Í réttarsalnum Hörður Felix Harðarson, lögmaður og Hreiðar Már Sigurðson, fyrrum forstjóri Kaupþings, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Í réttarsalnum Hörður Felix Harðarson, lögmaður og Hreiðar Már Sigurðson, fyrrum forstjóri Kaupþings, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. — Morgunblaðið/Hari
Aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær í sakamáli sem höfðað var gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings banka, og Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrum fjármálastjóra Kaupþings banka, fyrir innherja- og umboðssvik.

Aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær í sakamáli sem höfðað var gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings banka, og Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrum fjármálastjóra Kaupþings banka, fyrir innherja- og umboðssvik.

Um er að ræða síðasta hrunmálið sem tekið er fyrir í héraðsdómi af þeim 23 sem sérstakur saksóknari og síðar héraðssaksóknari ákærði í.

Hreiðar Már er í málinu ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa í ágúst 2008 látið bankann lána eignarhaldsfélagi í hans eigu, Hreiðari Má Sigurðssyni ehf., 574 milljónir króna án samþykkis stjórnar bankans eða fullnægjandi tryggingar fyrir láninu. Guðný er ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa veitt liðsinni við að koma að fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn bankans þegar umrætt lán var veitt.

Grundvallaratriði í málinu tengist þeim mismun sem varð á kaupverði Hreiðars sjálfs vegna kaupréttarins og svo því markaðsverði sem hann framseldi félaginu nokkrum klukkustundum síðar. Munar þar um 320 milljónum króna.

Staddur í fáránleika

Hreiðar Már brást illa við nokkrum spurningum saksóknara þegar kom að því að spyrja um þennan mismun og sagði hann saksóknara í raun ekki skilja um hvað málið snerist. „Gerir þú þér grein fyrir hvert peningarnir fóru?“ spurði hann saksóknara.

Sagði Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari, að fjármunirnir hefðu að hluta til verið notaðir til að greiða skattaskuld við ríkissjóð. Greip Hreiðar þá fram í fyrir honum og sagði „hver einasta króna“ og spurði saksóknara að nýju: „Runnu þessir peningar til mín eða eitthvað annað?“

Vísaði hann til þess að samkvæmt ákvörðun stjórnar nokkrum árum áður og samkvæmt ráðningarsamningi ætti bankinn bæði að lána fyrir kaupunum á kaupréttargengi sem og fyrir skatti ef bréfin væru færð í sérstakt félag. Þannig hefði það meðal annars verið árin áður. Þá sagði Hreiðar einkennilegt að vera ákærður fyrir innherjasvik í þessu máli þar sem bréf væru seld frá sér til félags í sinni eigu.

„Framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eini eigandi Hreiðars Más Sigurðssonar ehf. vissi nákvæmlega það sama og Hreiðar Már Sigurðsson,“ sagði hann og bætti við að hann teldi þetta sögulegt mál á heimsmælikvarða þar sem hann vissi ekki um neitt mál þar sem innherjabrot gæti átt við viðskipti milli sama aðila. „Þessir tveir aðilar bjuggu yfir nákvæmlega sömu upplýsingunum,“ sagði Hreiðar. „Mér finnst ég staddur í hálfgerðum fáránleika.“

Var í fríi

Guðný Arna Sveinsdóttir sagði fyrir dómi í gær, að hún hefði rætt við Hreiðar Má um lánveitinguna, sem deilt er um í málinu. Þá sagðist hún enga ákvörðun hafa tekið um lánið. Hefði hún verið í fríi stóran hluta þess tíma sem málsgögn ná til og því sé ekki líklegt að hún hafi skoðað alla þá pósta sem saksóknari bar undir hana. Sagði hún að um langþráð frí hefði verið að ræða og að Hreiðar hefði meðal annars gefið henni skýr skilaboð um að huga sem minnst að bankanum meðan hún væri í fríi.

Guðný sagði að sitt hlutverk hefði verið bókhald og uppgjör og hún hefði ekki komið að neinni ákvarðanatöku. Slíkt væri á hendi stjórnar félagsins.

Nokkur vitni komu fyrir dóminn í gær, meðal annars fyrrverandi yfirlögfræðingur bankans, fyrrverandi varaformaður stjórnarinnar og fyrrverandi stjórnarformaður. Sögðu þeir allir að stjórn hefði árið 2005 samþykkt að lán væru veitt fyrir kaupum stjórnenda sem hefðu kauprétt. Þá væri einnig veitt aukalega lán vegna skattaskuldbindinga sem kæmu til þegar bréf væru áframseld í einkahlutafélög í eigu viðkomandi starfsmanna.