Bolungarvík Hér er vel byggt og húsin eru mörg hver falleg. Handan víkur er Óshyrnan með skýjakúf á toppnum.
Bolungarvík Hér er vel byggt og húsin eru mörg hver falleg. Handan víkur er Óshyrnan með skýjakúf á toppnum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Páll Hreinsson tók við starfi bæjarstjóra í Bolungarvík fyrir hálfu þriðja ári.

Jón Páll Hreinsson tók við starfi bæjarstjóra í Bolungarvík fyrir hálfu þriðja ári. Hann er Vestfirðingur í húð og hár, menntaður í hagfræði frá Noregi og á að baki langan starfsferil vestra, meðal annars hjá 3X stál á Ísafirði, Markaðsstofu Vestfjarða og sem frumkvöðull. Starf bæjarstjórans segir hann vera afar fjölbreytt og í mörg horn að líta. Einn ánægjulegasti þáttur þess séu hin daglegu samskipti við íbúana sem leiti til bæjarstjórans síns vegna allskonar mála, praktískra sem persónulegra.

„Ég segi stundum að einn mikilvægasti þátturinn í mínu starfi sé að fara hér niður að höfn á morgnana þar sem karlar koma saman til spjalla; tala um pólitíkina, fiskiríið og bæjarmálin. Þar fæ ég beint í æð hvað er að gerast frá degi til dags hér í bænum. En svo verður maður líka að spá í stóru myndina og horfa fram í tímann,“ segir bæjarstjórinn og heldur áfram:

Laxeldi er kappsmál

„Hér við Ísafjarðardjúp hefur verið kappsmál okkar að hefja megi laxeldi eins og minnst þrjú fyrirtæki hafa óskað eftir. Hafrannsóknastofnun og fleiri hafa hins vegar lagst gegn því og borið við að óvissuþættirnir varðandi lífríkið séu of margir til að óhætt sé að gefa út leyfi. Vísindamenn segja að frekari rannsókna sé þörf og í krafti þess virðist mega draga mikilvæg mál á langinn, jafnvel árum saman. Slíkt er ekki boðlegt; í ófullkominni veröld verða endanlegar niðurstöður og upplýsingar aldrei tiltækar. Sé biðin löng er alltaf hætta á að forsendurnar sem lagt var upp með séu orðnar úreltar. Vísindin, stjórnsýslan, sveitarfélögin og fiskeldisfyrirtækin þurfa því að mínu mati að vera í sama takti svo niðurstaða fáist í því mikilvæga hagsmunamáli okkar að hefja megi laxeldi hér í Djúpinu.“