Ingi Tryggvason fæddist á Litlulaugum í Reykjadal 14. febrúar 1921. Hann lést á Skógarbrekku, hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands 22. ágúst 2018.

Foreldrar hans voru Tryggvi Sigtryggsson, f. 20.11. 1884, d. 1.12. 1986, bóndi á Laugabóli í Reykjadal og kona hans Unnur Sigurjónsdóttir húsfreyja, f. 13.7. 1896, d. 14.3. 1993, dóttir Sigurjóns Friðjónssonar skálds og alþingismanns. Systkini Inga; 1) Haukur, f. 5.9. 1922, d. 17.3. 1940; 2) Eysteinn, f. 19.7. 1924; 3) Ágrímur, f. 16.5. 1926; 4) Kristín, f. 16.7. 1928, d. 28.12. 2017; 5) Helga, f. 26.5. 1930, d. 13.5. 2013; 6) Hjörtur, f. 30.3. 1932, d. 14.8. 1913; 7) Ingunn, f. 9.12. 1933, d. 4.11. 2009; 8) Dagur, 21.7. 1937, d. 18.2. 2009; 9) Sveinn, f. 30.1. 1939, d. 18.1. 2003; og 10) Haukur, f. 20.8. 1941.

Þann 17. október 1951 kvæntist Ingi Önnu Septímu Þorsteinsdóttur, f. 17.10. 1921, d. 22.3. 1986. Foreldrar Önnu voru Þorsteinn Jóhannsson bóndi í Götu á Árskógsströnd og kona hans Helga Einarsdóttir. Ingi og Anna eignuðust fimm syni; 1) Haukur Þór vélamaður, f. 24.3. 1952, d. 16. 4. 2018; 2) Tryggvi, bóndi á Kárhóli og Narfastöðum, f. 18.10. 1953, d. 1.8. 1984. Sonur Tryggva og Sigríðar Guðjónsdóttur er Guðjón Þór stýrimaður, f. 20.4. 1974. Dætur Tryggva og Ingibjargar Arnkelsdóttur eru Brynja Dröfn hjúkrunarfræðingur, f. 13.2. 1976, og Eyrún Ýr kennari, f. 29.8. 1978. Dóttir Tryggva og Ingibjargar Ingadóttur er Anna Birta, f. 23.4. 1985. 3) Þorsteinn Helgi fyrrverandi útgerðarmaður og fiskverkandi, f. 13.10. 1955. Sonur hans og Guðrúnar Bjartmarz var Brynjar, f. 19.8. 1980, d. 10.10. 2001; 4) Steingrímur framkvæmdastjóri í Hveragerði, f. 3.3. 1960, maki Guðný Eygló Gunnarsdóttir. Sonur þeirra er Fannar Ingi, nemi, f. 7.10. 1998, og börn Eyglóar Guðmundur Gunnar Guðnason, f. 18.10. 1980, og Thelma María Guðnadóttir, f. 27.9. 1983; 5) Unnsteinn framkvæmdastjóri, f. 16.2. 1966, maki Rósa Ösp Ásgeirsdóttir. Börn þeirra eru Anna Karen nemi, f. 16.7. 1997, og Ásgeir Ingi nemi, f. 22.3. 1999.

Sambýliskona Inga var Unnur Kolbeinsdóttir kennari, f. 27.7. 1922, d. 14.9. 2016.

Ingi ólst upp á Litlulaugum, en flutti með foreldrum sínum á nýbýlið Laugaból á níunda aldursári og ólst þar upp í stórum systkinahóp. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Laugum, tók kennarapróf frá KÍ 1942, viðbótarnám við Kennaraskólann í Kaupmannahöfn 1946-1947 og auk þess nám í ensku og enskum bókmenntum í London 1947-1948.

Ingi stundaði kennslustörf til 1970, lengst af við Héraðsskólann á Laugum. Jafnhliða kennslu reisti Ingi ásamt Önnu nýbýlið Kárhól í Reykjadal árið 1954 og stundaði þar búskap samhliða öðrum störfum, lengst af með syni sínum Tryggva. Ingi og Anna héldu einnig heimili í Reykjavík frá 1971 til dánardægurs Önnu 1986. Árið 1988 hóf Ingi ferðaþjónustubúskap með dyggri aðstoð Unnar sambýliskonu sinnar á Narfastöðum í sömu sveit, síðar í samvinnu við son sinn og tengdadóttur, Unnstein og Rósu Ösp, og var þar skógarbóndi til dánardags. Ingi var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykdæla (síðar Þingeyinga) 1952-1974, starfaði sem forstöðumaður upplýsingaþjónustu landbúnaðarins 1970-1974 og forstöðumaður ullar- og skinnaverkefnis Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1978-1980.

Ingi sat í stjórn Sparisjóðs Reykdæla 1952-1982. Í hreppsnefnd Reykdælahrepps 1966-1974. Í stjórn Sambands íslenskra sparisjóða 1967-1981. Í stjórn Stéttarsambands bænda 1969-1987, formaður stjórnarinnar frá 1981-1987. Skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd laga um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Í Sexmannanefnd - verðlagsnefnd landbúnaðarins 1972-1987. Í skólanefnd Héraðsskólans á Laugum 1974-1982, formaður 1974-1978. Í tryggingaráði 1974-1978. Í stjórn Landverndar 1975-1981. Í Framleiðsluráði landbúnaðarins 1976-1987, formaður þess frá 1980. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1978. Stjórnarformaður Grænmetisverslunar landbúnaðarins 1980-1987. Í stjórn Norrænu bændasamtakanna 1981-1987. Í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1982-1990 og í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 1982-1988. Ingi kom að uppbyggingu Ferðaþjónustu bænda, sat þar í stjórn og lengi formaður.

Ingi sat í stjórn kjördæmissambands Framsóknarmanna á Norðurlandi eystra og gegndi þar tímabundið formennsku, var formaður Framsóknarfélags Reykdæla um skeið og sat í miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1972. Ingi var varaþingmaður Framsóknarflokksins 1971-1974 og 1978-1979 og þingmaður Framsóknarflokksins 1974-1978.

Jarðsungið verður í dag, 1. september 2018, frá Einarsstaðakirkju klukkan 14.

Nú er faðir minn genginn á vit feðra sinna eftir langa og farsæla ævi. Ég sé ævi hans fyrir mér í þremur nánast jafn löngum æviskeiðum. Hann tók að sér mörg verkefni á lífsleiðinni, sem sumum við synir hans tókum þátt í. Og nú í minningunni verður fyrsta hlutverk mitt stærst og minnisstæðast. Sparisjóður Reykdæla hafði aðsetur í „austurherberginu“ á efri hæðinni á Kárhóli. Rammgerður peningaskápurinn og risastórt skrifborðið hafði yfir sér nokkra dulúð í augum ungs drengs. Þessu herbergi bar að sýna sérstaka virðingu.

Og hana upplifði ég ríkulega endurgoldna, að fá að taka þátt í uppgjörum og þá sérstaklega áramótauppgjörinu. Handtrekkt reiknivélin var ekki afkastamikil og því heppilegra að lesa saman strimil og handskráða sjóðbókina með aðstoðarmanni, og upphefðin var mikil fyrir dreng sem mældi aldur sinn í eins stafs tölu. Þessar stundir eru mér enn fimmtíu árum síðar ógleymanlegar.

Í bústörfunum fengum við, orkumiklir og fljóthuga bræðurnir, útrás sem fullgildir vinnumenn svo skjótt sem máttur leyfði, en máski ekki eftir nútímauppskrift. Eflaust mjög mótandi umhverfi og við upplifðum í engu að við lifðum á útjaðri veraldar.

Nú þegar Kárhólsfjölskyldan er orðin stærri handan okkar efnisheims leitar hugurinn ekki aðeins til pabba, heldur ekki síður með honum til bræðra minna elstu, Hauks og Tryggva, sem hvorugur nutu langs ævikvölds og í auðmýkt til móður minnar Önnu sem af skilyrðislausri ást og ósérhlífni studdi pabba í einkalífi og í öllum þeim samfélagslegu verkefnum sem hann hefði ekki einn mátt anna.

Endurkoma pabba í Reykjadalinn reyndist honum sérlega ánægjuleg, kominn á eftirlaun og búinn að kaupa Narfastaði. Uppbygging ferðaþjónustunnar með Unni og síðar Unnsteini og Rósu og enn frekar er á leið skógræktin, sem átti hug hans allan allt til hinsta dags.

Í samvinnu við Bændaskóga plantaði hann á þremur áratugum til dagsins í dag yfir 397 þúsund trjáplöntum sem nú eru vöxtulegur skógur þær elstu. Í ánægjulegri grisjunarferð fyrir tveimur árum viðurkenndi hann af hógværð, að hann hefði nú ekki búist við að sjá sjálfur svona stór tré í sínum skógi.

En það var ekki aðeins skógræktin sem gæddi líf pabba á hans langa ævikvöldi.

Mikil gæfa og gleði fylgdi Unni Kolbeinsdóttur, sambýliskonu hans til tæpra þriggja áratuga, og þau héldu heimili í Reykjavík fram á vor fyrir tveimur árum. Þökk sé Unni og hennar fjölskyldu voru veturnir í Reykjavík fullir menningarviðburða og lífi, og fyrr en varði var komið vor í Reykjadal og tími kominn til að hefjast handa með móður jörð.

Sveitin kæra, yfir öllu þínu

andi drottins vaki nótt sem dag.

Ég vil þar mega halla höfði mínu,

í hljóðri bæn, við fagurt sólarlag.

(Guðmundur Halldórsson.)

Steingrímur.

Ingi var elsti bróðir hennar mömmu og hefur staðið okkur nærri allt mitt líf. Þegar ég var að alast upp var Ingi bóndi á Kárhóli í Reykjadal en jafnframt því sinnti hann ýmsum öðrum störfum sem ég tel ekki upp hér. Á Kárhóli var stórt heimili og alltaf mikið um að vera. Þar bjuggu þau hjónin, hann og Anna S. Þorsteinsdóttir, fimm synir þeirra, foreldrar Önnu, og vinnufólk. Þangað fannst mér gaman að koma.

Alltaf eitthvað að gerast, fólk að koma og fara því margir áttu erindi við Inga og frændur mínir skemmtilegir og uppátækjasamir.

Þegar ég varð fullorðin og kynntist honum betur kunni ég alltaf betur og betur að meta þennan merka mann. Hann var ótrúlega duglegur, hugurinn alltaf síungur og ótrúlegt hverju hann kom í verk. Ingi varð fyrir tveim þungum áföllum, þá kominn á sjötugsaldur þegar Tryggvi sonur hans lést 1984, 30 ára að aldri og tæpum tveim árum seinna lést

Anna konan hans. Hann tók þessu af æðruleysi og eftir þetta skipti hann um starfsvettvang og eignaðist sambýliskonu til nærri 28 ára, Unni Kolbeinsdóttir sem varð honum mikils virði. Unnur lést í september árið 2016. Ingi byggði upp heilmikla ferðaþjónustu á Narfastöðum í Reykjadal og stundaði skógrækt af miklum áhuga og dugnaði þar til yfir lauk. Ingi var um margt óvenjulegur maður. Hann var félagslyndur og hafði mjög gaman af að segja frá. Þær munu lifa með okkur áfram, margar af skemmtilegu sögunum sem hann sagði.

Hann hafði alltaf framtíðarsýn og var stöðugt með hugann við það sem hann ætlaði að gera næst. Þegar við fórum með honum síðast á „apparatinu“ til að skoða skógræktina sýndi hann okkur hvar næst ætti að planta og hverju ætti að breyta. Hann var svo áhugasamur að hann gat varla gefið sér tíma til að fara í aðgerð á hné þó að það væri orðið honum til vandræða. Hann fór svo loks í aðgerðina, kominn á tíræðisaldur. Ingi var glaðvær, og ótrúlega fróður og gaman að hlusta á hann rifja upp liðna tíð. Hann hafði farið víða bæði hér á landi og erlendis og kynnst ýmsu bæði í leik og starfi og hafði frá svo mörgu að segja.

Hann var alltaf góður frændi. Þegar við keyptum Kárhól af honum gerði hann allt sem hann gat til að það gengi vel hjá okkur. Hann sýndi mér og fjölskyldunni allri hlýju og nærgætni í gegnum árin, sem aldrei gleymist. Það er eiginlega óskiljanlegt að Ingi skuli vera farinn. Ég held að ég hafi verið farin að halda að hann yrði alltaf hér með okkur.

Ingi missti Hauk, elsta son sinn, skyndilega síðastliðið vor en því tók hann með æðruleysi eins og öðru því sem að höndum bar. Ég veit að hann fór sáttur, þó það sé ekki langt síðan hann sagðist gjarnan vilja lifa lengur því enn langaði hann til að rækta meira. Honum leið vel á Húsavík og er fjölskylda hans starfsfólki sjúkrahússins á Húsavík afar þakklát fyrir góða umönnun. Ég kveð þennan kæra frænda minn með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir allar góðu stundirnar og sendi Þorsteini, Steingrími, Unnsteini og ástvinum öllum, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Unnur Harðardóttir

Á þessari kveðjustund kemur í huga þakklæti fyrir að hafa verið í fjölskyldutengslum við Inga í um þrjá áratugi. Margt ber að þakka, m.a. allar áhugaverðuµ samræðurnar. Hann var hafsjór af fróðleik og skemmtilegum frásögnum og fylgdist vel með öllum dægurmálum.

Sérlega gaman var að hlusta á hann lýsa dvöl sinni og lífskjörum í Kaupmannahöfn og London á árunum eftir stríð en þangað tókst honum að komast, rekinn áfram af löngun til að afla sér aukinnar menntunar. Eins var frásögn hans af því er hann hóf sitt fyrsta kennslustarf. Hann þurfti að komast úr Reykjadal austur á land en sökum veðurs voru engar samgöngur. Það var ekki í hans stíl að mæta ekki á réttum tíma fyrsta daginn í vinnuna, jafnvel þótt ófært væri. Vopnaður gönguskíðunum lagði hann einn af stað yfir Öræfin. Þessi frásögn af Inga ungum sýnir skýrt þá eiginleika sem voru áberandi í fari hans; samviskusemi og ábyrgðartilfinning en líka kraftur og þor til að takast á við krefjandi aðstæður. Því Ingi var ekki smeykur við að takast á við ný verkefni og verkefnin voru ávallt mörg. Það nægði honum ekki að vera kennari heldur var hann einnig bóndi á nýbýli. Það nægði honum heldur ekki að vera ferðaþjónustubóndi heldur var hann einnig stórvirkur skógræktarbóndi. Fyrir nú utan öll félagsmálin.

Eftir annasama og farsæla starfsævi, þegar flestir fara að setjast í helgan stein þá breytti hann um enn einu sinni, og hellti sér út í ferðaþjónustu og var einn helstu frumkvöðla á því sviði á Íslandi á þeim tíma. Ég var með honum fyrstu tvö sumur ferðaþjónustunnar á Narfastöðum, það var gott að vinna með honum og við áttum alltaf, allt fram á síðustu stund, gott spjall um ferðamál á Íslandi. Raffaele, sonur minn, var fjögurra ára þegar hann kom með mér á Narfastaði til sumardvalar en hann unni dvöl sinni þar svo vel að hvert einasta vor, er skólanum lauk hjá honum á Ítalíu, vildi hann á Narfastaði og var þar langt fram á unglingsár við leik og síðar störf. Inga er ég þakklát fyrir þetta og jafnvel einnig fyrir það að stráksi talaði hálfgerða norðlensku sín fyrstu ár.

Skólasystkinin úr Kennaraskólanum, Ingi og mamma, áttu góða tíma saman eftir að þau voru bæði orðin ekkjufólk. Þau áttu margt sameiginlegt t.d. áhugann á því að ferðast því einhvern veginn tókst Inga að losa mömmu við flughræðsluna. Svo vel að þau fóru m.a. til fjarlægari heimsálfa eins og Asíu, Afríku, Norður-Ameríku og víðar. Margoft komu þau og heimsóttu mig og ég fór með þau um allan Ítalíuskagann og þær ferðir renna seint úr minni því skemmtilegri ferðafélagar verða vart fundnir. Atburðir dagsins voru rifjaðir upp og þá iðulega í bundnu máli. Sama var um ferðir innanlands, minnisstæðust er ferð hans með okkur um Laxárdal og Bárðardal fyrir örfáum árum, þar sem Ingi fræddi okkur um menn og málefni sveitanna og hafði engu gleymt.

Kveðjustundin við Inga, þennan stórhuga, réttsýna og félagssinnaða framámann, er því miður runnin upp. Við Raffaele og Ásmundur þökkum allt og sendum öllum ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Sigurðardóttir.

Kær félagi og viðskiptavinur til 30 ára, Ingi á Narfastöðum, er nú fallinn frá. Samstarf okkar hefur verið farsælt og ánægjulegt frá fyrstu tíð. Á þeim tíma er við kynntumst var alls ekki sjálfgefið að bændur hefðu hug á að hýsa erlenda ferðamenn í híbýlum sínum. Þegar eftir því var leitað var eins og íslenski bóndinn vildi vera sjálfstæður, sinn eiginn herra og of stoltur til að sinna þjónustustörfum. Þetta átti ekki við um Inga, hann var víðsýnn og veraldarvanur. Hann hafði að því leyti gott veganesti í ferðabúskapinn og hafði þor og þrautseigju til að takast á við nýjungar. Það hefur þó á þessum tíma varla verið auðvelt fyrir fyrrverandi formann íslenskra bændasamtaka að hætta hefðbundnum búskap og fara í ferðaþjónustu.

Það var gaman að fylgjast með uppbyggingunni á Narfastöðum, Ingi og Unnur kona hans kunnu að sníða sér stakk eftir vexti. Fyrst var fjárhúsinu breytt í gistiheimili og aðeins fáein herbergi í senn. Héldu margir hann snarruglaðan þegar hann byrjaði að rífa innan úr fjárhúsinu og þá á gamalsaldri. Þegar aðsóknin jókst var hlaðan tekin í gegn og úr urðu fullkomin hótelherbergi. Síðast var gamli bærinn í túnjaðrinum endurbyggður. Samtímis þessum framkvæmdum var allt umhverfið bætt og var ætíð hið smekklegasta. Það var ekki bara nærumhverfið heima við bæ sem hann nostraði við heldur gróðursetti hann um allar trissur á landareigninni alls um það bil hálfa milljón trjáplantna. Ingi var afar stoltur af skóginum sínum og naut ég þess oft að sitja með honum á sexhjólinu um þessar fögru torfærur, nú síðast þegar hann var 94 ára undir stýri. Ingi og Unnur voru sérlega góðir gestgjafar, hann tók á móti hópunum í hlaði, spjallaði gjarnan við þá í setustofu og veifaði brosandi til þeirra í kveðjuskyni. Við leiðsögumenn og bílstjórar sátum oft með Inga í matsalnum í nokkurskonar kennslustund í sögu og náttúrufræði: Er branduglan ennþá á sínum stað, verpti lóan í heimreiðinni í sumar, kom húsöndin á Brunatjörnina? Í árlegum skoðanakönnunum á gæðamati gististaða hjá erlendum gestum okkar voru Narfastaðir iðulega í efstu sætum og eru enn, því það vill svo vel til að sonur og tengdadóttir tóku yfir reksturinn og hefur tekist að þróa starfsemina áfram í anda Inga Tryggvasonar.

Hörður Erlingsson.

reistu í verki

viljans merki, –

vilji er allt sem þarf.

Þessar ljóðlínur úr Íslandsljóði Einars Benediktssonar koma mér í hug þegar ég sest niður til að minnast vinar míns Inga Tryggvasonar. Þótt hann hefði næstum því lifað í heila öld gekk ellinni ekkert að vinna á honum, hlaðinn vilja og kjarki og nýjum eldmóði með blik hugsjónanna að leiðarljósi átti hann margan starfsdag og kom fleiru í verk en flestir aðrir menn sem ég þekki.

„Hann bognaði ekki en brotnaði í bylnum stóra síðast,“og nú eru þeir báðir horfnir, hann og Hafliði Jósteinsson, sem gerðu garðinn frægan í Skógarbrekku síðustu árin með söng og sögum ungmennafélagsmannanna.

Það er gott að minnast Inga Tryggvasonar, hann var hlýr í viðmóti, vinfastur og trúr uppruna sínum, frændmargur meðal Þingeyinga og sprottinn úr þeim jarðvegi hugsjóna- og samvinnumanna sem mótuðu hið nýja Ísland tuttugustu aldarinnar. Ingi var fyrst og fremst bóndi og kennari og hvar sem maður hitti hann var hann að miðla af þekkingu og reynslu lífs síns. Ingi hlaut í vöggugjöf góðar gáfur og mannkosti sem hann ávaxtaði vel og naut góðrar skólagöngu, bæði heima og erlendis, sem víkkaði sjóndeildarhring hans og kennaramenntunin varð honum notadrjúg.

Hann fylgdist vel með stefnu og straumum tímans, naut mikils trausts meðal samferðamanna sinna og er það einstakt hvað hann kom víða við í félagsmálum, bæði í héraði og á landsvísu, alþingismaður kennari og skólastjóri, formaður Stéttarsambands bænda, sparisjóðsstjóri svo lítið eitt sé nefnt. Hann var frumkvöðull og brautryðjandi, brotnaði ekki undan stórum áföllum í einkalífi sínu þegar hann missti konu sína og son á tveggja ára tímabili, þá kominn á aldur þeirra sem eru að setjast í helgan stein.

Egill Skallagrímsson orti sitt sonatorrek en Ingi tók hins vegar haka og plóg sér í hönd og hóf nýja og nýstárlega sókn, flutti sig að Narfastöðum og gerðist leiðtogi tveggja nýrra búgreina. Annarsvegar breytti hann fjárhúsi sonar síns í glæsihótel, lagðprúðar ær viku fyrir prúðbúnum gestum hvaðanæva úr veröldinni. Ingi var góður gestgjafi og magnaður sögumaður og hugsjónaeldurinn heillaði gestina og saga lands og þjóðar lá honum létt á tungu, svo ekki sé talað um þegar hann tók að lýsa fegurð landsins. Jafnframt gerðist hann skógarbóndi tók tvö hundruð hektara lands undir nytjaskóg, báðar þessar atvinnugreinar hafa reynst líf og nýtt tækifæri byggðanna. Og það munaði um Inga sem talsmann þeirra beggja því enginn leit á það sem atvinnu að rækta skóg eða selja útlendingum gistingu fyrir þrjátíu árum síðan.

Þeir sem áttu þess kost að fara um skóginn hans Inga munu seint gleyma þyt laufanna og bóndanum sem var að bæta og prýða landið og byggja upp atvinnu og lífsstarf komandi kynslóða. Hann unni héraði sínu og vildi veg landbúnaðarins og landsbyggðarinnar sem mestan, hann var góður málsvari, félagslyndur, umtalsgóður, prýðilegur ræðumaður, flutti mál sitt án orðalenginga og kunni þá list að hitta á kjarna málsins. Hann talaði gullaldarmál með skýrum og hreinum rómi Þingeyingsins. Hvar sem hann var í forystu eða stýrði umræðu var honum kappsmál að hlusta á sjónarmið annarra og að allir væru virkir í starfinu.

Sagt er að lífsgleðin gefi mönnum þúsund ráð og opni nýja vegi og einn daginn stóð Unnur Kolbeinsdóttir prúðbúin á hlaði höfðingjans eins og skógardís og áttu þau saman margan hamingjudag.

Við Margrét kveðjum Inga Tryggvason með virðingu og þökk.

Guðni Ágústsson.

Ingi Tryggvason hefur nú lokið langri og gifturíkri ævi. Hann var ótrúlega ern framundir það síðasta. Þegar ég heimsótti hann í júlí á öldrunardeildina á Sjúkrahúsinu á Húsavík var hann enn á leið að skipuleggja landrækt og vildi helst fara með mig að „skoða skógræktina“ á Narfastöðum. Það varð ekki enda var þetta draumsýn þess manns sem hugsaði um landið sem lifandi afl sem aldrei vék úr huga hans.

Ingi og Unnur móðir mín voru bekkjarsystkini í Kennaraskólanum fyrir miðja síðustu öld. Þau héldu alltaf góðu sambandi og hittust með samnemendum, en þegar bæði höfðu misst maka sína tóku þau upp sambúð.

Það var mikil gæfa fyrir bæði og þau áttu næstum 30 góð ár saman, ferðuðust um landið og heiminn vítt og breitt, áttu stóran vinahóp að ekki sé minnst á fjölskyldur beggja, sem tóku þessari sambúð afar vel. Þau undu sér vel á Narfastöðum á sumrin, en lengst af bjuggu þau í Lönguhlíðinni að vetrinum en síðustu árin á Sléttuveginum. Ingi var einstakur framkvæmdamaður og féll aldrei verk úr hendi. Mörg sumur á Narfastöðum, þar sem hann breytti fjárhúsum í myndarlega ferðaþjónustu, eru ógleymanlegur tími, ekki síst okkur systrum, sem tókum virkan þátt í uppbyggingunni þar með mömmu og Inga. Þau voru bæði vel hagmælt og skiptust gjarnan á vísum, óteljandi eru stökurnar í gestabókum og bréfum þeirra.

Ingi var góður Íslendingur sem unni landi sínu og þjóð, afar fróður og verkhagur, metnaðarfullur og vandvirkur. Hann var líka heimsborgari, ferðaðist um flestar heimsálfur með sína góðu tungumálakunnáttu og þekkingu á menningu og sögu annarra þjóða.

Ógleymanlegt er ferðalag okkar systkina með mömmu og Inga þvert yfir Atlantshafið þegar mamma var níræð, en Ingi tæplega 92ja ára. Ingi var elstur farþega skemmtiferðaskipsins og hrókur alls fagnaðar. Heimferðin er mér sérstaklega ofarlega í huga, þegar við höfðum öll átt góða daga í New Orleans við dunandi jasstónlist og góðan mat, og haldið var heim í flugi. Mér tókst að týna þeim báðum, Inga og mömmu, þegar við biðum flugs í Denver. Mamma hvarf að kaupa jólagjafir en Ingi þurfti að ganga út fyrir flugstöðina að skoða fjallahringinn og athuga með veðráttuna.

Þannig voru þau allt fram undir það síðasta, forvitin, lífsglöð og virkir þátttakendur í samfélaginu og öllu sem gerðist í kringum þau. Fyrir allt þetta ber að þakka, innilega vináttu og umhyggju Inga og marga ógleymanlega daga bæði norður í Reykjadalnum og annars staðar í veröldinni.

Nú lýkur þessum góðu ævidögum og mikill höfðingi er horfinn inn í skóginn sinn græna, þar sem honum leið alltaf best.

Við Stefán og fjölskyldan þökkum Inga fyrir óteljandi góðar stundir og sendum sonum hans og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Þórunn Sigurðardóttir.

Það er sjónarsviptir að Inga Tryggvasyni sem nú er látinn í hárri elli. Alla ævi var hann ötull athafnamaður og frumkvöðull. Hann unni átthögum sínum, trúði á framtíð þeirra og tók virkan þátt í framþróun og uppbyggingu á heimaslóð. Á ferli sínum var hann kennari, bóndi, félagsmálamaður, sparisjóðsstjóri, alþingismaður, formaður Stéttarsambands og framkvæmdastjóri. Á þeim aldri sem aðrir flestir setjast um kyrrt hóf hann myndarlegan feril sem ferðamálafrömuður og skógræktarmaður á Narfastöðum í Reykjadal.

Það var mikil gæfa móður okkar, Unni Kolbeinsdóttur, að leiðir þeirra Inga lágu aftur saman eftir að bæði voru orðin ekkjufólk. Þau höfðu á unga aldri verið skólasystkin í Kennaraskólanum. Fyrir tæpum þremur áratugum hittust þau aftur og tóku saman. Þau ferðuðust lengi víða, tóku mikinn þátt í hvers konar félagslífi með fólki á sama aldursskeiði, meðal annars kennurum, og áttu saman ánægjulegt og myndarlegt gestrisniheimili, bæði í höfuðborginni og á Narfastöðum.

Þau voru samtaka, tóku gott tillit hvort til hins og veittu hvort öðru félagsskap og vináttu sem jafningjar. Þetta var Inga ekki fullþakkað.

Ingi var sjóður fróðleiks og lífsreynslu og ákaflega áhugamikill um menningu, þjóðþrif og framfarir.

Að loknu kennaraprófi hafði hann ungur sótt sér viðbótarmenntun erlendis, en metnaður hans var allur í heimahögum. Alveg til síðustu daga var hugur hans fullur af hugmyndum og tillögum um verkefni og framkvæmd, ólgandi af dugnaði og vinnugleði. Hann hélt fast í þær hugsjónir sem hann hafði tileinkað sér ungur maður um sveitamenningu og myndarskap, um reisn og framför alls landsins og allrar þjóðarinnar. Trúin á landið og þjóðina vék aldrei frá honum og honum var ævinlega umhugað um ræktun lands og lýðs. Skógræktarbrekkurnar á Narfastöðum eru minnisvarði um þennan ungmennafélaga.

Margar skemmtilegar fróðleiksstundir með Inga lifa í endurminningunni. Hann var hlýr maður, yfirvegaður, viðræðugóður og ræðinn. Hann var bæði námfús á nýmæli og veitull á frásögur, reynslu og þekkingu frá langri tíðindasamri ævi. Í minningunni lifa stundir frá breytingunum miklu sem hann gekkst fyrir á Narfastöðum og vann við eigin höndum, og líka frá skíðagöngu upp um allar hlíðar og úthaga á björtum vetrardegi. Ingi var ótrúlega sterkseigur maður og mátti miklu yngi maður hafa sig allan við, hvort sem var verk eða leikur með Inga.

Nú er kveðjustund að sinni. En fyrst og fremst er að þakka Inga vináttu hans, hlýhug og góðvild. Við sem erum fjölskylda Unnar sendum Þorsteini, Steingrími, Unnsteini og öðrum afkomendum og vandafólki Inga innilegar samúðarkveðjur. Ingi á góða heimvon, Guði falinn.

Jón Sigurðsson.

Öldungur hefur kvatt. Orðið var mál að hvílast eftir langan dag. Margs er að minnast frá liðinni tíð. Fyrstu kynni mín af Inga eru mér í fersku minni.

Þá var ég nemandi hans í Laugaskóla. Landafræðitímarnir þóttu mér oft fyrirkvíðanlegir. Aldrei fékk ég þó ákúrur fyrir lélega frammistöðu þó oft væri ástæða til. Dönskutímarnir voru öðruvísi, þá fékk ég oft viðurkenningarorð. Honum virtist tamara að láta í ljós velþóknun en aðfinnslur.

Löngu síðar kynntist ég kostum hans við allt aðrar aðstæður. Eflaust hefur hann haft sína galla eins og annað fólk, en ég kynntist þeim aldrei.

Ég þekkti bara gamla góða Inga sem alltaf var hægt að tala við um hvað sem var. Manninn sem tók öllu sem að höndum bar með sérstöku jafnaðargeði og yfirvegun.

Það var einstakt að fylgjast með starfsorku hans og framkvæmdaáhuga löngu eftir að hann var kominn á þann aldur sem flestir eru sestir í helgan stein. Eftir að hann var kominn á sjúkrahúsið heimsótti ég hann af og til. Í nokkur síðustu skiptin tók ég eftir að því að eitthvað var farið að skolast til í kolli gamla mannsins.

Hugurinn var þó alltaf heima á Narfastöðum og hann á leiðinni heim að stækka skógræktargirðinguna.

Í okkar síðasta samtali barst talið að skógræktinni eins og venjulega. Þá gat ég sagt honum að nú væri stafalogn, rigning og 14 stiga hiti. „Já, það er nú ekki amalegt fyrir skóginn,“ sagði hann.

Áfram mun sól og regn næra skóginn hans Inga sem verður um ókomna tíð minnisvarði um einstakan mann.

Ég kveð frænda minn og vin með þökk fyrir allt og allt og votta fjölskyldu hans samúð mína.

Sigrún Baldursdóttir,

Sílalæk.

Löngu og farsælu ævistarfi Inga Tryggvasonar fv. alþingismanns er nú lokið. Á 97 árum hefur margt breyst í íslensku samfélagi og Ingi kom svo sannarlega víða við og lagði gjörva hönd á plóg. Hann fæddist inn í stóra fjölskyldu sem setti svip sinn og hafði áhrif á þjóðlífið, bæði í heimabyggð í Reykjadalnum svo og á landsvísu og svo sannarlega tók Ingi þátt í þeirri þróun.

Ingi var skólamaður, stundaði kennslu um árabil og tók þátt í stefnumótun skólamála. Hann var bóndi og byggði upp stórbýli á þess tíma mælikvarða á Kárhóli í Reykjadal. Síðar varð hann forystumaður og gegndi fjölda trúnaðarstarfa innan bændahreyfingarinnar og var m.a. formaður Stéttarsambands bænda í nokkur ár. Hann gerðist ferðaþjónustubóndi á þeim aldri sem ýmsir aðrir voru að ljúka sínum starfsferli og rak þá starfsemi af stórhug í mörg ár að Narfastöðum í sömu sveit. Segir sagan að þá hafi hann brugðið sér í meirapróf og keypt fólksflutningabíl til að geta ekið gestum sínum um nágrennið, fögur héruð Þingeyjarsýslna, sem skarta öllum helstu náttúruperlum Íslands. Sonur hans, Unnsteinn, hefur nú tekið við þeim kyndli og rekur ferðaþjónustuna af miklum myndarbrag. Þá tók Ingi virkan þátt í uppbyggingu Ferðaþjónustu bænda og var þar í forystuhlutverki um árabil. Hann var skógarbóndi og mikill áhugamaður um náttúruvernd. Hann var áhugasamur um uppbyggingu sparisjóðanna í landinu, sparisjóðsstjóri og stjórnarmaður í Sparisjóði Reykdæla/Þingeyinga um 30 ára skeið. Já, sporin hans Inga liggja víða og hann hafði svo sannarlega áhrif á samtíð sína.

En það var á vettvangi stjórnmálanna sem leiðir okkar lágu saman. Ingi var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn kjörtímabilið 1974 – 78 og var þá búinn að vera varaþingmaður kjörtímabilið á undan. Ég átti á þessum tíma sæti í bæjarstjórn Húsavíkur fyrir Framsóknarflokkinn og áttum við Ingi gott samstarf á þessum árum. Eftir kosningar 1978 varð Ingi aftur varaþingmaður en við óvæntar kosningar til Alþingis í desember 1979 ákvað hann að draga sig í hlé á þessum vettvangi og snúa sér að öðrum verkefnum enda áhugamálin mörg eins og að framan greinir og ævistarfinu hvergi nærri lokið. Hann gegndi margvíslegum trúnaðarstöfum og sat í fjölmörgum nefndum á vegum Framsóknarflokksins og áttum við þar gott og farsælt samstarf.

Framsóknarflokkurinn og framsóknarmenn, bæði í héraði og um land allt, þakka Inga fyrir hans störf í þágu lands og þjóðar og votta fjölskyldu hans og vandamönnum dýpstu samúð. Um leið og ég þakka Inga vináttu og traust samstarf sendi ég fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Guðmundur Bjarnason.

Þegar öflugir athafnamenn kveðja staldra samferðamennirnir við og horfa um öxl.

Ingi Tryggvason var fæddur á Laugabóli í Reykjadal 1921 og var fyrst og fremst Reykdælingur þau 97 ár sem honum voru gefin, þó að starfsvettvangur krefðist á stundum annarrar búsetu.

Fyrstu kynni mín af Inga voru þegar ég fékk sparisjóðsbók nr. 35 í Sparisjóði Reykdæla árið 1952. Ingi var þá stjórnarmaður og fyrsti féhirðir nýstofnaðs Sparisjóðs Reykdæla og því starfi sinnti hann til ársins 1979. Farsælt starf Inga og eftirmanna hans hjá sparisjóðnum efldu sparisjóðinn þannig að sjóðurinn varð kjölfesta við sameiningu sparisjóða í Suður-Þingeyjarsýslu í lok síðustu aldar.

Í Laugaskóla nam ég tungumál og fleiri fræði hjá Inga og bý enn að þeim fræðum. Laugaskóli var honum ætíð hugleikinn, hann kenndi þar í um 20 ár og átti sinn þátt í að skólinn starfar enn.

Við Ingi unnum lengi saman í Framsóknarfélagi Reykdæla og þar valdist Ingi til forystu og var þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra 1974-1978. Ingi sat í miðstjórn Framsóknarflokksins, mætti gjarnan á miðstjórnarfundi og var þar með skýrustu og tillögubestu ræðumönnum fram á þessa öld.

Málefnum bænda sinnti Ingi af sama krafti og öðrum málum sem hann gaf sig að, einnig þar valdist hann fljótt til forystu og var formaður Stéttarsambands bænda frá 1981-1987.

Ingi varð fljótt virkur þátttakandi í starfi Veiðifélags Reykjadalsár og Eyvindarlækjar og nýtti bændadaga til laxveiði. Hann var einnig boðinn og búinn til aðstoðar við ræktunarstarf Reykjadalsár og síðasta verk hans á því sviði var för hans 2011 ásamt formanni veiðifélagsins á tveimur vélfákum frá Narfastöðum vestur í Seljadal með 5.000 laxaseiði sem sleppt var í Seljadalsá. Meðalaldur þátttakenda í þeirri för var 79 ár.

Starfslok og eftirlaun eru gjarnan miðuð við 67 ára aldur. Það hentaði Inga ekki. Árið 1988 hóf hann uppbyggingu ferðaþjónustu á Narfastöðum og hefur ásamt syni sínum og tengdadóttur búið þar góða aðstöðu til gistingar og veitinga fyrir allt að 100 næturgesti. Einnig á þessu sviði reyndist Ingi forgöngumaður og sat hann um árabil í stjórn Ferðaþjónustu bænda.

Jafnframt uppbyggingu ferðaþjónustunnar hóf Ingi skógrækt á Narfastöðum sem raunar kom heimamönnum ekki á óvart því faðir hans, Tryggvi Sigtryggsson á Laugabóli, var frumkvöðull skógræktar í Reykjadal. Nú hefur skógi verið plantað í tugi hektara af landi Narfastaða. Mun skógurinn sem þar vex minna á eljusemi Inga um ókomin ár.

Annað dæmi um áhuga Inga á að fegra og bæta sitt umhverfi er lítil tjörn sem hann lét gera austan þjóðvegar í landi Narfastaða, ábúendum og vegfarendum til yndisauka.

Segja má að einkunnarorð HSÞ „Ræktun lýðs og lands“ lýsi vel starfsferli Inga Tryggvasonar. Eru honum að leiðarlokum færðar þakkir fyrir farsælt ævistarf um leið og aðstandendum er vottuð samúð við fráfall dáðadrengs.

Ari Teitsson.

Það var brakandi þurrkur í upphafi ágústmánaðar 1984 og heyskapur gekk vel í Reykjadal en þrátt fyrir sól og blíðu hvíldi skuggi yfir sveitinni. Við Ingi sátum í stofunni á Kárhóli og felldum tár. Það var hljótt á Narfastöðum, hann spurði og ég sagði frá. Ég lýsti atburðum á meðan ég barðist við tárin, Ingi hlustaði og hélt andlitinu, að mestu. Við þekktumst lítið, höfðum hist í örfá skipti, talað í síma og við Tryggvi heimsótt þau á heimili þeirra Önnu. Við höfðum einnig farið út að borða, Anna, ég og feðgarnir. Það var þá sem hann sagði mér frá því að Tryggvi hefði verið kominn með alskegg 15 ára, við hlógum. Og sagði mér sögur af því hve ungur strákurinn hafði verið þegar hann fór að gera við vélarnar á Kárhóli og að það hefði verið hvimleitt fyrir pabba hans, þegar drengurinn hunsaði skólabækurnar á vorin og fór þess í stað að smyrja tækin og undirbúa vorverkin. Stoltið í svipnum leyndi sér ekki þó að sonur hans gerði ekki mikið úr þessu. Rúmu ári síðar sátum við á þessari erfiðu stundu, hann áhrifamaður á mörgum sviðum, kennari til margra ára, sparisjóðsstjóri, foringi bænda, pólitíkus, alþingismaður og höfuð fjölskyldunnar, ég var kornung og hafði ráðið mig sem kaupakonu í sauðburð hjá syni hans á einu kaldasta vori þar nyrðra, syni sem nú var fallinn frá. Við Ingi áttum eftir að tengjast fjölskylduböndum, við vissum það ekki á þessari stundu en Anna Birta Tryggvadóttir varð síðar sólskinsbarn og gleðigjafi afa síns, þeirra samband var einstakt. Hún eignaðist síðan dóttur, Álfheiði Míu sem varð mjög hænd að langafa sínum. „Komdu sæl heillin!“ Þannig ávarpaði hann mig og í símtölum okkar veturinn áður þá töluðum við um búskapinn, veður og verkefnin sem voru efst á baugi. Hann vildi fylgjast með, hafði áhuga á öllu sem fram fór en faðir og sonur ræddu oft málin. Við fráfall Tryggva tók Ingi við stjórnartaumum á Narfastöðum og varð frumkvöðull í ferðaþjónustu þegar hann breytti útihúsunum og innréttaði sem gistirými. Þar rak hann bændagistingu með yngsta syni sínum og tengdadóttur meðan heilsan leyfði. Ingi vildi sýna mér skóglendið þar sem hann hafði gróðursett ógrynni plantna undanfarin 30 ár, ég var í stuttri heimsókn hjá honum og Unni fyrir þremur árum og við fórum í ökuferð frá Narfastöðum í áttina að Stafni og síðan niður að Reykjadalsá. Ég var undrandi, ég sá ekki heim að Hallbjarnarstöðum, svæðið var allt þakið lerkitrjám.

Ég hrósaði honum í hástert og spurði forviða hvort hann hefði hugmynd um hvað hann væri búinn að gróðursetja mikið síðan að hann gerðist skógarbóndi. Tja, svaraði hann, ætli það séu ekki rúmlega þrjú hundruð þúsund plöntur. Ég sló á lær, nánast ein planta á hvern Íslending. O, hann sagðist nú ekki hafa verið einsamall við gróðursetninguna. Hann hafði áður farið með okkur Önnu Birtu gangandi yfir heiðina, yfir í Narfastaðasel, á þeirri leið hafði hann plantað nokkrum tegundum. Gróðursetning var hans hjartans mál, hann var í essinu sínu.

Ég þakka löng og trygg kynni og votta Tryggvabörnum, Ingasonum, tengdadætrum og barnabörnum samúð mína.

Ingibjörg Ingadóttir.