[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Um það bil helmingur íbúa í hinum fornu Sigtúnum í Svíþjóð, sögufrægri byggð á miðöldum var ekki hreinræktaðir Svíar, þ.e. fólk fætt og uppalið á heimavelli, heldur af margvíslegum uppruna.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Um það bil helmingur íbúa í hinum fornu Sigtúnum í Svíþjóð, sögufrægri byggð á miðöldum var ekki hreinræktaðir Svíar, þ.e. fólk fætt og uppalið á heimavelli, heldur af margvíslegum uppruna. Þetta hefur ný rannsókn á jarðneskum leifum fólks á staðnum, sem uppi var á 10. til 12. öld, leitt í ljós. Rannsóknin byggist á DNA-sýnum sem tekin voru úr beinum og strontíum-greiningu á tönnum. Vísindamennirnir greina frá niðurstöðunum í grein sem birt er í opnum aðgangi á vef tímaritsins Current Biology .

Niðurstaðan þykir mörgum áhugaverð vegna lífseigra hugmynda um þjóðernislega einsleitni norrænna manna til forna.

Snorri Sturluson og íslenskir samtímamenn hans á 13. öld þekktu vel til Sigtuna. „Óðinn tók sér bústað við Löginn þar sem nú eru kallaðar fornu Sigtúnir og gerði þar mikið hof og blót eftir siðvenju Ásanna. Hann eignaðist þar lönd svo vítt sem hann lét heita Sigtúnir,“ segir í Ynglinga sögu.

Eftir að Svíar tóku kristni voru margar kirkjur og klaustur í Sigtuna og biskupssetur sem síðar var flutt til Uppsala

Rannsóknin tók til beinaleifa 38 manna. Sýnt var fram á að rétt um helmingur þeirra hefði alist upp á svæðinu í grennd við Löginn (Mälaren) í Svíþjóð, en hinn helmingurinn hafði komið frá fjarlægum svæðum eins og Úkraínu, Litháen, norðurhluta Þýskalands, Bretlandseyjum og svæðum í Mið-Evrópu og að auki frá Noregi, Danmörku og öðrum landshlutum í Svíþjóð.

Sigtuna hefur því til forna verið suðupottur ólíkra þjóðerna. Einn vísindamannanna, Anders Götherström prófessor í sameindafornleifafræði við Stokkhólmsháskóla, segir í viðtali við sænska netmiðilinn The Local að á miðöldum hafi bærinn að þessu leyti líkst Sjanghæ og London nútímans. Einna merkilegast þykir honum að sumir íbúanna voru af annarri kynslóð innflytjenda.

Það var Ólafur skotkonungur sem stofnaði til byggðar í Sigtuna um 980. Bærinn óx hratt og þar bjuggu um hríð á miðöldum um tíu þúsund manns, álíka margir og í London á tíma Engilsaxa.

The Local hefur eftir Maju Krzewinska við Stokkhólmsháskóla, sem einnig tók þátt í rannsókninni, að niðurstöðurnar birti aðra sýn á víkingaaldartímann en menn séu vanir. „Við hugsum yfirleitt um víkingana sem menn á faraldsfæti og í kennslubókum skólanna eru landakort með örvum sem sýna útrás þeirra um veröld víða, jafnvel til Tyrklands og Ameríku,“ segir hún. Sjaldgæfara sé að hugsa um komu fólks úr öðrum heimshlutum til Norðurlanda.

Hnattvæðing og fjölmenning, tvö helstu tískuhugtök í umræðum um samfélagsmál um þessar mundir, eiga ekkert síður við þegar sjónum er beint að fortíðinni en samtímanum. Þetta má heita inntakið í nýrri bók danska fornleifafræðingsins Jeanette Varberg Mennesket har altid vandret (Mannfólkið hefur alltaf verið á ferðinni) sem sagt var frá hér í blaðinu í fyrravor. Smám saman eru fræðimenn að átta sig á því að þjóðfélög fyrri tíðar voru fjölbreyttari að samsetningu að því er uppruna fólks varðar en áður var talið. Nýjar rannsóknaraðferðir, ekki síst með athugunum á strontíum-ísótópum í beinum, hafa auðveldað vísindamönnum að rekja uppruna fornmanna.