Einbeiting Klaus Mäkelä stjórnandi og Sayaka Shoji einleikari æfa með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu.
Einbeiting Klaus Mäkelä stjórnandi og Sayaka Shoji einleikari æfa með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu. — Morgunblaðið/Hari
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Klaus Mäkelä, 22 ára gamall hljómsveitarstjóri sem sagður er einn af eftirtektarverðustu hljómsveitarstjórum Norðurlanda, stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu í kvöld.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Klaus Mäkelä, 22 ára gamall hljómsveitarstjóri sem sagður er einn af eftirtektarverðustu hljómsveitarstjórum Norðurlanda, stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu í kvöld.

Mäkelä, sem er finnskur, stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu á Menningarnótt. Hann segir að aldur, kyn eða þjóðerni stjórnenda og tónlistarfólks skipti engu máli, tónlist sé fyrir alla.

„Hljómburðurinn í Hörpu er frábær, arkitektúr og umhverfi hússins fallegt og Sinfóníuhljómsveit Íslands skipuð tónlistarmönnum frá mörgum löndum,“ segir Mäkelä sem telur Hörpu besta hljómleikahús í Evrópu.

Foreldrar Mäkeläs eru hljómlistarmenn og hans fyrsta minning er tengd hlustun á tónlist.

„Það var gott fyrir mig og ég er þakklátur fyrir að hafa alist upp við tónlist. Ég hóf nám á selló sex ára gamall og byrjaði nám í hljómsveitarstjórnun 12 ára,“ segir Mäkelä, sem telur að þrátt fyrir að vera í yngri kantinum sem hljómsveitarstjóri sé hann langt í frá sá yngsti.

„Menning er mikilvæg, sérstaklega í hraða nútímasamfélags og einnota lífsstíls. Menningin endist og það er mikilvægt fyrir nútímamanninn að virða og þakka fyrir hana,“ segir Mäkelä og bætir við að í heimi þar sem flest lifi í stuttan tíma viti fólk að tónlistin verði alltaf til á einhvern hátt.

Á efnisskrá tónleikanna í kvöld eru forleikur óperettunnar Candide eftir Leonard Bernstein, tíunda sinfónía Shostakovitsj og fiðlukonsert eftir Pjotr Tsjajkovskíj. Einleikari á tónleikunum er Sayaka Shoji, japönsk fiðlustjarna sem ferðast um heiminn með Stradivarius-fiðlu.

Tónleikunum í kvöld, sem hefjast kl. 19.30, verður streymt beint af vef Sinfóníuhljómsveitarinnar og útvarpað beint hjá RÚV á Rás 1.

Mäkelä tók nýverið við stöðu aðalgestastjórnanda hjá Sænsku útvarpshljómsveitinni. Hann er staðarlistamaður Tapiola-sinfóníettunnar og þreytti nýverið frumraun sína hjá Konunglegu fílharmóníunni í Stokkhólmi og sinfóníuhljómsveitunum í Lahti, Ottawa og Minnesota. Auk þess hefur Mäkelä stjórnað Fílharmóníusveitinni í Helsinki og í Gautaborg. Mäkelä stýrði óperu Mozarts hjá finnsku þjóðaróperunni og hefur komið fram sem einleikari með fjölda hljómsveita.

Á næsta ári tekur Mäkelä við stöðu listræns stjórnanda tónlistarhátíðarinnar í Turku í Finnlandi og árið 2020 verður hann aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Ósló.