Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR var aðeins höggi frá því að komast í gegnum niðurskurð keppenda á Cambia Portland Classic-mótinu í golfi í Bandaríkjunum í gær.

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR var aðeins höggi frá því að komast í gegnum niðurskurð keppenda á Cambia Portland Classic-mótinu í golfi í Bandaríkjunum í gær. Lék hún annan hringinn á 72 höggum eða pari vallarins, eins og hún gerði á fyrsta hringnum á fimmtudag, og hafnaði í 83. sæti.

Ólafía fór vel af stað og paraði fyrstu fjórar holurnar en á fimmtu braut fékk hún skramba. Næstu ellefu holur spilaði hún vel þar sem hún fékk níu pör og tvo fugla en á sautjándu holu fékk hún skolla. Hún fékk svo fugl á átjándu og síðustu holunni og endaði eins og áður sagði á 72 höggum, eða pari.

Mótunum fer fækkandi hjá Ólafíu á þessu keppnistímabili. Hún er í 138. sæti á peningalista LPGA og þarf á góðri frammistöðu að halda á næstunni til að komast ofar á þeim lista og endurnýja þannig keppnisrétt sinn á næsta ári.