Gamli Herjólfur á siglingu.
Gamli Herjólfur á siglingu. — Ljósmynd/Óskar Pétur
„Hlaupið verður haldið. Við gáfum það út fyrir fyrsta hlaupið að það yrði haldið þótt við yrðum bara tveir,“ segir Sigmar Þröstur Óskarsson, annar af forsvarsmönnum Vestmannaeyjahlaupsins sem haldið verður í dag.

„Hlaupið verður haldið. Við gáfum það út fyrir fyrsta hlaupið að það yrði haldið þótt við yrðum bara tveir,“ segir Sigmar Þröstur Óskarsson, annar af forsvarsmönnum Vestmannaeyjahlaupsins sem haldið verður í dag. Óvissa var í gær um hvort hluti af skráðum keppendum kæmist vegna þess að útlit var fyrir að Herjólfur myndi þurfa að sigla til Þorlákshafnar, að minnsta kosti fyrri ferð dagsins.

Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar í gær vegna öldugangs við Landeyjahöfn og Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, sagði í gær að útlitið fyrir daginn í dag (laugardag) væri ekki gott. Verði það raunin að Herjólfur sigli til Þorlákshafnar í dag missa þeir hlauparar sem treysta blint á að komast fram og til baka sama daginn af viðburðinum.

Sigmar segir að 250 þátttakendur séu skráðir í hlaupið. Þar af hafi 150 verið með frímiða með Herjólfi í dag (laugardag). Hann segir að erlendir þátttakendur séu þegar komnir til liðs við heimamenn sem taka þátt og einhverjir af þeim sem ætlað höfðu með laugardagsferðum Herjólfs hafi náð að breyta bókun og ætlað með seinni ferð skipsins í gær.

Fleiri viðburðir eru í Eyjum um helgina, meðal annars árgangamót nemenda. Gunnlaugur taldi að flestir þeirra dveldu í fleiri daga og kæmu sér tímanlega til Eyja.

helgi@mbl.is