Í Grindavík Þríburarnir Natalía, Thea og Anna eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar og búa sig undir komandi keppni í vetur með þrotlausum æfingum.
Í Grindavík Þríburarnir Natalía, Thea og Anna eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar og búa sig undir komandi keppni í vetur með þrotlausum æfingum. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þríburarnir Natalía Jenný, Thea Ólafía og Anna Margrét hafa ekki aðeins leikið saman með sigursælum liðum í aldursflokki sínum í Grindavík heldur eiga þær að baki 23 sameiginlega leiki í U15 og U16 ára landsliðum Íslands í körfubolta og hafa sett stefnuna á U18 ára liðið. Þær eiga sér þann draum að fá skólastyrki og leika erlendis og starfa síðan við körfubolta eftir að keppnisferlinum lýkur.

„Ég man ekki mikið eftir mér þegar við vorum sex ára en þá lét mamma okkur í íþróttir,“ segir Natalía og systur hennar taka undir það. Anna bætir við að mamma þeirra, Janja Lucic, sem á ættir að rekja til Króatíu, hafi ekki viljað sjá þær hanga heima allan daginn og Thea segir að ekkert annað hafi komið til greina en íþróttir. „Þetta er bara íþróttabær,“ áréttar Natalía.

Skemmtun og vinskapur

Systurnar verða 16 ára 12. september næstkomandi. Þær byrjuðu að æfa körfubolta og fótbolta en hættu í fótboltanum í sumarbyrjun. Þær spiluðu fyrsta landsleikinn með U15 ára landsliðinu í Kaupmannahöfn í fyrrasumar, voru með U16 ára liðinu á Norðurlandamótinu í Finnlandi fyrr í sumar og komu í vikunni frá Evrópumótinu í Svartfjallalandi.

Jón Á. Gíslason, pabbi þeirra, segist hafa gutlað í körfu í mörg ár og stelpurnar segjast vera fegnar að hafa lagt rækt við körfuboltann. „Þetta er svo skemmtilegt, hreyfingin og vinskapurinn,“ segir Natalía og hinar taka í sama streng. Þær segjast hafa tekið stefnuna á landsliðið fyrir um þremur til fjórum árum og þegar kallið hafi komið hafi allar varnir brostið. „Ég grét af gleði,“ rifjar Anna upp. „Þetta var mjög spennandi,“ segir Thea. „Ég hoppaði af ánægju,“ botnar Natalía. „Það var engu líkt að fá að vita að við værum á meðal tólf bestu í okkar árgangi á Íslandi.“

Stelpurnar spila mismunandi stöður og eru því ekki beint í samkeppni hver við aðra. Segja samt að mikil keppni sé á milli þeirra. Þegar spurt er hver sé best stendur ekki á samhljóma svarinu: „Ég.“ Anna segist reyndar ekki geta borið sig saman við hinar þar sem þær spili ekki sömu stöðu og niðurstaðan er sú að þær séu allar bestar hver í sinni stöðu.

Jafnt og þétt fara þær út fyrir þægindarammann og segja það gott og uppbyggjandi. Þær hófu nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vikunni, taka strætó klukkan 7.25 á morgnana til Keflavíkur og koma heim um klukkan fjögur á daginn. Undanfarin tvö ár hafa þær þjálfað ung börn í íþróttum en annars gengur lífið út á námið, æfingar og leiki. „Mig langar til þess að vera læknir,“ segir Natalía. „Ég vil vera sjúkraþjálfari hjá körfuboltaliði eftir að ég hætti að spila,“ segir Anna. „Eftir að ég hætti að spila langar mig til þess að vera körfuboltaþjálfari,“ segir Thea.