Trompettsnillingur Verneri Pohjola leikur í Tjarnarbíói á fimmtudag.
Trompettsnillingur Verneri Pohjola leikur í Tjarnarbíói á fimmtudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég veit ekki hvort það er hollt fyrir hátíð að vera ávallt föst í sama farinu.

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég veit ekki hvort það er hollt fyrir hátíð að vera ávallt föst í sama farinu. Djassinn er tónlist sem er alltaf sveigjanlegur og í þróun, þannig að við erum að spinna í stíl við tónlistina,“ segir Sunna Gunnlaugs, listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Reykjavíkur, sem sett verður í 29. sinn á miðvikudag og stendur til sunnudags.

„Síðustu ár hefur hátíðin verið haldin í ágúst, en við ákváðum að prófa að færa hátíðina aftur í september í ár, ekki síst sökum þess að mörg stóru nafnanna í djassheiminum taka sér ávallt frí í ágúst.“

Önnur stór breyting í ár felst í því að Jazzhátíð Reykjavíkur flytur sig úr Hörpu og dreifir sér á nokkra staði um borgina. „Virku dagana verða allir tónleikar í Hannesarholti, Iðnó og Tjarnarbíói sem eru í göngufæri hver við annan. Á laugardeginum verður þétt dagskrá á Grand hóteli og í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku,“ segir Sunna og bendir á að það sé ekkert launungarmál að dýrt sé að leigja sali Hörpu. „Að mörgu leyti hefur verið frábært að vera í Hörpu, en okkur var farið að langa til að prófa að bjóða upp á tónleika í minni rýmum ásamt því að dreifa okkur betur um borgina.“ Loks bendir Sunna á að breytingar séu einnig gerðar með miðasöluna. „Í ár munum við ekki lengur bjóða upp á hátíðarpassa. Í staðinn verður hægt að kaupa staka miða á alla viðburði hátíðarinnar og í boði eru afsláttarpakkar ef keyptir eru fleiri en fjórir miðar í einu,“ segir Sunna og tekur fram að allir tónleikar hátíðarinnar verði í kringum 75 mínútur og án hlés.

Þrátt fyrir framangreindar breytingar á hátíðinni milli ára er eitt sem ekki breytist og það er að Jazzhátíð Reykjavíkur er ávallt sett með skrúðgöngu sem leggur af stað frá Lucky Records á miðvikudag kl. 17. „Djassgangan er svo skemmtilegt og mikil stemning í kringum hana að við munum aldrei sleppa henni.“

Konur í fararbroddi

Að sögn Sunnu verður í ár boðið upp á 22 viðburði, þar af eru sjö útgáfutónleikar. „Þar af eru fimm útgáfur í samstarfi við erlent tónlistarfólk, sem er ákveðið fagnaðarefni. Við höfum náð góðum árangri í að auka hlut kvenna í þessum mjög svo karllæga geira. Í ár eru tvö af fimm atriðum sem hátíðin flytur inn leidd af konum og teljast þær 12 á móti sex karlmönnum. Íslenskar konur eiga einnig sinn skerf en fjórar konur eru í fararbroddi atriða á hátíðinni,“ segir Sunna.

Fyrsta dag hátíðarinnar verður boðið upp á þrenna tónleika og svo skemmtilega vill til að í öllum tilvikum er um útgáfutónleika að ræða. „Píanistinn Agnar Már Magnússon fagnar plötunni Hending með norska gítarleikaranum Lage Lund í Hannesarholti kl. 19.30 og 21.30,“ segir Sunna og bendir á að Lund hafi verið í framvarðarsveit New York djasssenunnar um árabil.

„Boðið verður upp á tvenna tónleika í Tjarnarbíói. Á fyrri tónleikunum sem hefjast kl. 19.30 leikur píanistinn Ingi Bjarni Skúlason ásamt tríói sínu sem skipað er Bárði Reinert Poulsen frá Færeyjum á kontrabassa og Magnúsi Trygvasyni Eliassen á trommur,“ segir Sunna og bendir á að Ingi Bjarna sé ekki aðeins að fagna nýrri útgáfu heldur einnig útgáfusamningi við Dot Time Records sem gerir út frá New York.

„Seinna tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og þar leikur kvartett trommuleikarans Scott McLemore. Með honum leika Frakkarnir Pierre Perchaud á gítar og Nicolas Moreaux á kontrabassa og Hilmar Jensson á gítar,“ segir Sunna og tekur fram að fjórmenningarnir hyggist vefa í kringum hver annan á lýrískan og þokkafullan máta.

Dagskrá fimmtudagsins hefst með tónleikum saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar og sænska píanistans Lars Jansson í Hannesarholti kl. 19.30, en tónleikarnir eru endurteknir kl. 21.30. „Þeir leika tónsmíðar beggja í bland við vel valda sígræna djassstandarda.“

Finnskur trompettsnillingur

Á föstudag verður einnig boðið upp á tvenna tónleika í Tjarnarbíói. „Bassaleikarinn Giulia Valle leikur kl 19.30 með tríói sínu skipuðu Marco Mezquida á píanó og David Xirgu á trommur. Giulia er afskaplega spennandi og hefur verið á hraðri uppleið undanfarin ár,“ segir Sunna og bendir á að Valle hafi komið fram á merkum djasshátíðum eins og Montreal Jazz Festival, San Francisco Jazz og klúbbum á borð við Blue Note í New York. „Þau leika eldheita tónlist, sem er bæði hlý, fáguð og lagræn.“

Seinni tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og þar fagnar tríó Sunnu Gunnlaugs nýrri plötu sem nefnist Ancestry . Með Sunnu leika Þorgrímur Jónsson á kontrabassa, Scott McLemore á trommur og Verneri Pohjola á trompett. „Ég heyrði fyrst í Verneri á hátíð fyrir nokkrum árum og hreifst strax, enda er hann algjör trompettsnillingur. Í lok síðasta árs þegar tríói mínu var boðið á Tampere Jazz Happening í Finnlandi spurði ég hvort ég mætti bjóða Verneri að vera gestaleikari hjá mér. Stjórnendur tóku mjög vel í það, enda kom í ljós að á hátíðinni fékk hann viðurkenningu fyrir framlag sitt til finnsks djass,“ segir Sunna og rifjar upp að að hátíð lokinni hafi þau farið í hljóðver Sibeliusarakademíunnar og tekið upp plötuna sem nú er komin út. Fernir tónleikar verða í boði á föstudag . Í Tjarnarbíó kl. 19.30 fagnar bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson nýrri plötu. „Með honum leikur einvalalið íslenskra djassleikara, þeir Snorri Sigurðarson á trompet, Jóel Pálsson og Helgi Rúnar Heiðarsson á saxófóna og klarínett, Kjartan Valdemarsson á píanó og Magnús Trygvason Eliassen á trommur,“ segir Sunna og lýsir tónlist sextettsins sem blöndu af djassi, poppi og rokki sem beri keim af nokkurri ævintýramennsku.

Sellóið sjaldheyrt í djassi

„Á seinni tónleikunum í Tjarnarbíó, eða kl 21.30, leikur gítarleikarann Ralph Towner frá Bandaríkjunum einleik á klassískan gítar. „Ralph, sem er einstakur spilari, er þekktastur fyrir leik sinn með hljómsveitinni Oregon. Hann hefur komið víða við á sínum ferli og leikið inn á um óteljandi hljómdiska með ýmsum stærstu nöfnum djassins.“

Í Iðnó verða einnig tvennir tónleikar. Fyrri tónleikarnir hefjast kl. 19.30 og þar er um að ræða útgáfutónleika tríósins NOR undir stjórn bassaleikarans Richard Andersson með Óskari Guðjónssyni á saxófón og Matthías Hemstock á trommur, en diskur þeirra nefnist The Six of Us . „Uppistaða efnisskrár er tónsmíðar Richards og Óskars en þeim mætti lýsa sem tærum og einföldum, þó svo að samleikur og meðferð hljómsveitarinnar geti verið margslunginn.“

Seinni tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og þar leiðir sellóleikarinn Þórdís Gerður Jónsdóttir sextett sinn í flutningi á eigin tónsmíðum. „Sellóið er sjaldheyrt hljóðfæri í djassinum, en Þórdís leitast við að finna sellóinu hlutverk sem leiðandi hljóðfæri í djassi og spuna en einnig að nálgast djass eins og um sígilda kammertónlist væri að ræða,“ segir Sunna. Með Þórdísi leika Andri Ólafsson á kontrabassa, Grímur Helgason á klarinettu, Guðmundur Pétursson á rafgítar, Matthías Hemstock á slagverk og Steingrímur Karl Teague á píanó.

Laugardaginn 8. september verður alls boðið upp á fimm tónleika. Söngkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir ríður á vaðið ásamt Hauki Gröndal og hljómsveit hans Arctic Swing Kvintett á Grand hóteli kl. 13. „Efnisskráin samanstendur af lögum frá gullaldarárum djassins í skemmtilegum útsetningum þar sem áherslan er á sveiflu, lagræn sóló og almennan hressleika,“ segir Sunna og tekur fram að með því að bjóða upp á ólíkar tíma- og staðsetningar tónleika hátíðarinnar sé það von skipuleggjenda að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Gítarleikarinn Andrés Þór fær til sín einn fremsta djassleikara Slóvakíu, víbrafónleikarann Miro Herak á tónleikum kl. 15 í gömlu kartöflugeymslunum. Þeir leika ljúfan, melódískan nútímadjass og samanstendur efniskráin af blöndu af lögum þeirra beggja og samtíma djasstónsmíðum.“

Blanda af djassi og heimstónlist

Seinni síðdegistónleikarnir í gömlu kartöflugeymslunum hefjast kl. 16.30 og þar fagnar DOH tríóið nýjum diski. „Tríóið er skipað okkar yngri kynslóðar djassleikurum, sem eru reyndar búin að starfa saman í fimm ár en eru fyrst núna að senda frá sér sinn fyrsta disk,“ segir Sunna. DOH skipa Helgi Heiðarsson á saxófón, Daníel Helgason á gítar og rafbassa og Óskar Kjartansson á trommur.

„Eftir góða pásu þar sem gestir hátíðarinar geta nært sig verður boðið upp á tvenna tónleika á Grand hóteli. Þetta verður sannkölluð veisla sem engin má missa af. Klukkan 19.30 leiðir slagverksleikarinn Marilyn Mazur tíu kvenna sveit sem nefnist Shamania. Mazur er án efa drottning danska djassins enda eina konan sem hefur verið í hljómsveit goðsagnarinnar Miles Davis,“ segir Sunna og bendir á að tónlistin verði spennandi blanda af djassi og heimstónlist. „Þetta verður magnaður seiður rytma og tóna.“

Seinni tónleikar kvöldsins hefjast kl. 21.30. „Þar kemur fram Marcin Wasilewski Trio frá Póllandi, sem hefur verið áberandi nafn í djassheiminum síðustu árin. Þeir hafa spilað saman í yfir 20 ár og því ekki að undra að samspil þeirra einkennist af mýkt og næmni,“ segir Sunna og bendir á að tríóið fagni útkomu nýs disks hjá ECM í september.

Lokatónleikar hátíðarinnar verða í gömlu kartöflugeymslunum og hefjast kl. 23. „Þar mun dúóið Skeltr frá Bretlandi og Una Stef Band halda uppi stuðinu. Á lokadegi hátíðarinnar, sunnudaginn 9. september, verður haldin þakkargjörð í kirkju Óháða safnaðarins sem hefst kl. 17. „Þar verður Guðmundur Steingrímsson, öðru nafni Papa Jazz, heiðraður fyrir sitt framlag til djasstónlistar á Íslandi,“ segir Sunna. Allar nánari upplýsingar eru á reykjavikjazz.is og miðar seldir á tix.is.