Nýjasta hótelið Ein af svítunum á Exeter-hótelinu á Tryggvagötu.
Nýjasta hótelið Ein af svítunum á Exeter-hótelinu á Tryggvagötu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela, segir horfur á nokkuð góðu rekstrarári hjá félaginu en þó aðeins lakara en í fyrra. Keahótel ehf.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela, segir horfur á nokkuð góðu rekstrarári hjá félaginu en þó aðeins lakara en í fyrra. Keahótel ehf. tóku við þremur hótelum í sumar; Hótel Kötlu við Vík í Mýrdal og Sand hótel og Exeter-hótel í miðborg Reykjavíkur.

Páll segir hraðan vöxt reyna á innviði félagsins sem séu sterkir.

„Við tókum við þremur hótelum yfir háannatímann í sumar. Næsta misserið ætlum við að einblína á að ná góðum tökum á því sem við erum með. Það er skýr stefna hjá fyrirtækinu að styrkja það og stækka í náinni framtíð,“ segir Páll.

Hann segir aðspurður bæði horft til þess að hefja rekstur í nýbyggingum og taka yfir hótel í rekstri.

Mörg verkefni verða ekki að veruleika

Exeter-hótel var opnað formlega á fimmtudaginn var. Það er fjögurra stjarna hótel með 106 herbergjum.

Páll kveðst aðspurður ekki eiga von á að mörg hótel í þeim gæðaflokki verði byggð í miðborginni á næstu árum. Þá telur hann að það muni hægja á uppbyggingu hótela í jaðri miðbæjarins.

„Það hefur sýnt sig að það hefur hægt mikið á vextinum í nýbyggingum. Það hafa svo mörg verkefni verið kynnt fyrir okkur sem hafa ekki orðið að veruleika og verða ekki að veruleika. Mörg verkefnin hafa verið óraunhæf. Þau hafa einfaldlega verið of dýr og við höfum ekki treyst okkur til að standa undir þeim breytingum á húsnæði, eða nýbyggingum. Þetta er mest í borginni,“ segir Páll sem spáir frekari samþjöppun á hótelmarkaði.

„Það er vaxandi krafa um meiri fagmennsku í ferðaþjónustunni. Þeir sem eru tilbúnir með innviðina standa betur en aðrir. Þegar uppbyggingin er hröð og gestirnir eru nánast í biðröðum, sama hvort það er gisting, veitingastaður eða afþreying, er ekki sama krafa um gæði og fagmennsku. Það er að breytast,“ segir Páll um stöðuna á markaði.