Ferðamaður Skoðar listaverkið og víravirki af konu er fyrir stafninum.
Ferðamaður Skoðar listaverkið og víravirki af konu er fyrir stafninum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Óvenjulegt listaverk vekur athygli þeirra sem fara um hafnarsvæðið á Suðureyri; útsýnispallur með stafni og framan við hann er víravirki sem sýnir útlínu konu með opinn faðminn.

Óvenjulegt listaverk vekur athygli þeirra sem fara um hafnarsvæðið á Suðureyri; útsýnispallur með stafni og framan við hann er víravirki sem sýnir útlínu konu með opinn faðminn. Verk þetta er hönnun Lilju Rafneyjar, en hugmyndin að því bar sigur úr býtum þegar sjávarútvegsfyrirtækið Klofningur ehf. á Suðureyri efndi árið 2008 til samkeppni um umhverfisverkefni í þorpinu. Margir leggja leið sína að pallinum og horfa þar til hafs – og virða svo fyrir sér sjómannskonuna sem þarna stendur og bíður eftir manni sínum, syni eða öðrum ástvini.

„Mér fannst þetta vera áhugavert verkefni og mín teikning og tillaga fékk náð fyrir augum dómnefndar, sem mér þótti afar vænt um,“ segir Lilja Rafney. Þröstur Marselíusson á Ísafirði smíðaði þetta listaverk sem heitir Markúsína og er nefnt eftir föðurömmu þingkonunnar,Markúsínu Jónsdóttur,sem sjálf átti eiginmann og fimm syni sem sóttu sjóinn og fórust tveir þeirra af slysförum til sjós. Rafn Ragnarsson drukknaði ungur í sjóslysi 1955 og var föður Lilju Rafneyjar þá aðeins 16 ára gömlum naumlega bjargað þegar báturinn sökk eftir árekstur við breskan togara. Seinna dó annar sonur hennar Jón Ingimarsson í slysförum á bát sínum 1981.

Sterkar og þrautseigar

„Sjórinn gefur og sjórinn tekur það hefur verið raunin á Íslandsmiðum í gegnum aldirnar og ég ber mikla virðingu fyrir sjómannastéttinni og sjómannskonum sem hafa í gegnum tíðina verið sterkar og þrautseigar og haldið utan um fjölskylduna í blíðu og stríðu,“ segir Lilja Rafney.