Horfinn Sádí-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi sést hér ganga inn í ræðismannsbústað Sádí-Arabíu í Istanbúl, en hann hefur ekki sést síðan.
Horfinn Sádí-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi sést hér ganga inn í ræðismannsbústað Sádí-Arabíu í Istanbúl, en hann hefur ekki sést síðan. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Tyrkneskir fjölmiðlar birtu í gær myndir úr öryggismyndavélum, sem sagðar voru sýna þá menn, sem sagðir eru hafa orðið valdir að hvarfi sádí-arabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Tyrkneskir fjölmiðlar birtu í gær myndir úr öryggismyndavélum, sem sagðar voru sýna þá menn, sem sagðir eru hafa orðið valdir að hvarfi sádí-arabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi. Þá birti tyrkneska blaðið Sabah nöfn fimmtán manna, sem sagðir eru sádí-arabískir leyniþjónustumenn, og eiga myndirnar að sýna ferðir þeirra til og frá ræðismannsbústað Sádí-Arabíu og á alþjóðaflugvellinum í Istanbúl.

Khashoggi hefur verið saknað síðan hann fór til ræðismanns Sádí-Arabíu í Istanbúl hinn 2. október síðastliðinn, og sögðu tyrknesk yfirvöld um helgina að þau teldu hann hafa verið myrtan þar inni. Stjórnvöld í Sádí-Arabíu hafa hins vegar neitað þeim ásökunum. Hafa Tyrkir því krafist þess að Sádí-Arabar sanni að Khashoggi hafi yfirgefið ræðismannsbústaðinn heill á húfi.

Settur í svartan sendiferðabíl?

Tyrkneskir fjölmiðlar greindu hins vegar frá því í gær að nú væri verið að kanna þann möguleika að Khashoggi hefði verið numinn á brott og fluttur með leynd til Sádí-Arabíu, og mun tyrkneska lögreglan vera að rannsaka myndefni úr um 120 mismunandi öryggismyndavélum víðsvegar um Istanbúl. Þá hafði bandaríska dagblaðið Washington Post eftir heimildarmanni sínum að bandarískar leyniþjónustustofnanir hefðu hlerað samskipti sádí-arabískra embættismanna, þar sem lögðu voru á ráðin um brottnám Khashoggis, ef ekki væri hægt að „lokka“ hann til Sádí-Arabíu svo „leggja mætti hendur á hann þar“.

Á meðal þess sem sást á myndunum sem birtar voru í gær voru svartir sendiferðabílar, sem sáust keyra frá ræðismannsbústaðnum um tveimur tímum eftir að Khashoggi hvarf, og telur lögreglan í Istanbúl nær öruggt að hann hafi verið í öðrum þeirra. Þá er lögreglan einnig að rannsaka ferðir tveggja einkaflugvéla frá Sádí-Arabíu sem lentu í Istanbúl sama dag og Khashoggi hvarf og möguleikann á því að hann hafi verið fluttur til Sádí-Arabíu með annarri þeirra.

Trump krefst svara

Hatice Cengez, unnusta Khashoggi, ritaði í fyrradag grein í Washington Post, þar sem hún bað Donald Trump Bandaríkjaforseta um að beita áhrifum sínum til þess að komast að því hvað hefði orðið um Khashoggi. Trump sagði í gær að hann hefði talað við ráðamenn á „æðstu stöðum“ í Sádí-Arabíu oftar en einu sinni og krafist svara um örlög Khashoggis. „Þetta er alvarlegt ástand,“ sagði Trump og bætti við að hann og Melania eiginkona sín hefðu rætt við Cengez og athugað hvort hægt væri að bjóða henni til Hvíta hússins.

Þá hefur málið vakið athygli á bágri stöðu blaðamanna í Sádí-Arabíu, en samtökin Blaðamenn án landamæra sendu frá sér yfirlýsingu í gær um að minnsta kosti 15 blaðamenn og bloggarar hefðu verið handteknir á síðustu 12 mánuðum í landinu, og að í heildina væru á bilinu 25-30 blaðamenn í haldi stjórnvalda þar. Þá sagði að mönnunum væri í flestum tilfellum haldið án þess að gefin hefði verið út ákæra eða réttað hefði verið í máli þeirra.

Sjálfur hafði Khashoggi lýst yfir áhyggjum sínum vegna stöðu mála í heimalandi sínu. Birti breska ríkisútvarpið samtalsbúta sem teknir voru upp í síðasta viðtalinu sem Khashoggi veitti fyrir hvarfið, þar sem hann sagði að hann ætti líklega ekki afturkvæmt til Sádí-Arabíu vegna þess hvernig stjórnvöld þar hegðuðu sér í garð blaðamanna.