— Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Þetta er ekki að skila neinu og það má í raun segja að í gangi sé mikil afturför því á sama tíma hefur fólki fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars barnafólki, en maður myndi nú einmitt halda að það væri sá hópur sem myndi nýta sér þessa þjónustu,“ segir Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til stöðu Strætó bs. og bókunar Miðflokksins sem lögð var fram á fundi borgarráðs síðastliðinn fimmtudag.

Þar segir Miðflokkurinn það vera áhyggjuefni að rekstrartekjur Strætó bs. séu lægri en áætlun gerði ráð fyrir og að fargjöld hafi ekki skilað sér í samræmi við þá áætlun sem lagt var upp með. „Það má túlka sem svo að farþegum gæti verið að fækka og þar með forsendur samningsins við ríkið brostnar,“ segir í bókun, en árið 2012 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir samkomulag um 10 ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Kostar samningurinn ríkið 10 milljarða króna á tímabilinu.

„Ég skil ekki af hverju ríkið er ekki búið að segja upp þessum samningi – fjölgun notenda var forsenda hans á sínum tíma. Við blasir algjör forsendubrestur því Strætó hefur ekki tekist ætlunarverk sitt.“

Vildu 11% en ná ekki einu

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, tekur í svipaðan streng. Hann segir innleiðingu á breytingum á leiðakerfi Strætó hafa skilað innan við 1% í auknum tekjum af fargjöldum, en gert var ráð fyrir 11% aukningu. „Strætó fór af stað með breytingu á leiðakerfi sem átti að skila 11% aukningu, en nær ekki einu einasta prósenti,“ segir hann og bendir á að á sama tíma séu rekstrarútgjöld Strætó bs. að aukast um 12 prósent.

„Það er alveg ljóst að markmiðið um hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki náðst síðustu ár. Það var stefnt að því að fara úr 4% í 8% en það hefur ekkert farið upp,“ segir Eyþór.

Þá telur hann brýnt að borgin hafi fleiri en einn fulltrúa í stjórn Strætó.

Samgöngusamningur
» Skrifað var undir 10 ára tilraunasamning árið 2012 sem efla átti almenningssamgöngur í borginni.
» Kostar hann ríkið 10 milljarða króna en fulltrúar minnihlutans segja hann engu skila.