Sex Íslendingar geta leikið í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA í vetur, en dregið var í riðla í Mónakó í gær. Guðlaugur Victor Pálsson og samherjar í Zürich eru þar í A-riðli með Leverkusen frá Þýskalandi, Ludogorets frá Búlgaríu og AEK Larnaca frá Kýpur.

Sex Íslendingar geta leikið í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA í vetur, en dregið var í riðla í Mónakó í gær.

Guðlaugur Victor Pálsson og samherjar í Zürich eru þar í A-riðli með Leverkusen frá Þýskalandi, Ludogorets frá Búlgaríu og AEK Larnaca frá Kýpur.

Matthías Vilhjálmsson og samherjar í norska meistaraliðinu Rosenborg eru í B-riðli með Salzburg frá Austurríki, Celtic frá Skotlandi og Leipzig frá Þýskalandi.

Hannes Þór Halldórsson , markvörður Qarabag frá Aserbaídsjan, getur spilað gegn enska liðinu Arsenal, portúgalska liðinu Sporting Lissabon og Vorskla frá Úkraínu í E-riðli.

Íslendingar geta mæst í I-riðlinum, en þar eru Malmö frá Svíþjóð, lið Arnórs Ingva Traustasonar , og Sarpsborg frá Noregi, lið Orra Sigurðar Ómarssonar , ásamt Besiktas frá Tyrklandi og Genk frá Belgíu.

Jón Guðni Fjóluson er nýkominn til Krasnodar í Rússlandi, sem er í J-riðli keppninnar ásamt Sevilla frá Spáni, Standard Liege frá Belgíu og Akhisar frá Tyrklandi.

Þá er enska liðið Chelsea í L-riðlinum ásamt PAOK frá Grikklandi, BATE frá Hvíta-Rússlandi og Vidi frá Ungverjalandi. Tvö efstu lið í hverjum riðli komast í 32ja liða úrslit eftir áramótin. vs@mbl.is