Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um fjölmiðla segir frá því að Ríkisútvarpið hafi í nýliðnum mánuði byrjað að birta fréttir á ensku að staðaldri, að jafnaði tíu á dag.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um fjölmiðla segir frá því að Ríkisútvarpið hafi í nýliðnum mánuði byrjað að birta fréttir á ensku að staðaldri, að jafnaði tíu á dag.

Svo segir: „Hér ræðir um fréttir frá Íslandi og virðist einkum ætlað að ná til ferðamanna og erlendra áhugamanna um íslenskt atvinnulíf. Allmargir íslenskir miðlar flytja fréttir á ensku fyrir, en lög um Ríkisútvarpið kveða ekki á um fréttir eða dagskrárflutning á erlendum tungumálum. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem Ríkisútvarpið hefur sagt fréttir á ensku. 1970-1972 og aftur 1984-2001 var flutt erlent fréttayfirlit í hljóðvarpi, ætlað erlendum ferðamönnum (áður en netið varð almenningseign) og yfirleitt aðeins á sumrin. Í seinni tíð hefur og tíðkast að stöku frétt birtist á ensku ef um sérstaka stórviðburði er að ræða, svo sem náttúruhamfarir eða kosningar.“

Þessi sókn Ríkisútvarpsins út fyrir það svið sem eðlilegt getur talist að það starfi á eða löggjafinn hefur falið því að sinna er fjarri því einsdæmi. Ríkisútvarpið býður til að mynda fréttaþjónustu á vefnum sem er langt umfram það sem eðlilegt er til að koma því efni sem unnið er fyrir hljóðvarp eða sjónvarp á framfæri.

Dæmi um aukin umsvif Ríkisútvarpsins er einnig að finna á auglýsingamarkaði sem hefur stórskaðað einkarekna miðla. Ríkisútvarpið er því miður orðið stjórn- og hömlulaust í útvíkkun starfsemi sinnar. Því verður að breyta.