Jón Berg Halldórsson er vafalítið mesti hrekkjalómur íslenska flotans fyrr og síðar og snemma byrjaði það. Jón Berg var dagmaður á Voninni VE árið 1954, þá 19 ára gamall. Hlutverk hans var meðal annars að dytta að ýmsum hlutum í vél.

Jón Berg Halldórsson er vafalítið mesti hrekkjalómur íslenska flotans fyrr og síðar og snemma byrjaði það.

Jón Berg var dagmaður á Voninni VE árið 1954, þá 19 ára gamall. Hlutverk hans var meðal annars að dytta að ýmsum hlutum í vél. Einnig að tæma úr kamarfötunni. Var það lítt eftirsóknarvert, eins og gefur að skilja. Það var bæði óþrifalegt og síður en svo aðlaðandi starf að bograst inn á kamarinn, draga fötuna undan setunni, arka með „gúmmelaðið“ út á dekk, kasta því í sjálft Atlantshafið og koma svo ílátinu aftur fyrir á sínum stað.

Setan var ekkert annað en planki með gati á sem tók þegjandi á móti brosandi rasskinnum skipverjanna – sem létu svo úrganginn vaða í fötuna. Lyktin á kamrinum var hræðileg, þarna loddi við óþrifnaður allt um kring eftir margra ára notkun.

Það þarf mann með einstakt hugmyndaflug til að gera sér...mat...í orðsins fyllstu merkingu úr þessu daunilla starfi. Og það kom bara einn til greina: Jón Berg Halldórsson.

Einn daginn, þegar Jón Berg var að fá sér kaffi í lúkarnum sá hann fullan poka af kakódufti. Hann tók kakópokann og hellti kakóinu í skál. Svo hrærði hann það út með vatni og útkoman varð líka þessi fína „ræpa“. Svo læddist hann með skálina á kamarinn og sletti kakóhræru yfir alla setuna, svo varla sást í hana og auðvitað lak eitthvað út af henni og niður á gólf. Í þessu umhverfi – með fötuna hálfa af mannaskít og lyktina eftir því – var þetta ljúffenga kakó í meira lagi ógeðslegt, enda engu líkara en einhverjum hefði orðið brátt í brók og ekki ráðið neitt við neitt.

Þegar Jón Berg var búinn að sulla kakóinu á kamarsetuna fór hann niður í lúkar þar sem áhöfnin var sest til borðs og beið eftir hádegismatnum. Þar hellti hann sér yfir strákana, kallaði þá sóða og spurði hver þeirra hefði eiginlega drullað yfir kamarsetuna og raunar út um allt á kamrinum. Enginn kannaðist við að hafa gert það, en Jón Berg gaf sig ekki og sagði að þeir yrðu þá bara að þrífa þetta í sameiningu, því ekki kæmi til mála að hann gerði það.

Við svo búið fór Jón Berg með skipsfélaga sína aftur á skut bátsins, reif upp hurðina á kamrinum og sýndi þeim inn. Þar blasti vissulega ófögur sjón við. Strákarnir litu hver á annan og sóru af sér ófögnuðinn.

Þá gerðist það að Jón Berg smeygði sér framhjá þeim og fór inn á kamarinn, stakk þar putta í „kúkinn“ á setunni og tók upp væna slettu. Hann sýndi hana félögum sínum, en stakk henni síðan upp í sig, kjamsaði eilítið á gumsinu og sagði svo:

„Þetta er algjörlega hreinn skítur.“

Strákarnir kúguðust. Einhverjir hlupu fram á dekk og ældu þar. Matarlyst þeirra var lítil það sem eftir lifði dagsins. Skiljanlega. Enginn þeirra hafði séð annað eins.