Oddur spekingur Helgason, ættfræðingur og lengi sjómaður, hefur orðið: Eitt sinn réði ég mig á Narfa RE 13 sem vanan netamann.

Oddur spekingur Helgason, ættfræðingur og lengi sjómaður, hefur orðið:

Eitt sinn réði ég mig á Narfa RE 13 sem vanan netamann. Ekki var hæfni mín á þessu sviði þó alveg í takt við sannleikann – kannski ekki svo ýkja langt frá honum samt – en mig bráðvantaði vinnu og Óli Koll, loftskeytamaður á skipinu, studdi frásögn mína.

Svo gerðist það í fyrsta túrnum að trollið kom upp rifið. Helgi skipstjóri taldi sig heppinn að hafa svona vanan netamann um borð, en einmitt þegar til átti að taka kom á mig hik, enda vissi ég ekkert hvernig ætti að lagfæra þetta.

„Hvað er þetta, maður, vannstu ekki á netaverkstæði?“ kallaði skipstjórinn þá reiðilega til mín.

„Jú,“ svaraði ég og það var alveg sannleikanum samkvæmt.

„Hvað gerðirðu eiginlega þar?“ kallaði skipstjórinn á ný.

„Ég ... ég var sendill.“