Netið er veiðarfæri og það getur verið hættulegt að lenda í möskvum þess

Netglæpir verða stöðugt algengari eins og margir þekkja og glæpastarfsemi á netinu er án landamæra. Í vikunni var greint frá könnun lögreglu á umfangi slíkra brota. Rúmur fimmtungur þátttakenda í þolendakönnuninni kvaðst hafa orðið fyrir tilraun til netbrots árið 2016 og kæmi ekki á óvart ef sú tala hefði hækkað. 1,5% svarenda höfðu tapað fé. Kvaðst einn þeirra hafa tapað rúmlega einni milljón króna.

Netglæpir eru margvíslegir. Flestir urðu fyrir því að reynt var að svíkja af þeim fé í gegnum net eða síma. Þá komu tilraunir til að nota kreditkortanúmer með ólögmætum hætti og tilraunir til fjárkúgunar, ýmist með tölvuvírusum eða dreifingu mynda.

Í frétt Morgunblaðsins um rannsóknina segir að þar komi fram að umhverfi netsins bjóði upp á aukna möguleika til að villa á sér heimildir og blekkja og það hafi brotamenn nýtt sér. Mikil netnotkun á Íslandi auki jafnframt líkur á brotum á netinu.

„Líklegt má ætla að brotamenn muni halda áfram að reyna að finna nýjar leiðir til að nýta upplýsingatækni til að svíkja og kúga fé af fólki,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar. „Það er því mikilvægt að fylgst sé vel með þróun í þessum málaflokki. Þá er ekki síður mikilvægt að forvarnir gegn þessum tegundum brota nái til notenda, að notendur séu upplýstir jafnóðum um nýjar aðferðir brotamanna við að ná peningum af einstaklingum í gegnum net og síma.“

Við þetta má bæta að netnotendur gera rétt í því að hafa ávallt varann á þegar þeir fara um netið því að það er veiðarfæri og það getur verið hættulegt að lenda í möskvum þess.