Egill Sigurðsson
Egill Sigurðsson
Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum, hefur sagt af sér embætti formanns stjórnar Auðhumlu sem er félag allra kúabænda í landinu nema Skagfirðinga og heldur utan um 90% hlut í Mjólkursamsölunni.

Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum, hefur sagt af sér embætti formanns stjórnar Auðhumlu sem er félag allra kúabænda í landinu nema Skagfirðinga og heldur utan um 90% hlut í Mjólkursamsölunni. Ástæðan er ágreiningur um innheimtu svokallaðs innvigtunargjalds á mjólk umfram kvóta. Ágúst Guðjónsson, bóndi á Læk í Flóahreppi, var kosinn formaður í hans stað.

Egill var formaður stjórna Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar í rúm 11 ár en var felldur úr embætti sínu í MS fyrr á árinu.

Sérstakt innvigtunargjald er lagt á til að standa undir kostnaði Mjólkursamsölunnar við vinnslu á mjólk umfram kvóta sem flutt er á erlenda markaði og þar með til að hamla á móti aukningu mjólkurframleiðslu í landinu.

Í samræmi við verðmæti

Egill lagði til á stjórnarfundi Auðhumlu í fyrradag að innvigtunargjaldið yrði óbreytt, 52 krónur á hvern lítra sem framleiddur er umfram kvóta. Það samsvarar verði fyrir þá mjólk sem fer til framleiðslu á skyri fyrir bestu markaði erlendis. Meirihluti stjórnar ákvað að hafa „hliðsjón af því verðmæti sem fæst fyrir þetta hráefni í útflutningi“, eins og það er orðað í tilkynningu á vef Auðhumlu. Verður innvigtunargjaldið 57 krónur á lítra. Það þýðir 14% lækkun á verði sem bændur fá fyrir umframmjólk, eftir mjólkurverðshækkun 1. september. Af rúmum 90 krónum sem Mjólkursamsalan greiðir fyrir mjólkina fara 57 krónur í innvigtunargjaldið og bóndinn fær um 30 krónur í vasann fyrir hvern lítra.

Í bókun sem Egill lagði fram á fundinum, þegar hann sagði af sér, kemur fram að hann telur að með þessari ákvörðun sé verið að nota ávinning af skyrsölu og markaðsstarfi erlendis til að styðja við lokaðan innlendan markað. Afgreiðsla stjórnar kunni að baka félaginu skaðabótaskyldu eða tjón. Þá telur hann ekki ástæðu til að hraða samdrætti í mjólkurframleiðslu því nú þegar stefni í samdrátt.

helgi@mbl.is