Ingvi Árnason, trillukarl frá Akureyri, fór fyrst á sumarsíld þegar hann var 15 ára gamall. Hann hafði þó ekki aldur til þess að láta munstra sig á Þerney, en það hét báturinn, því lágmarksaldurinn var 16 ár.

Ingvi Árnason, trillukarl frá Akureyri, fór fyrst á sumarsíld þegar hann var 15 ára gamall. Hann hafði þó ekki aldur til þess að láta munstra sig á Þerney, en það hét báturinn, því lágmarksaldurinn var 16 ár. Hins vegar var hann svo ákveðinn að fara á síldveiðar sumarið 1933 að hann laug upp á sig ári og sagði fulltrúa sýslumannsins að hann væri 16 ára.

Ári seinna fór Ingvi aftur á sumarsíld á Þerney. Í þetta sinn gaf hann upp réttan aldur sinn og kvaðst vera 16 ára. Fulltrúi sýslumanns, sem var sá sami og áður, leit þá á hann alvarlegum augum og sagði fullur hluttekningar:

„Þú eldist hægt, vinur minn.“