Mjólkurvörur sem sæta opinberri verðlagningu verðlagsnefndar búvara hækka í verði í dag um nálægt 5%. Mjólkurlítrinn hækkar um 6 krónur, í 132 krónur sem er 4,8% hækkun.

Mjólkurvörur sem sæta opinberri verðlagningu verðlagsnefndar búvara hækka í verði í dag um nálægt 5%. Mjólkurlítrinn hækkar um 6 krónur, í 132 krónur sem er 4,8% hækkun. Smásöluverð er frjálst þannig að endanlegt verð út úr búð getur breyst meira eða minna. Heildsöluverð á undanrennu, rjóma og osti hækkar um nálægt 5% en smjör hækkar meira, eða um 15%.

Grundvöllur verðlagningarinnar er hækkun mjólkurverðs til bænda og hækkun vinnslukostnaðar mjólkursamlaga. Lágmarksverð á mjólkurlítra sem afurðastöðvar eiga að greiða kúabændum hækkar um rúmar 3 krónur, í 90,48 krónur sem er 3,5% hækkun.

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, vekur athygli á því að verð mjólkurvara hafi ekki breyst í 20 mánuði. Hækkunin nú sé til að standa undir auknum kostnaði við búreksturinn, meðal annars vegna launahækkana annars staðar í samfélaginu. Þá hafi verð fyrir nautgripakjöt lækkað.

helgi@mbl.is