Unnið er að gerð frumvarps að nýjum heildarlögum um veiðigjöld.

Unnið er að gerð frumvarps að nýjum heildarlögum um veiðigjöld. „Markmið mitt er að frumvarpið sem fram kemur í haust taki á þeim ágöllum sem finna má í núverandi kerfi, og þá er stærsta atriðið í rauninni það að reyna að færa álagningu þessara gjalda sem næst okkur í tíma,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra, í samtali við 200 mílur sérblað Morgunblaðsins um sjávarútveg.

Megum ekki drukkna í hugmyndafræði

Í blaðinu er rætt við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingmann VG og formann atvinnuveganefndar þingsins: „Veiðigjöldin þarf að endurskoða með tilliti til þess að litlu og meðalstóru fyrirtækin geti lifað af. Við sem sitjum á Alþingi megum ekki drukkna í útópíu eða hugmyndafræði um hvað sé hægt að leggja á há veiðigjöld án tillits til ólíkrar afkomu, samfélags- og byggðarsjónarmiða,“ segir Lilja Rafney meðal annars.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir ánægjulegt að sjá ný skip koma inn í íslenska fiskiskipaflotann og fá að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem nú eigi sér stað í landvinnslu, eins og á Dalvík og Grundarfirði. Á sama tíma sé erfitt að horfa upp á ónýttar aflaheimildir í tegundum á borð við blálöngu, keilu og gulllax, sér í lagi þegar því valdi einna helst há veiðigjöld stjórnvalda.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir í samtali við 200 mílur að sú staðreynd sé öllum ljós að veiðigjöld séu orðin mjög há.

„Veiðigjöld eru orðin um 13% af aflaverðmæti ísfisktogara, eða næststærsti gjaldaliður á eftir launum. Þegar við erum farin að horfa upp á þrettán prósent af aflaverðmæti hverfa í veiðigjöld þá er það ansi hátt hlutfall. Þá er alveg sama hvort útgerðin er stór, meðalstór eða lítil. Veiðigjöld þurfa að taka mið af afkomu tegunda og vera með þeim hætti að allir greiði sama gjald fyrir sama fiskinn,“ segir Gunnþór.

Vilja róa á sunnudögum

Fram kemur í blaðinu að nýtt kerfi strandveiða hafi gengið vel í sumar. Farið verður yfir reynsluna af þessu kerfi í haust og segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Morgunblaðið, að sambandið vilji skoða að leyft verði að róa fimm daga í viku í stað fjögurra og sunnudögum verði þá bætt við.