Barátta Þættirnir eru í góðum takt við raunveruleikann.
Barátta Þættirnir eru í góðum takt við raunveruleikann. — Morgunblaðið/Eggert
Allt er gott sem endar vel. Lokaþáttur Heimavallar var sýndur á RÚV á fimmtudaginn og það er skemmst frá því að segja að Helenu Mikkelsen tókst ætlunarverk sitt.

Allt er gott sem endar vel. Lokaþáttur Heimavallar var sýndur á RÚV á fimmtudaginn og það er skemmst frá því að segja að Helenu Mikkelsen tókst ætlunarverk sitt. Hún hætti með liðið í níunda þætti vegna ósættis við aðalstyrktaraðila félagsins, sem allir áhorfendur þáttarins voru orðnir dauðþreyttir á.

Í lokaþættinum tekur hún aftur við liðinu eftir dapurt gengi og bjargar liðinu á ævintýralegan hátt frá falli. Kannski eru þættirnir bara svona góðir því réttlætið sigraði að lokum.

Það er samt ekki bara pælingin sjálf á bak við þættina sem gerir þá góða því þeir eru furðu raunverulegir líka og í takt við það sem við sjáum oft á tíðum gerast í raunverulegum heimi íþróttanna.

Vissulega eru atriði í þættinum sem maður fékk ákveðinn kjánahroll yfir en að sama skapi eru þeir vel skrifaðir og halda manni vel við efnið. Norska ríkissjónvarpið framleiðir þættina og hefur nú þegar gefið það út að önnur sería af þáttunum sé væntanleg.

Ég veit ekki með fólkið í kringum mig en ég er spenntur fyrir næstu seríu og ef þið hafið ekki séð þættina mæli ég með því að fólk byrji að horfa á þá strax í gær.

Bjarni Helgason