Steinþór Jónsson
Steinþór Jónsson
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Stofnfundurinn fór fram á Grand hóteli á fimmtudag. Samtökin voru stofnuð og mynduð níu manna stjórn.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Stofnfundurinn fór fram á Grand hóteli á fimmtudag. Samtökin voru stofnuð og mynduð níu manna stjórn. Félagsmenn hafa samtals á þriðja tug gististaða og á fjórða þúsund hótelherbergi,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík og stjórnarmaður í nýjum hagsmunasamtökum hótela.

Samtökin heita Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu (FHG).

Formaður samtakanna er Kristófer Oliversson, eigandi CenterHotels-keðjunnar.

Steinþór segir markmiðið að fá sem flesta gististaði í samtökin.

„Flest okkar eru í Samtökum ferðaþjónustunnar, SAF, og verðum þar áfram. Það eru margar greinar innan SAF og samtökin eru að stækka. Við þær aðstæður er mikilvægt að rödd okkar hóteleigenda og eigenda gististaða heyrist betur.“

Ekki svigrúm fyrir meiri skatta

„Við tökum fyrir fjölmörg mál sem tengjast rekstri hótela og gististaða. Fyrst ber auðvitað að nefna skatta og skyldur sem eru lögð á greinina. Þá erum við að tala um virðisaukaskatt, gistináttaskatt og fasteignagjöld. Hugmyndir um að breyta þessum gjöldum hafa verið til umræðu,“ segir Steinþór.

Hann segir aðspurður að félagsmenn FHG telji hótelgeirann skattlagðan meira en aðrar greinar. Með hliðsjón af afkomu fyrirtækjanna, einkum gististaða úti á landi, sé ekki svigrúm fyrir hækkanir. Rekstrarafkoma hótela úti á landi eftir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) sé neikvæð og hagnaður hótela á suðvesturhorninu aðeins 6% á sama mælikvarða.

Óraunhæfar hugmyndir

„Við erum sátt við núverandi virðisaukaskatt á gistingu. Við teljum hugmyndir um hækkun skattsins hins vegar vera óraunhæfar. Nú er jafnframt rætt um breytingar á gistináttagjaldi, sem við viljum fella niður. Þær hugmyndir ganga út á að færa þetta til sveitarfélaga og breyta bæði upphæðum og hvernig skatturinn er innheimtur. Það eru að verða miklar breytingar í þjóðfélaginu. Leiga íbúða til ferðamanna í gegnum Airbnb er til dæmis orðin umfangsmeiri en hótelrekstur, samkvæmt síðustu tölum. Samt eigum við að bera allar byrðar. Við viljum að rödd okkar fái að heyrast,“ segir Steinþór.

Hann segir mikilvægt að allar tölur séu uppi á borðinu varðandi afkomu greinarinnar. Nýju samtökin, FHG, muni vinna að slíkri gagnasöfnun á næstunni.