Ráðgáta Lilja Rafney segir makrílinn eða þorskinn hugsanlega sökudólga, eða ranga notkun veiðarfæra. Besta ráðið sé að fylgja tillögum Hafró.
Ráðgáta Lilja Rafney segir makrílinn eða þorskinn hugsanlega sökudólga, eða ranga notkun veiðarfæra. Besta ráðið sé að fylgja tillögum Hafró. — Morgunblaðið/Golli
„Í lok júní fengum við á fund okkar í atvinnuveganefnd sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og fulltrúa stærri og minni útgerða sem hafa veitt humar hér við land í marga áratugi, og áttum við mjög upplýsandi samræður,“ segir Lilja Rafney...

„Í lok júní fengum við á fund okkar í atvinnuveganefnd sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og fulltrúa stærri og minni útgerða sem hafa veitt humar hér við land í marga áratugi, og áttum við mjög upplýsandi samræður,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir. „Nýliðun humarsins hefur hrunið á undanförnum árum og hef ég miklar áhyggjur af þróuninni rétt eins og sjómenn.“

Lilja er formaður atvinnuveganefndar Alþingis og bendir hún á að það feli í sér verulega röskun fyrir atvinnulíf á vissum svæðum á landinu hve mikið humarveiðar hafa dregist saman. „Árið 1963 veiddust um 6.000 tonn af humri á Íslandsmiðum en í fyrra var aflinn kominn niður í tæp 1.200 tonn,“ upplýsir Lilja og bendir á að það sé einkum í byggðum á Suðurlandi, s.s. Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn sem útgerðir og íbúar reiða sig á humarinn. „Tekjutapið er auðvitað töluvert, og það sem meira er þá eru áhrifin slík fyrir marga að það er hreinlega ekki lengur arðbært að stunda þessar veiðar.“Aðspurð hvað sé til ráða segir Lilja að erfitt sé að finna orsök þeirrar slæmu þróunar sem hefur orðið á humarstofninum. „Því var haldið fram á fundi okkar að það sæi mjög á miðunum og spurning hvort öflugar togveiðar stærri báta, og flestra með tvö troll, hefðu þar áhrif. Áður fyrr var aðeins veitt í þrjá mánuði hvert ár og engin togskip en nú eru togskip og bátar á veiðum í um níu mánuði á ári og ef til vill hefur það neikvæð áhrif á lífríkið. Ef til vill á makríllinn þátt í þessu enda er hann nýleg viðbót við lífríkið í hafinu umhverfis Ísland og kann að éta humarlirfurnar. Þorskstofninn hefur líka stækkað og gæti það verið á kostnað humarlirfa sem þorskurinn étur,“ útskýrir Lilja. „Í þessari stöðu er mikilvægt að auka rannsóknir svo við skiljum betur hvað hefur þessi áhrif á humarinn og síðan verðum við að reiða okkur á tillögur Hafrannsóknastofnunar hvort sem stofnunin telur eðlilegt að halda veiðum óbreyttum, draga úr þeim eða jafnvel stöðva þær um skeið.“