Mikilvægur Ólafur Ingi Skúlason fyrirliði Fylkismanna með boltann í leiknum í Keflavík í gær en hann krækti í vítaspyrnuna sem réð úrslitum.
Mikilvægur Ólafur Ingi Skúlason fyrirliði Fylkismanna með boltann í leiknum í Keflavík í gær en hann krækti í vítaspyrnuna sem réð úrslitum. — Ljósmyndir/Víkurfréttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Fylkir tók stórt skref í baráttu sinni um áframhaldandi veru í Pepsi-deild karla í fótbolta er liðið lagði fallna Keflvíkinga á útivelli, 2:1, í gærkvöldi.

Í Keflavík

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Fylkir tók stórt skref í baráttu sinni um áframhaldandi veru í Pepsi-deild karla í fótbolta er liðið lagði fallna Keflvíkinga á útivelli, 2:1, í gærkvöldi. Fyrir vikið fór Árbæjarliðið upp fyrir Víking og í níunda sæti. Fylkir er nú sex stigum fyrir ofan Fjölni, sem er í fallsæti. Fylkismenn hafa oft spilað betur og fengið minna út úr leikjum en í gær, en þokkaleg frammistaða þeirra í nægði til sigurs gegn lánlausu liði Keflavíkur, sem hefur ekki fengið eitt einasta stig á heimavelli í sumar. Fylkir átti fína kafla í leiknum en þess á milli átti Keflavík góða kafla. Keflavík fékk níu hornspyrnur í fyrri hálfleik og hafði reynsluboltinn Hólmar Örn Rúnarsson gaman af því að reyna á Aron Snæ Friðriksson í marki gestanna. Hvað eftir annað reyndi hann skot beint úr hornspyrnu og endaði boltinn einu sinni í tréverki og í annað skipti í netinu, en dæmd var aukaspyrna. Í síðari hálfleik fékk Keflavík ekki færri færi en Fylkir, en illa gekk að nýta þau. Leikurinn var því dæmigerður fyrir Keflavík í sumar. Þrátt fyrir fín færi og ágæta spilamennsku, höfðu eflaust margir sömu tilfinningu og undirritaður í stöðunni 1:1, tíu mínútum fyrir leikslok; að Fylkismenn myndu skora sigurmark, sem varð raunin. Það verður algjört stórslys ef Fylkismenn falla úr því sem komið er. Með innkomu Ólafs Inga Skúlasonar er allt annað að sjá flesta leikmenn Fylkis. Ólafur er ekki bara gæðaleikmaður sjálfur, hann gerir alla í kringum sig betri. Keflavík getur tekið eitthvað jákvætt úr leiknum og þá helst fína spilamennsku uppalinna leikmanna sinna.