Kettir valda dauða milljóna fugla og spendýra á hverju ári og eru sagðir ógn við viðkvæm vistkerfi.
Kettir valda dauða milljóna fugla og spendýra á hverju ári og eru sagðir ógn við viðkvæm vistkerfi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samtök í þorpinu Omaui á Nýja-Sjálandi vilja banna ketti til að vernda vistkerfið.

Í Omaui, litlu þorpi á suðurströnd Nýja-Sjálands hafa samtökin Environment Southland lagt til að kettir verði bannaðir og að kattaeigendum verði ekki heimilt að fá sér annan kött eftir hinsta dag kattarins sem þeir eiga nú.

Ástæða tillögunnar, sem mörgum þykir heldur öfgakennd, er ekki óbeit á köttum, heldur það að kettir valda dauða milljóna fugla og spendýra á hverju ári og eru sagðir ógn við viðkvæm vistkerfi, eins og á Nýja-Sjálandi. Dr. Peter Marra, yfirmaður farfugladeildar Smithsonian-safnsins, er einn þeirra sem styðja tillöguna og segir að þótt kettir séu dásamleg gæludýr eigi ekki að leyfa þeim að ganga lausum úti. Kattaeigendur þurfi að axla ábyrgð á dýrunum sínum og sinna þeim vel heima fyrir, til dæmis með því að leika við þá og hafa þá í ól ef farið er með þá út.

Kattaeigendur á Nýja-Sjálandi hafa mótmælt tillögunni og bent á að til dæmis sé mannfólkið ekki minni ógn við umhverfið.