Laugardalsvöllur Þýska landsliðið æfði á vellinum í gær. Búast má við um 10.000 manns á leiknum í dag.
Laugardalsvöllur Þýska landsliðið æfði á vellinum í gær. Búast má við um 10.000 manns á leiknum í dag. — Morgunblaðið/Eggert
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Mikil spenna ríkir fyrir leik íslenska kvennalandsliðsins gegn því þýska í undankeppni HM í knattspyrnu sem leikinn verður klukkan 14.55 á Laugardalsvelli í dag.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Mikil spenna ríkir fyrir leik íslenska kvennalandsliðsins gegn því þýska í undankeppni HM í knattspyrnu sem leikinn verður klukkan 14.55 á Laugardalsvelli í dag. Leikurinn er einn sá stærsti í sögu kvennalandsliðsins, en með sigri tekur það stórt skref í átt að heimsmeistaramótinu í Frakkalandi á næsta ári. Uppselt er á leikinn og er það í fyrsta sinn sem uppselt er á leik kvennalandsliðsins hér á landi, en Laugardalsvöllur tekur um 9.800 manns í sæti. Áhorfendamet kvennalandsliðsins mun því falla í dag, en þetta er langtum meiri fjöldi en sótt hefur leiki kvennalandsliðsins síðustu ár. Síðast var sett met þegar ríflega 7.000 manns sáu leik liðsins við Brasilíu í aðdraganda EM í fyrra.

Ómar Smárason, markaðsstjóri KSÍ, segir að talsverður viðbúnaður sé í kringum leikinn. „Þetta er í raun sami viðbúnaður og alltaf þegar uppselt er á landsleik á Laugardalsvelli. Það er í sjálfu sér bara box sem við þurfum að tikka í varðandi þjónustu, öryggisgæslu og annað. Þegar þessi fjöldi er á leikjum verður að vera ákveðið viðbragð,“ segir Ómar.

Gríðarlegur áhugi í Þýskalandi

Mikill fjöldi starfsmanna á vegum þýska ríkissjónvarpsins verður viðstaddur leikinn í dag, en gríðarlegur áhugi er fyrir leiknum í Þýskalandi. Alls verður þýska ríkissjónvarpið með um 70 starfsmenn á leiknum. Til marks um mikinn áhuga þar í landi var ákveðið að breyta tímasetningu leiksins að ósk þýska ríkisútvarpsins. „Ég þekki ekki nákvæmlega ástæður þess en þýska sjónvarpið hefur mikil áhrif á þetta líkt og sjónvarpsrétthafar hafa oft. Það óskaði eftir þessu og enginn á vegum KSÍ eða Stöð 2 Sport gerði athugasemd við það,“ segir Ómar og bætir við að leikurinn verði í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. „Það er ekki regla að leikir sem þessir séu í opinni dagskrá en það var hins vegar samkomulagið milli okkar og þeirra að hafa það þannig,“ segir Ómar.

Spurður hvort margir fjölmiðlamenn verði að störfum í kringum leikinn kveður Ómar nei við. Þó verði um tíu fjölmiðlamenn frá nokkrum löndum. „Það verða tíu fjölmiðlamenn frá hinum ýmsu löndum, þar á meðal Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi. Þess utan verða auðvitað ýmsir tæknimenn, lýsendur og aðrir starfsmenn frá þýska sjónvarpinu,“ segir Ómar.

Tólfan hitar upp á Ölveri

Fyrir leik kvennalandsliðsins í dag verður stuðningsmannasvæði á bílastæðunum fyrir framan Laugardalsvöll þar sem áhorfendur geta hitað upp fyrir leikinn og byggt upp stemningu. Að sögn Ómars er vert að benda fólki á að talsvert færri bílastæði standa til boða sökum stuðningsmannasvæðisins. KSÍ bendi fólki á að nýta sér almenningssamgöngur.

Upphitun mun hefjast um tveimur klukkustundum fyrir leik og er fólk hvatt til að mæta tímanlega. Á svæðinu verður boðið upp á tónlistaratriði, blöðrulistamenn, knattþrautir, andlitsmálningu og hoppukastala. Þá mun Jóhanna Guðrún auk annarra tónlistarmanna halda uppi fjörinu fram að leik.

Á sama tíma verða meðlimir Tólfunnar með upphitun á Ölveri í Laugardal. Hilmar Jökull Stefánsson, einn forsprakka Tólfunnar, segir að gríðarleg spenna sé meðal meðlima Tólfunnar fyrir leiknum. „Við erum allir gríðarlega spennir og höfum mikla trú á stelpunum í dag. Við ætlum að hittast á Ölveri klukkan tólf og förum síðan á stuðningsmannasvæðið um klukkutíma fyrir leik. Þar ætlum við að reyna að gíra fólk almennilega upp í leikinn,“ segir Hilmar, sem er vongóður um að íslenska liðinu takist að ná í góð úrslit í leiknum í dag. „Við í Tólfunni munum allavega syngja og tralla allan leikinn og styðja þétt við bakið á þeim. Það er vonandi að þær nái í góð úrslit og taki skref í átt að HM,“ segir Hilmar.

Athygli vakin á Parkinson

Fyrir leikinn í dag munu ellefu íslenskar konur, sem allar glíma við Parkinsonsjúkdóminn, ganga inn á völlinn. Þar munu þær standa samhliða íslenska landsliðinu á meðan þjóðsöngurinn er leikinn, en þetta er gert til að vekja athygli á sjúkdómnum. „Eins og sjást mun í dag þarf að leiðrétta þann misskilning að Parkinson sé öldrunarsjúkdómur, en því miður er fólk á öllum aldri að greinast með sjúkdóminn,“ segir Vilborg Jónsdóttir, formaður Parkinsonsamtakanna, sem vonast til að með þessu verði fólk betur meðvitað um sjúkdóminn. Þá sé afar ánægjulegt að vekja athygli á málefninu þegar nýtt áhorfendamet verður slegið á kvennalandsleik á Laugardalsvelli.