Undirbúningur Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM, ásamt listamönnum sem þátt taka í Torgi 2018.
Undirbúningur Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM, ásamt listamönnum sem þátt taka í Torgi 2018. — Morgunblaðið/Eggert
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Torg 2018 – listamessa í Reykjavík nefnist viðburður sem Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) stendur fyrir á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum um helgina, en verkefnið er hluti af Mánuði myndlistar 2018.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Torg 2018 – listamessa í Reykjavík nefnist viðburður sem Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) stendur fyrir á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum um helgina, en verkefnið er hluti af Mánuði myndlistar 2018. „Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á listamessu af þessu tagi hérlendis,“ segir Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM. „Okkur finnst löngu tímabært að kynna þá fjölbreytilegu myndlistarflóru sem hér fyrirfinnst og skapa vettvang fyrir listunnendur að nálgast og eignast verk listamanna á auðveldan hátt. Þarna gefst fólki meðal annars tækifæri til að eignast verk eftir vel þekkta listamenn.“

Myndlistin er til sölu

Torg 2018 verður formlega opnað á laugardag kl. 13 og er opið laugardag og sunnudag milli kl. 13 og 18. „Þar býðst gestum og gangandi að koma, hitta listamenn, skoða verk þeirra og jafnvel eignast þau. Listamenn geta boðið kaupendum að gera greiðslusamning við kaup á listaverki, samningurinn gerir þá kaupanda kleift að greiða mánaðarlega af verkinu. Það hefur stundum verið feimnismál hvort myndlistin sé til sölu, en þarna verður hún algjörlega til sölu.“

Að sögn Önnu eru innan raða SÍM rúmlega 840 listamenn, listhópar og fagfélög á borð við Íslensk grafík, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, Félag íslenskra samtímaljósmyndara (FÍSL), Félag íslenskra myndlistarmanna (FÍM), Textílfélagið og Leirlistafélag Íslands. „Markmið okkar er að gefa listamönnum tækifæri til að koma verkum sínum á framfæri,“ segir Anna og tekur fram að þátttaka sé mjög góð. „Þannig þurftum við að auka sýningarpláss til muna til að anna eftirspurn.

„Í tveimur básum er boðið upp á kynningar á réttindum og starfsumhverfi myndlistarmanna. „Kynningin verður í höndum hagsmunasamtaka og aðildarfélaga SÍM,“ segir Anna og tekur fram að þessi hluti Torgsins sé ætlaður listamönnum og þeim sem starfa innan fagstéttarinnar. Þar sem listamessan er nú haldin í fyrsta sinn verður hún sennilega með aðeins öðru sniði strax á næsta ári,“ segir Anna og tekur fram að undirbúningur sé þegar hafinn fyrir listamessu næsta árs. „Það verkefni verður miklu stærra og viðameira. Sem dæmi stefnum við á að kynna listamessu næsta árs erlendis auk þess sem hún mun standa í að minnsta kosti viku á næsta ári.“

Sem flestir fái að njóta

SÍM hefur síðustu undanfarin ár staðið fyrir Degi myndlistar í október og kynnt þá starf myndlistarmanna. „Kynningarnar hafa vaxið ár frá ári að umfangi svo að ákveðið var að breyta heiti verkefnisins í Mánuð myndlistar.

„Eitt atriði Mánaðar myndlistar er samstarf við Gerðuberg og Borgarbókasafnið í Tryggvagötu þar sem listamenn verða með opna vinnustofu í salarkynnum stofnananna. Listamenn munu heimsækja ríflega 30 grunn- og framhaldsskóla víða um land og kynna list sína og starf,“ segir Anna og bætir við að Mánuður myndlistar sé vettvangur fyrir kynningu á störfum myndlistarmanna og umræðu um mikilvægi myndlistar í samfélaginu.

„Flestir hafa séð myndlistarverk á listasöfnum, í galleríum eða uppi á vegg á heimilum og í stofnunum, en þá eru verkin alltaf í endanlegri gerð. Í Mánuði myndlistar er meðal annars leitast við að skyggnast bak við tjöldin og veita innsýn í ferli listamannsins við sköpun listaverka. Tilgangur Mánaðar myndlistar er að setja fókus á þetta ferli og auka og dýpka þekkingu á faginu. Okkur dreymir um að sem flestir fái að njóta listarinnar,“ segir Anna. Allar nánari upplýsingar um dagskrá mánaðarins má finna á vefnum manudurmyndlistar.is.