Þóranna Kristín Hjálmarsdóttir fæddist á Kambi í Deildardal 12. apríl 1936. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki 19. ágúst 2018.

Foreldrar hennar voru Hjálmar Pálsson bóndi, f. 3. mars 1904, d. 15. apríl 1983, og Steinunn Hjálmarsdóttir, f. 11. júní 1905, d. 15. júlí 1942.

Systkini Þórönnu eru Guðrún Hjálmarsdóttir, f. 23.12. 1928, d. 8.1. 2018. Páll Ágúst Hjálmarsson, f. 22.12. 1929. Hjálmar Ragnar Hjálmarsson, f. 3.3. 1931, d. 10.1. 1998. Guðfinna Ásta Hjálmarsdóttir, f. 9.8. 1932, d. 1.12. 2014. Höskuldur Hjálmarsson, f. 13.11. 1934, d. 11.7. 1935. Hulda Hjálmarsdóttir, f. 13.11. 1934, d. 9.7. 1935. Hulda Hjálmarsdóttir, f. 28.9. 1938. Skarphéðinn Hjálmarsson, f. 30.9. 1940. Stúlka Hjálmarsdóttir, f. 10.7. 1942, d. 10.7. 1942.

Þóranna giftist Lárusi Hafsteini Lárussyni, f. 15.12. 1940, d. 11.4. 2007. Foreldrar hans voru Lárus Ingvar Sigurðsson, f. 10.4. 1911, d. 9.9. 1999, og Daníela Jóna Jóhannesdóttir, f. 14.4. 1914, d. 8.3. 1981.

Börn Þórönnu og Hafsteins eru: Þórður Steinar Lárusson, f. 16.8. 1965, kvæntur Þorbjörgu Bergsdóttur, f. 21.8. 1965, synir þeirra eru Þorsteinn Orri, f. 26.2. 1992. Þorbjörn Atli, f. 26.3. 1994, sonur hans Þorbjörn Adam, f. 23.8. 2010, og Þórður Berg, f. 30.3. 2001. Dætur Þórðar og Brynju Júlíusdóttur, f. 19.1. 1967, d. 12.12. 2009, eru Lára Dögg, f. 20.6. 1985, sambýlismaður Sigmar Örn Pétursson, f. 6.11. 1982. Börn þeirra eru Hafsteinn Ingi, f. 18.8. 2005, Daníel Þór, f. 30.9. 2009, og Anna Guðbjörg, f. 23.1. 2015. Sólveig Anna, f. 20.9. 1988, sambýlismaður hennar er Hilmir Gunnar Ólason, f. 18.1. janúar 1991, börn þeirra Ásdís Ýr, f. 11.11. 2010, Reynir Logi, f. 27.6. 2012, París Anna, f. 29.3. 2013, og Brynja Björk, f. 12.5. 2018.

Einar Jóhannes Lárusson, f. 13.6. 1967, kvæntur Sólveigu Birnu Gísladóttur, f. 6.1. 1973, börn þeirra eru Gísli Hafsteinn, f. 17.1. 2008, og Birna Sól, f. 28.6. 2010. Dætur Einars og Guðrúnar Helgu Harðardóttur, f. 28.6. 1972, eru Rebekka Ýr, f. 28.12. 1992, og Sunneva Eir, f. 7.8. 1996. Steinunn Daníela, f 28.1. 1976, sambýlismaður Sigurjón Leifsson, f. 12.1. 1971, börn þeirra eru Þóranna Ósk. f. 26.4. 1996, Hafdís Lind, f. 27.12. 1999, Ívar Elí. f. 17.1. 2011.

Þóranna ólst upp á Kambi til sex ára aldurs þegar móðir hennar lést af barnsförum. Þá fór hún í fóstur á Háleggsstaði til Þórðar Hjálmarssonar, f. 3.8. 1879, d. 2.1. 1978, og Þórönnu Þorgilsdóttur, f. 2.5. 1879, d. 11.9. 1963.

Hún fór í Húsmæðraskólann á Löngumýri. Hún var mikil hannyrðakona og eru til mörg listaverkin eftir hana.

Síðan fór hún að vinna við síld á Siglufirði og fór síðan til Reykjavíkur og vann þar á Vífilsstöðum, hóteli og Skálatúni.

Í janúar 1959 fór hún vestur til Hnífsdals til að vinna í fiski. Þar kynntist hún eiginmanni sínum Hafsteini og hófu þau búskap í Hnífsdal. Árið 1964 fluttu þau á Háleggsstaði í Deildardal og bjuggu þar til 1998, með búskap, en hún vann líka með í frystihúsinu á Hofsósi þegar þau seldu vegna veikinda Hafsteins. Bjuggu þau á Hofsósi til 2000 en þá fluttu þau á Sauðárkrók. Þóranna dvaldi á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki síðustu tvö árin

Útför Þórönnu fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 1. september 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma mín, ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur verið mér og mínum og hlýja mér við góðar minningar um þig, og veit að nú eruð þið pabbi loksins sameinuð.

Þú vildir allt fyrir alla gera og varst svo glöð og stolt þegar vel gekk hjá okkur og börnunum mínum, en hafðir líka miklar áhyggjur þegar eitthvað var að hjá okkur.

Þið pabbi voruð yndislegir foreldrar og mun ég varðveita minningu ykkar um aldur og ævi.

Takk fyrir allt.

Ég kveð þig með ást og söknuði, elsku mamma.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

Hún hafði ásjónu engils

sem frá stafaði ilmur

umhyggju og vináttu,

ástar og kærleika.

Hún var farvegur kærleika Guðs,

kærleika sem ekki krafðist endurgjalds.

Hún var vitnisburður

um bestu gjafir Guðs,

trúna, vonina, kærleikann og lífið.

Blessuð sé minning einstakrar perlu.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Þín dóttir

Steinunn Daníela.

Elsku amma.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

Takk fyrir allt.

Þóranna Ósk, Hafdís Lind og Ívar Elí.

Þóranna kom inn í líf okkar fjölskyldunnar 1959. Þá kynntust þau Hafsteinn bróðir, hann var þá að læra húsasmíðar og hún kom til þess að vinna í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal ásamt Ragnheiði vinkonu sinni og Hjálmari föður sínum. Þau Hafsteinn hófu sambúð í Grænadal 1962. Og litla stelpuskottið ég hlakkaði til að kynnast þessari stelpu sem stóri bróðir var að kynnast, henni Þórönnu. 13. apríl 1963 er stór dagur í fjölskyldunni, bræðurnir Lárus Hafsteinn og Einar Jóhannes kvæntust Þórönnu og Finneyju í Kapellunni í Hnífsdal og stutt að fara í veisluna, yfir götuna á Bakkaveg 10, hjá foreldrum okkar. Kynni okkar Þórönnu urðu góð og ævinlega gott að heimsækja þau, hvort heldur var í Hnífsdal eða norður í Skagafjörð.

Sumarið 1965 var fyrsta ferð mín norður til þeirra í Deildardal í nokkra daga. Þá var Stella með í för og ýmislegt myndað á kvikmyndatökuvél sem frægt varð í fjölskyldunni og margir búnir að hafa gaman af, þó ég hafi ekki enn séð myndbrotin öll. Mikið var gaman og allir kátir, húsið málað og mikið hlegið.

Við Stefán komum fyrst saman norður 1968 og þá var heyskapur á fullu og nóg af sól og blíðu í Deildardalnum. Og bræðurnir Þórður og Jói fæddir og loks prinsessan. Þegar við hjónin komum með drengina okkar notuðu þau stundum tækifærið og skruppu með börnin til ættingja suður eins og sagt var, en við hjónin pössuðum að allt gengi sinn vanagang í sveitinni á meðan, með dyggri aðstoð sumardvalardrengjanna að sjálfsögðu. Skemmtilegur tími á Háleggsstöðum.

Og þó húsakynnin væru ekki tiltakanlega stór var ótrúlegt hve margir gátu samt gist þar og um réttirnar var sofið í öllum krókum á Háleggsstöðum og mikil kátína. Slegið upp veislu og terturnar hennar voru víðfrægar. Aldrei hef ég náð að baka eins góða brúna randalínu og Þóranna, og þykist ég þó nota uppskriftina hennar.

Það fækkar ört í hópnum okkar. Nú bætist fallega söngröddin þín í raddirnar á efri hæðinni og mikið verður sungið, og sungið, heyri „Vagga, vagga, . . .“ hljóma og pabba strjúka fingurgómana af tilfinningu.

Ég kveð Þórönnu með kærleika og veit að vel er tekið á móti henni, þar sem við hittumst, þegar minn dagur kemur.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Valdimar Briem)

Þín mágkona,

Bára Björk.