Metnaður „Það sem við Íslendingar þurfum að gera er að nýta þetta unga kraftmikla og vel menntaða fólk sem við eigum,“ segir Haraldur Árnason.
Metnaður „Það sem við Íslendingar þurfum að gera er að nýta þetta unga kraftmikla og vel menntaða fólk sem við eigum,“ segir Haraldur Árnason. — Morgunblaðið/Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um fimmtán mánuðir eru síðan íslensku fyrirtækin Skaginn 3X, Nautic, Kælismiðjan Frost, Brimrún, Naust Marine og Verkfræðistofan Skipatækni ýttu úr vör nýju markaðsfyrirtæki, Knarr Maritime. Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Knarr, segir vel hafa gengið fyrir fyrirtækin að ná saman markmiðum sínum.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Eins og alltaf er með ný fyrirtæki þá er þetta langhlaup, en þegar við lítum til baka þá hefur það heppnast sem við lögðum upp með. Við lögðum frá upphafi mikla áherslu á Rússland, þar sem endurnýjun fiskiskipaflotans þar í landi lá fyrir, og er enn í fullum gangi,“ segir Haraldur.

„Þetta verða þrjár útboðs viðbætur til að byrja með, ef það má orða það þannig, þar sem fyrirtækin sem vilja byggja ný skip eða landvinnslur geta sótt um auka kvóta út á það. Í fyrsta útboðinu gerðum við samninga um hönnun á sex skipum, sem gætu þó orðið fleiri, og erum við að vinna með skipasmíðastöðinni úti að þeim verkefnum núna að koma okkar búnaði inn í verkefnið og það er í góðum farvegi,“ segir hann og reifar þann árangur sem náðst hefur í kjölfarið, en í framhaldi stofnunar Knarr Maritime stofnaði sami hópur fyrirtækið Knarr Rus, þar sem starfa nú þrír starfsmenn og er Jónas Tryggvason þar í forsvari.

Mörg hundruð tonna geta

„Knarr Rus hefur tekið þátt í þeim samningum sem Skaginn 3X, Frost og Rafeyri hafa náð, sem er sala á tveimur stórum uppsjávarverksmiðjum, annars vegar fyrir rússneska sjávarútvegsfyrirtækið Gidrostroy á Kúrileyjum, og hins vegar fyrir fyrirtækið Lenin Kolkhoz í Petropavlovsk,“ segir Haraldur og bætir við að um sé að ræða verksmiðjur með getu upp á 500 til 600 tonna afköst á sólarhring með mögulegri stækkun á afkastagetu þegar fram í sækir.

„Svo hefur Nauticn Rus skrifað undir samning um hönnun á krabbaveiðiskipum fyrir Austur-Rússland, fyrir dóttur fyrirtæki Russian Fisheries, PrimCrab sem er í Vladivostok á Austurströnd Rússlands. Það er í öðru kvótaferli af þremur, en hönnunarsamningurinn er í raun fyrsta skrefið áður en farið er af stað í kvótaúthlutunina, þar sem í ljós kemur hversu mikinn kvóta fyrirtækin fá. Það er þess vegna ekki ljóst sem stendur hversu mörg þau skip verða, en þau gætu orðið nokkuð mörg,“ segir Haraldur.

Um er að ræða algjörlega nýja hönnun á krabbaveiðiskipi að hans sögn. „Allt vinnsludekkið og öll vinnuaðstaða er inni í sjálfu skipinu. Skipið er því ekki opið eins og flestöll krabbaskip í dag. Það sem er einnig nýtt í þessari hönnun er að allar gildrur geta verið teknar upp í gegnum skipið, í gegnum svokallaða mánalaug, eða „moon pool“ eins og það heitir á enskunni. Í raun er þetta gat í skipinu þar sem gildrurnar eru dregnar upp,“ segir hann og útskýrir hvers vegna þörf er á þessu:

„Oft eru gildrurnar lagðar út við ísröndina en með þessu fyrirkomulagi má leggja í ísnum gegnum mánalaugina, og það getur verið erfitt þegar ísinn er þykkur að koma gildrunum aftur upp á yfirborðið. En með þessu fyrirkomulagi er skipið búið að ryðja ísnum frá sér og þá geturðu tekið þær upp vandræðalaust.“ Skipið verður útbúið til frystingar og líka til að koma með lifandi krabba í land.

Stórt teymi í Rússlandi

Landnámið í Rússlandi nam ekki staðar við stofnun Knarr Rus í Moskvu borg heldur keypti Nautic einnig hlut í rússneskri skipaverkfræðistofu í Pétursborg, en úr því varð fyrirtæki sem heitir Nautic Rus. „Þar starfa hátt í fjörutíu manns í dag, skipaverkfræðingar og tæknimenn, og þeirra verkefni núna er að vinna alla teiknivinnu fyrir smíði sex skipa, fyrir fyrirtækið Norebo ásamt komandi verkefnum,“ segir Haraldur. Knarr ásamt aðildarfélögum mun verða á stórri sjávarútvegssýningu nú í Pétursborg; „Global Fishery Forum & Seafood Expo 13-15 September og þar mun Nautic Rus verða formlega opnað meðan á sýningunni stendur.

Fjöldinn allur af öðrum verkefnum í Rússlandi er enn ótalinn, enda hefur þessi árangur íslensku fyrirtækjanna vakið mikla athygli. „Þær landvinnslur sem Skaginn 3X, Frost og rafeyri eru búinn að standa að hafa borið hróður fyrirtækisins víða á meðal annarra útgerðarmanna þar ytra, og sömuleiðis þessi hönnun Alfreðs Tuliniusar og Bárðar Hafsteinssonar á skipunum hafa vakið mikla athygli. Nú er svo komið að við erum farin að fá fjölda fyrirspurna frá öðrum löndum og erum við að vinna í þeim verkefnum núna. Í framhaldinu munum við hefja markaðsstarfsemi í þeim löndum þar sem við höfum fundið fyrir hvað mestum áhuga.

Skip á nokkurra mánaða fresti

Þegar litið er yfir síðustu fimmtán mánuði segir Haraldur að þessi tími hafi verið skemmtilegur. „En auðvitað eru þessi verkefni langhlaup, öll sem eitt. Það er eitt að selja mönnum hugmyndina og tæknina en svo þarf náttúrlega að smíða þessi skip, en samkvæmt þessum nýju rússnesku kvótalögum þarf að smíða þau í Rússlandi. Við höfum fulla trú á að skipasmíðastöðvarnar muni leysa þau verkefni vel af hendi og við munum vinna náið með þeim að því með okkar fólki hér heima sem hafa mikla reynslu í smíði fiskiskipa síðustu ár,“ segir hann og bætir við að Rússar séu vanir skipasmiðir, skipin verða raðsmíðuð og væntanlega mun bætast í reynslubankann með hverju skipi að sögn Haraldar. „Fyrsta skipið á að vera tilbúið í lok árs 2019 eða í byrjun árs 2020. Síðan koma þau með fjögurra til fimm mánaða millibili eftir það, og svipað mun gilda um krabbaskipin,

Hann segir Knarr búa vel að því að fyrirtæki innan raða þess hafi undanfarin ár átt veigamikinn þátt í endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans. „Með því að taka þátt í þessum nýsmíðaverkefnum á Íslandi síðastliðin fimm til sjö ár hafa fyrirtækin öðlast gríðarlega mikla þekkingu og reynslu, en ekki síst kemur til góða sú staðreynd að þau hafa öll áður unnið saman með hvert öðru. Sum auðvitað meira en önnur, en eftir stendur að þau hafa unnið mikið saman og það er lykilatriði ef vel á að ganga, að þú þekkir þann sem þú ert að vinna með skiptir gríðarlega miklu máli.“

40% af virði skipsins frá Knarr

Blaðamanni leikur forvitni á að vita, hyggist hann koma sér upp vinnslu og skipi til veiða, hvort það sé eflaust fátt sem Knarr geti þá ekki útvegað. Haraldur er snöggur til svara.

„Það er í raun það sem við lögðum upp með, og er okkar stefna í dag, að verða leiðandi fyrirtæki í tilbúnum fiskiskipalausnum og líka landvinnslulausnum. Ef viðskiptavinur kemur til okkar og óskar til dæmis eftir nýju skipi, þá getum við skilað því vel áleiðis. Við getum sagt sem svo að fjörutíu prósent af virði skipsins kæmu frá okkar fyrirtækjum sem eru inni í Knarr. Hinn hlutinn væri þá stálvinna og skrokkur, vélin og ýmis búnaður sem kemur annars staðar frá,“ segir Haraldur.

„Þó er það ekki þannig, að ef viðskiptavinur segist ekki vilja vöru ákveðins fyrirtækis innan okkar raða, þá er það ekki eitthvað sem við stöndum í vegi fyrir. En auðvitað reynum við alltaf að selja lausnir okkar allra til að skila svokallaðri Turn-Key (heildarlausn) en það vilja mörg sjávarútvegsfyrirtæki fá.“

Opna nýja markaði

Spurður hvernig verkefnastaða fyrirtækjanna sex hafi breyst eftir tilkomu Knarr segir Haraldur að hún hafi breyst töluvert mikið. „Það er mikið að gera. En sem betur fer eru þessi fyrirtæki öllsömul búin að hafa nóg að gera við endurnýjun íslenska flotans síðustu ár, auk þess sem sum fyrirtækjanna hafa tekið þátt í endurnýjun skipaflota íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu. Nú er þessi endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans langt á leið komin þó að hún sé ekki búin og þá er Rússland klárlega vettvangur fyrir þau til að sanna sig og selja sína vöru,“ segir hann.

„Það er ljóst að fyrir þessi fyrirtæki hefur Knarr opnað nýja markaði sem er að skila sér núna. Ef allt gengur upp sem við erum að gera núna þá erum við með á annan tug skipa í pípunum, fyrir utan landvinnslurnar allar. Í þessu felast gríðarleg verkefni fyrir þessi fyrirtæki næstu 5 árin allavega. Ég held þetta verði því mikil vinna hjá öllum á komandi árum, en þá erum við aðeins að tala um Rússland.“

Segja má því að seglin séu þanin um þessar mundir í Rússlandi, og telur Haraldur þess vegna mikilvægt að gróðursetja fræ í öðrum löndum á meðan vel gengur. „Þegar seglin fara aðeins að blakta geturðu verið kominn með önnur verkefni af stað sem þá geta tekið við

„Mörg lönd finna hjá sér mikla endurnýjunarþörf. Auðvitað eru margir um hítuna – við erum ekki einir í heiminum – en við höldum ótrauð áfram með kraftmikla vöruþróun og reynum alltaf að vera betri. Þá á okkur eftir að farnast vel.

Erfitt að vera einn

Að fenginni sinni reynslu segist Haraldur þeirrar skoðunar að fleiri íslensk fyrirtæki mættu athuga möguleikann á að stofna svipuð regnhlífarfélög utan um sína markaðsstarfsemi í fleiri atvinnugreinum.

„Það hefur sýnt sig í þessu, að það getur verið erfitt fyrir eitthvað eitt fyrirtæki að ætla að fara af stað á erlendan markað, þar sem fyrir er fjöldi samkeppnisaðila. Þó að við hér á Íslandi teljum okkur kannski vera virkilega stór og þekkt, þá er staðreyndin sú að mörg þessara fyrirtækja eru alltof lítil til að ætla að koma ein og sér og selja bara sinn búnað inn í svona stóra fiskiskipalausn. Þá er miklu sterkara að koma fleiri saman að borðinu,“ segir hann og bætir við að önnur fyrirtæki hérlendis hafi sýnt mikinn áhuga á að starfa með Knarr. „Þau vilja kynna sínar vörur og koma sér á framfæri í gegnum okkur. Við erum auðvitað alltaf opin fyrir því og skoðum það með opnum hug.“

Spurður hvaða áhrif styrking krónunnar hafi haft á rekstur Knarr segir hann menn oft vilja einblína um of á gengi krónunnar, þó að hún sé klárlega akkillesarhæll fyrir mörg fyrirtæki. „Það sem við Íslendingar þurfum að gera er að nýta þetta unga kraftmikla og vel menntaða fólk sem við eigum, ráða það í vinnu og einfaldlega búa til með því góða vöru. Skaginn3X er gott dæmi þar um, hafa ráðið til sín margt ungt fólk sem öðlast reynslu á hverjum degi og mun leiða fyrirtækið áfram á komandi árum.