[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EHF-bikarinn Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Það er frábært að vera með þátttökurétt í þessari keppni og fá tækifæri aftur. Það þéttir líka hópinn og gefur þessu lit að fá svona ferð.

EHF-bikarinn

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það er frábært að vera með þátttökurétt í þessari keppni og fá tækifæri aftur. Það þéttir líka hópinn og gefur þessu lit að fá svona ferð. Núna skiptir öllu máli að ná í góð úrslit gegn þessu sterka liði,“ segir Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs FH í handbolta.

FH-ingar eru mættir til Zagreb í Króatíu og mæta þar í dag Dubrava í fyrri leik liðanna í 1. umferð EHF-bikarsins. Liðin eigast svo við í Kaplakrika á laugardaginn eftir viku. Selfoss tekur á móti Klaipeda Dragunas á Selfossi í kvöld en þriðja íslenska liðið í keppninni, Íslandsmeistaralið ÍBV, mætir til leiks í næstu umferð.

FH var grátlega nálægt því, eða aðeins einu marki, að komast alla leið í riðlakeppni EHF-bikarsins í fyrra.

„Við erum að fara að mæta mjög sterku, króatísku liði. Þetta er mjög hávaxið lið. Þeir hafa, ekki ólíkt okkur, misst 4-5 leikmenn frá síðustu leiktíð og fengið aðra í staðinn, svo það er erfitt að meta styrkinn nákvæmlega á þessari stundu en þetta er virkilega gott og vel spilandi lið,“ segir Halldór.

„Þetta er mjög verðugt verkefni fyrir okkur, eftir að hafa misst mikið af leikmönnum og fengið aðra í staðinn. Við vorum búnir að vera með sama lið í tvö ár, lið sem var mjög vel samspilandi, og það tekur alltaf tíma fyrir nýja menn að komast inn í rútínuna og læra á leikaðferðina. En við erum bjartsýnir og munum selja okkur dýrt,“ segir Halldór.

FH-ingar bjuggu til fjóra atvinnumenn með framgöngu sinni síðasta vetur því þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ágúst Elí Björgvinsson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Ísak Rafnsson eru allir farnir út.

„Auðvitað er ég stoltur sem þjálfari þessara stráka að þeir fái tækifæri til að spila í atvinnumennsku og fara þar í flott lið. FH er stolt af því að eftir okkar leikmönnum sé tekið og það er frábært fyrir þá að fá að spila á stærra sviði. Það kemur maður í manns stað. Auðvitað er aldrei gott þegar svona miklar breytingar verða á einu bretti, en þegar vel gengur og menn spila vel þá kemur auðvitað að því að þeir fá tækifæri á stærra sviði. Við gleðjumst fyrir þeirra hönd og vonandi fá fleiri leikmenn sams konar tækifæri á næstu árum, en fjórir í einu er kannski fullmikið,“ segir Halldór.

Nýir í FH-liðið hafa komið serbneski markvörðurinn Lazar Minic, skyttan tvítuga Bjarni Ófeigur Valdimarsson sem raðaði inn mörkum fyrir Gróttu sem lánsmaður frá Val síðasta vetur, og örvhentu hornamennirnir efnilegu Birgir Már Birgisson frá Víkingi og Jóhann Kaldal frá Gróttu. Þá fá yngri leikmenn FH einnig tækifæri í vetur, eins og Einar Örn Sindrason, skytta úr U18-landsliðinu sem vann silfur á EM á dögunum.

Gjaldkerinn var mjög spenntur

Eftir svo miklar breytingar, hvernig metur Halldór möguleikana á að komast í gegnum þrjá andstæðinga og í riðlakeppni EHF-bikarsins, eins og næstum því tókst í Evrópuævintýrinu síðasta vetur, með allri dramatíkinni og vítakeppni í Rússlandi sem því fylgdi.

„Það verður að koma í ljós. Auðvitað hefði það verið einstakt afrek að slá út þessi þrjú lið (Dukla Prag, St. Pétursborg og Tatran Presov), og alveg grátlegt að hafa á endanum verið einu útivallarmarki frá því. Þetta voru góð lið sem við mættum, allt atvinnumannalið, og árangur okkar frábær. Við náðum svona langt þrátt fyrir að glíma við talsverð meiðsli – vorum til að mynda oft án Gísla Þorgeirs og vantaði alltaf annan línumanninn – og erum þess vegna stoltir af því hve langt við fórum. Það hefði verið stórkostlegt að komast í riðlakeppnina, en líka mikið högg fyrir félagið því það hefði kostað einhverjar 8-9 milljónir króna í viðbót, þó að við höfum ekkert hugsað um það þegar við börðumst í þessum leikjum. Gjaldkerinn var alla vega orðinn mjög spenntur,“ segir Halldór léttur.

Komist FH áfram í 2. umferð mætir liðið Benfica frá Portúgal sem situr hjá í fyrstu umferðinni.

EHF-bikarinn
» Viðureign Dubrava og FH er eitt af ellefu einvígjum í 1. umferð keppninnar. Selfoss tekur á móti Klaipeda Dragunas í kvöld.
» Mörg lið sitja hjá og fara beint í 2. umferð, 32 liða úrslit, þar á meðal ÍBV sem mætir Aix frá Frakklandi.
» Sigurliðið í leikjum FH og Dubrava mætir Benfica frá Portúgal í 2. umferð.
» Sigurliðið í leikjum Selfoss og Klaipeda Dragunas mætir Riko Ribnica frá Slóveníu í 2. umferð.