Guðrún Sigríður Pétursdóttir fæddist á Vakursstöðum í Vopnafirði 17. nóvember 1923. Hún lést á hjúkrunardeild Sundabúðar á Vopnafirði 23. ágúst 2018.

Foreldrar hennar voru Pétur Ólafsson, f. á Gnýsstöðum í Vopnafirði 4. nóvember 1879, d. 21. maí 1939, og Elísabet Sigurborg Sigurðardóttir , f. á Vakursstöðum í Vopnafirði 14. desember 1881, d. 7. júní 1956. Systkini Guðrúnar eru: 1) Sigurveig, f. 8. maí 1911, d. 5. nóvember 2003. 2) Sigurður Vigfús, f. 24. júlí 1912, d. 20. október 1990. 3) Ólafur, f. 10. nóvember 1913, d. 4. apríl 2003. 4) Halldór, f. 10. desember 1914, d. 25. janúar 1974. 5) Sigríður, f. 10. desember 1914, d. 6. janúar 2015. 6) Jón, f. 18. maí 1919, d. 7. júlí 1997.

Guðrún giftist 18. nóvember 1950 Einari Hjálmari Jónssyni, f. á Vopnafirði 4. desember 1916, d. 18. nóvember 2014. Foreldrar hans voru Jón Gíslason, f. 8. ágúst 1865, d. 17. september 1948, og Þórunn Anna Sigfúsdóttir, f. 1. ágúst 1885, d. 28. október 1979. Börn Guðrúnar og Einars eru: 1) Jón Pétur, f. 16. apríl 1950. Eiginkona hans er Aðalbjörg Kjerúlf, f. 24. nóvember 1950. Dóttir þeirra er Una Björk Kjerúlf, f. 5. apríl 1975. Börn hennar og fyrrverandi maka, Hilmars Þórs Guðmundssonar Norðfjörð, f. 24. maí 1972, eru Auður Ísold Hilmarsdóttir Kjerúlf, f. 28. febrúar 2004, og Jökull Þór Hilmarsson Kjerúlf, f. 16. janúar 2007. 2) Elísabet Þorgerður, f. 27. maí 1957. Eiginmaður hennar er Aðalsteinn Aðalsteinsson, f. 25. nóvember 1955. Dóttir þeirra er Lilja Rós Aðalsteinsdóttir, f. 24. júlí 1982. Maki hennar er Óskar Stefánsson, f. 1. nóvember 1983. Börn þeirra eru Aðalsteinn Ómar Liljuson, f. 28. nóvember 2009, og Anna Margrét Óskarsdóttir, f. 2. janúar 2014.

Guðrún ólst upp á Vakursstöðum. Sem ung kona vann hún við barnagæslu að Laugum í Reykjadal og sótti þar einnig húsmæðraskóla veturinn 1946-1947. Guðrún og Einar hófu sinn búskap að Miðbraut 5 á Vopnafirði, í húsi nefndu Byrgi sem þau hjónin voru kennd við. Þar bjuggu þau til ársins 1999 þegar þau fluttu á dvalarheimilið Sundabúð. Guðrún var húsmóðir en vann einnig ýmis verkakonu- og þjónustustörf á Vopnafirði.

Útför Guðrúnar fer fram frá Vopnafjarðarkirkju í dag, 1. september 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Nú hefur fengið hvíldina öldruð vinkona mín og nágranni frá barnæsku úr Vesturárdalnum og áfram í þorpinu. Það var frændsemi og mikill vinskapur á milli Ytri-Hlíðar og Vakursstaða. Gleymist ekki gestrisnin og móttökurnar á Vakursstaðaheimilinu sem hélst eftir að systkinin fluttu í þorpið og hún gift Einari Jónssyni og búsett á Miðbraut eins og ég.

Við höfum átt glaðar og góðar stundir saman við blóm og margt fleira. Þau hjónin fluttu svo í Sundabúð í leiguíbúð, þar fór vel um þau. Allt sem áður, snyrtimennskan og hlýjar móttökur. Þau voru einstaklega samhent, ógleymanlegt og fallegt að sjá þau sitja saman í hjólastólunum hlið við hlið með teppi yfir sér þegar maður leit inn. Vildi að ég ætti mynd á filmu en ég geymi hana í huga mér. Gleðin í augum hennar þegar ég kom fyrir jólin með smábox af gyðingakökum eða eitthvað sem minnti á hennar siði. Hún bakaði alltaf svo fallegt og gott brauð.

Hún fór í Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal. Allt lék í höndum hennar, gerði þar fallega handavinnu sem prýddi heimilið.

Á legudeildinni var hún síðustu árin. Alltaf jafn róleg, glöð og sátt. Oft sat hún í stólnum og heklaði þvottastykki eða borðklúta. Þó að minnið sviki stundum gat hún spurt um börnin mín og blómin, sem hún elskaði. Ég færði henni alltaf smá smakk af berjum sem henni fannst gott að smakka. Ekki gleymdi hún að þakka fyrir komuna og allt gamalt og gott.

Síðasta ferð mín í heimsókn til hennar var nokkrum dögum fyrir andlátið, svo við kvöddumst þá.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt samleið og vinskap þessarar góðu konu . Blessuð sé minning hennar.

Lofa þig sól þér lítur jörð

lífið þér færi þakkar gjörð

blessi þitt nafn um eilíf ár

Einn samur Guð og faðir hár.

(Sigurbjörn Einarsson.)

Hinsta kveðja frá

Sveini og Valgerði.