[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harald G. Haralds fæddist 1. september 1943 í Reykjavík og ólst þar upp. Hann var í Miðbæjarskólanum, Hlíðardalsskóla, lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti, stundaði nám við Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og lauk þaðan prófum...

Harald G. Haralds fæddist 1. september 1943 í Reykjavík og ólst þar upp. Hann var í Miðbæjarskólanum, Hlíðardalsskóla, lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti, stundaði nám við Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og lauk þaðan prófum 1969.

Harald söng með ýmsum danshljómsveitum frá 1958-64 og byrjaði ferilinn á því að syngja opinberlega á tónleikum aðeins fjórtán ára gamall. „Það var hálfgert áfall fyrir mig þegar ég stóð allt í einu frammi fyrir fullu húsi af fólki og átti að fara að syngja, en það bráði af mér og mér skilst að ég hafi komist vel frá þessu. Haukur Morthens hafði heyrt af mér því ég hafði komið fram á skólaskemmtun og fékk mig til að syngja á þessum tónleikum í Austurbæjarbíói. Við spiluðum alvöru rokk eins og Elvis Presley og Little Richard gerðu og ég hreifst af.“ Meðal hljómsveita sem Harald söng með voru unglingahljómsveitin Diskó-Sextett, KK-Sextettinn, Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar, Hljómsveit Finns Eydals og loks Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar píanósnillings.

Harald var jafnframt verslunarmaður við reiðhjólaverslunina Örninn frá því á unglingsárunum og til 1960, starfaði við Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar 1962-65, við Landsbanka Íslands 1965-69, var verslunarmaður í Erninum 1970-75, var framkvæmdastjóri í Erninum 1979-90, var innkaupastjóri fyrirtækisins 1990-2000 og hefur auk vinnu við ýmis leiklistarstörf stundað þýðingar og unnið við markaðssetningu. Harald hefur verið aðstoðarmaður Jóhanns Sigurðssonar útgefanda hjá Saga forlagi frá 2002 við útgáfu og dreifingu fimm binda heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta á ensku, dönsku, norsku og sænsku og nú síðast fimm binda heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta á íslensku í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands.

Harald var lengst af fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1969-84, leikari hjá LR, Þjóðleikhúsinu og ýmsum öðrum leikhúsum, s.s. Alþýðuleikhúsinu og Kaffileikhúsinu frá 1984, hefur leikið í fjölda útvarpsleikrita, í sjónvarpi og kvikmyndum, stundað talsetningu fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Hann tók þátt í fjölda skemmtana á vegum Leikfélags Reykjavíkur, í tónlistaruppákomum og í revíum.

Hann hefur leikið vel á sjöunda tug sviðshlutverka, m.a., Dátann, í Sögunni af dátanum, eftir Charles Ramuz og Igor Stravinsky; Hemma, í Hemma, eftir Véstein Lúðvíksson; Natan, í Skáld-Rósu, eftir Birgi Sigurðsson; Garry, í Garry Kvartmilljón, eftir Allan Edwald, Gvendó, í Dúfnaveislunni, eftir Halldór Laxness; Magnús í Bræðratungu, í Íslandsklukkunni, eftir Halldór Laxness; sögumanninn, í Blóðbræðrum, eftir Willy Russell; Jason, í Medeu, eftir Evripídes, og Macduff í Macbeth o.s.frv.

„Áhugamálin eru ansi mörg, þar á meðal leiklist, góðar bíómyndir og bækur, allt sem snertir góðar sögur og túlkun á þeim. Svo hlusta ég mikið á tónlist, fer oft á tónleika og er með frekar víðfeðman smekk, frá rokki yfir í klassík og allt þar á milli. Til að halda heilsu sæki ég sundstaði og reyni að njóta útiveru eins og ég get og nýt í leiðinni dýralífs og náttúru.“

Fjölskylda

Vinkona Haralds er Stefanía Erlingsdóttir, móttökuritari hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, f. 28.6. 1953.

Dóttir Haralds er Helga Kristín Haraldsdóttir, f. 24.3. 1968, verkefnastjóri hjá Jónsson og Le'Macks, búsett í Hafnarfirði, og sonur hennar er Óðinn, f. 1.11. 2008. Börn Haralds og fyrrv. eiginkonu hans, Guðnýjar Daníelsdóttur, eru Daníel Ágúst Haraldsson, f. 26.8. 1969, tónlistarmaður í Reykjavík, en dóttir hans og Gabrielu Friðriksdóttur listamanns er Daníela, f. 2.12. 1989. Dóttir Daníelu er Una Guðný, f. 13.7. 2007; Sara Haraldsdóttir, f. 17.4. 1971, leikskólakennari í Reykjavík. Dóttir Söru og Jóhanns Arnar Geirdal er Álfrún Freyja, f. 2.11. 2000, og sonur þeirra er Óðinn Örn, f. 9.3. 2006. Dóttir Söru er Margrjet, f. 30.7. 1996. Sonur Haralds er Georg Haraldsson, f. 8.12. 1976, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Iceland Travel, búsettur í Reykjavík, en kona hans er Hjördís Jónsdóttir, viðskiptafræðingur og dóttir þeirra er Elísa, f. 6.8. 2011 og synir Jón Sölvi, f. 17.6. 2013 og Ólíver, f. 19.10. 2016. Sonur Georgs og Hjördísar Bjarnþórsdóttur er Róbert Smári, f. 12.3. 2005.

Hálfbróðir Haralds, samfeðra, er Grímur Örn Haraldsson, f. 18.12. 1938, vélsmiður í Garðabæ. Alsystkini Haralds eru Sólveig Haraldsdóttir Hart, f. 9.2. 1946, húsmóðir í Birmingham á Englandi; Sigríður Haraldsdóttir, f. 23.10. 1947, húsmóðir í Kópavogi.

Foreldrar Haralds voru hjónin Haraldur S. Guðmundsson, f. 9.1. 1917, d. 20.9. 1979, stórkaupmaður í Reykjavík, og k.h., Sigurbjörg Bjarnadóttir, f. 20.10. 1924, d. 30.7. 2010, húsmóðir og verslunarmaður.