Óklárað Náðhús braggans hefur kostað yfir 40 m.kr. og virðist óklárað.
Óklárað Náðhús braggans hefur kostað yfir 40 m.kr. og virðist óklárað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar, telur augljóst að skoða þurfi innkaupaþáttinn sérstaklega í tengslum við yfir 400 milljón króna framkvæmdir borgarinnar á umdeildum bragga í Nauthólsvík.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar, telur augljóst að skoða þurfi innkaupaþáttinn sérstaklega í tengslum við yfir 400 milljón króna framkvæmdir borgarinnar á umdeildum bragga í Nauthólsvík. Gagnrýnt hefur verið að framkvæmdin fór langt fram úr kostnaðaráætlun. „Þegar þetta er komið í þessar fjárhæðir hlýtur það að vera sú spurning sem allir eru að velta fyrir sér,“ segir Hallur spurður hvort ekki þurfi að skoða innkaupareglur í þessu samhengi.

Erlendur Gíslason, lögmaður á Logos og sérfræðingur í opinberum innkaupum, segir að sveitarfélögum sé skylt að bjóða hluti út ef áætlaður kostnaður er yfir ákveðnum mörkum. „Það er einmitt útboð og samkeppnin sem felst í því sem er til þess fallin að halda verði niðri eða að sem hagkvæmust lausn sé valin eftir því hverjar forsendurnar eru. Í svona verki væri það væntanlega bara verð.“

Hann segir að ekki sé hægt að sundurliða verk í marga þætti og komast hjá útboði. „Það er eitt af því sem má ekki ef lög um opinber innkaup eru skoðuð; það má ekki brjóta niður innkaup til þess að komast hjá útboðsskyldu.“

Dregur verðfyrirspurnir í efa

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir að ekkert bendi til þess að farið hafi verið í útboð. Á síðasta borgarstjórnarfundi spurði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Dag B. Eggertsson borgarstjóra hvort farið hefði verið í útboð. Hann svaraði því neitandi en sagði að verðfyrirspurnir hefðu verið viðhafðar en ekki útboð. „Verðfyrirspurnir eru innan ramma laganna en ég er ekki viss um að þessar verðfyrirspurnir hafi farið fram,“ segir Vigdís. „Það eigum við eftir að fá að sjá vegna þess að þegar við fáum svar um hverjir unnu verkin, með kennitölum og dagsetningum, þá gefur borgin rangar upplýsingar upp og sundurliðar ekki efniskaup og vinnu hjá þeim aðila sem er með hæsta reikninginn.“

„Allar reglur þverbrotnar“

Stærsti reikningurinn í tengslum við braggann var frá Smiðnum þínum lfs. og var upp á 105,5 milljónir króna. Segir Vigdís að smiðurinn hafi keypt efni eftir hendinni með heimild frá fyrrverandi starfsmanni borgarinnar. „Þessi samskipti fóru fram í tölvupósti og svo fór reikningurinn bara niður í ráðhús og hann stimplaður þar og greiddur út. Þannig að það eru allar reglur þverbrotnar í þessu máli,“ segir Vigdís. Tillögu Vigdísar um óháða rannsókn á bragganum var breytt og vísað til innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Aðspurður telur Hallur sig vel hæfan til að sjá um rannsókn á bragganum. Vigdís telur þó enn rétt að óháð rannsókn fari fram. „Ég treysti innri endurskoðanda sem manni og persónu en mér finnst þetta mál vera svo stórt og það eru svo margar spurningar og svo mikill feluleikur að það verði að fá óháðan aðila til að fara í saumana á því.“ Bendir hún á að borgarkerfið sé byggt þannig upp að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar, sem sá um framkvæmdina, heyri undir borgarstjóra og borgarritara. Þá sitji bæði borgarlögmaður og innri endurskoðandi fundi borgarráðs.

„Borgarlögmaður er ekki enn búinn að skila áliti sínu um braggann þótt beðið hafi verið eftir því í ár. Innri endurskoðandi situr borgarráðsfundi líka og af hverju hefur hann ekki sýnt frumkvæðisathugun á þessu máli? Það er þetta sem ég er að gagnrýna: Það virðast allir sitja hringinn í kringum sama borðið og enginn stoppar þessa hringavitleysu.“