kvíar samtímis, sem gerði ferlið tímafrekt og erfitt að hámarka fóðurgjöfina. Kerfið er því mun afkastameira.“

Mun meiri vöxtur með skipinu

Með bættri fóðurgjöf vex fiskurinn betur, en skipið er einnig búið búnaði til að taka úrgang og dauðfisk. „Dauðfiskurinn er ekki úrgangur í sjálfu sér, heldur er honum breytt í meltu sem er til margra hluta nytsamleg,“ segir Guðmundur. Skipið er einnig búið viðamiklu myndavélakerfi sem ætlað er að fylgjast með fóðrun fiskanna. Þannig má auka fóðrun er fiskurinn tekur vel og svo stöðva hana þegar þeir taka ekki lengur.

„Þannig er hægt að stýra fóðruninni eftir hegðun þeirra. Þetta eykur fóðurnýtingu og um leið fellur lítið af fóðri til botns.. Þessu fylgir líka mun meiri vöxtur, þar sem við náum að fóðra fiskana vel og vandlega á hverjum degi.“

Skipið var sérhannað fyrir Fiskeldi Austfjarða í Póllandi en umsjón með verkinu hafði norska fyrirtækið Steinsvik. Ber skipið heitið Hvaley en fyrir er fóðurskipið Úlfsey. Um borð er mjög góð vinnuaðstaða fyrir áhöfn og aðra sem þar starfa.

Jafnvægi vantar í krónuna

Spurður um gang eldisins fyrir austan segir Guðmundur hann góðan. „Það er góð tíð, markaðir eru góðir og slátrun gengur vel. Sé horft til framtíðar lítur þetta mjög vel út,“ segir hann. „Það er hátt og gott verð og útlit fyrir að það muni halda sér, þar sem eftirspurnin hefur vaxið umfram framboð síðustu ár. Þá sjáum við ekki fram á mikla framleiðsluaukningu.“

Spurður hvort styrking krónunnar undanfarin misseri komi illa við reksturinn játar hann að svo sé.

„Hún hækkar náttúrlega að vissu leyti íslenskan kostnað, en mestmegnis er kostnaðurinn í fóðri sem við fáum að utan, og það vegur því aðeins upp á móti. En klárlega væri gott ef álíka mikill kraftur eða fjármagn væri sett í að veikja krónuna og varið er í að styrkja hana,“ segir Guðmundur. „Það vantar jafnvægi.“

Útlit fyrir leyfi á næstu vikum

Í farvatninu fyrir austan er stækkun eldisins, í Berufirði og Fáskrúðsfirði, og er útlit fyrir að leyfi fyrir slíku muni fást á næstu vikum að sögn Guðmundar. „Umhverfismatið er komið og nú er verið að vinna í rekstrar- og starfsleyfinu, hjá Matvæla- og Umhverfisstofnun.“

Undirbúningur er þegar hafinn fyrir aukna framleiðslu. „Seiðaframleiðsla er hafin og munum við setja seiði út í Fáskrúðsfjörð á næsta ári, ef allt fer eftir áætlun. Þá heldur þessi uppbygging áfram; fleiri störf og meiri framleiðsla.“

Undanfarin ár hafa skapast tugir starfa í kringum umsvif fyrirtækisins. „Við erum með um tuttugu starfsmenn í eldinu hjá okkur en svo eru um fimmtíu í vinnslunni á Djúpavogi. Þetta eru því í kringum sjötíu manns sem eru að vinna þar, en svo erum við með í kringum tuttugu og fimm manns sem eru að vinna við seiðaframleiðsluna. Allt í allt eru þetta því tæplega hundrað manns sem vinna við eldið í dag.“

Með samning við Whole Foods

Nær öll framleiðsla fyrirtækisins er flutt út til Bandaríkjanna, en með lagni náðu forsvarsmenn eldisins samningi við bandarísku heilsuvöruverslanakeðjuna Whole Foods. „Þar á bæ vilja menn hágæðafisk og það var langt ferli að komast þangað inn. Keðjan er með mjög stífa staðla; ég held það séu ekki nema þrír eða fjórir framleiðendur í heiminum sem standast þá, og við erum þar á meðal. Við framleiðum enda lax í háum gæðaflokki, með ströngustu framleiðsluaðferðum sem hægt er að finna.“

Laxinn er ekki ýkja lengi á leiðinni til Bandaríkjanna, en þangað er hann yfirleitt fluttur með flugi að sögn Guðmundar.

„Nú bíðum við bara eftir að Kína opni, en það er verið að vinna í því í ráðuneytinu að fá innflutningsleyfi á laxi til Kína. Það hefur dregist í þrjú ár að fá það, þrátt fyrir að vera með fríverslunarsamning við Kína fáum við ekki að flytja laxinn inn því það er ekki búið að skrá hann inn hjá Kína. Þetta er bara svona diplómatískt ferli sem tekur tíma, en okkur var nú lofað að fá Kína sem allra fyrst þar sem það var lokað á okkur til Rússlands. Þrjú ár eru liðin síðan sú lokun skall á.“

„Mikil fórn fyrir litla þjóð“

Guðmundur segir Kínamarkað ört vaxandi. „Norðmenn náðu að opna hann núna um áramótin og það má glögglega sjá margföldun í útflutningi á norskum laxi til Kína síðustu mánuði. Þetta er stór hluti af heildarmarkaðnum, það er Kína og Rússland,“ segir hann og bætir við að það sé einkennileg staða að þurfa að horfast í augu við lokaðan Rússlandsmarkað.

„Á sama tíma og frændur okkar í Færeyjum eru búnir að hafa greiða leið þangað inn allan þennan tíma. Það ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir íslensku ríkisstjórnina að binda enda á þetta. Þetta er mikil fórn fyrir litla þjóð, að hafa Rússland lokað.“