Vigdís dregur það sérstaklega fram að hjálpa þurfi ungu fólki með börn að taka þátt á vinnumarkaði og þörf sé á góðu barnalífeyriskerfi fyrir alla. „Við sjáum þetta hérna inni í VIRK.

Vigdís dregur það sérstaklega fram að hjálpa þurfi ungu fólki með börn að taka þátt á vinnumarkaði og þörf sé á góðu barnalífeyriskerfi fyrir alla. „Við sjáum þetta hérna inni í VIRK. Þessir einstaklingar koma hingað inn til okkar og eiga mjög erfitt með að fara út á vinnumarkaðinn vegna þess að þeir fá stuðning með börnunum sínum í gegnum örorkulífeyrinn, sem er fínt, en þeir fá hann ekki úti á vinnumarkaði,“ segir Vigdís. „Mér finnst mjög mikilvægt að styðja vel við ungt fólk á örorku með góðum barnalífeyri en mér finnst ekki síður mikilvægt að styðja vel við ungt barnafólk á vinnumarkaði sem margt glímir einnig við erfiðar aðstæður. Unga fólkið er framtíðin. Við erum að tapa svo miklu þegar unga fólkið tekur ekki þátt,“ segir Vigdís.

Hún segir það hættulega gildru að tengja saman rétt til lífeyris vegna heilsubrests við annan stuðning sem tengist öðrum þáttum eða aðstæðum viðkomandi einstaklings. T.d. þegar kemur að skattfrjálsum barnalífeyri til foreldra sem eru örorkulífeyrisþegar. „Það sem við sjáum líka í þessu er að við erum að fá inn til okkar fólk á miðjum aldri sem hefur lent í ákveðinni gildru. Að börnin séu farin að heiman, orðin 18 ára, og barnalífeyririnn farinn. Þá er það að taka fyrstu skrefin út á vinnumarkaðinn. Þau geta verið mjög erfið,“ segir Vigdís. „Hugsaðu þér stöðuna sem þú værir í, á milli fertugs og fimmtugs, og hefðir aldrei verið þátttakandi á vinnumarkaði. Hugsaðu þér félagsþroskann sem þú færð á vinnumarkaði. Ef þú hefðir hann ekki. Hinn helmingurinn af ævinni er eftir. Þetta er mikil gildra sem fólk í þessari stöðu getur lent í. Ég myndi vilja sjá gott barnalífeyriskerfi fyrir alla, sérstaklega fyrir þá sem hafa lág laun og lítil efni. Það er þörf á góðu barnalífeyriskerfi – óháð því hvort maður er á vinnumarkaði eða ekki. Þannig erum við virkilega að gera ungu fólki með börn kleift að taka þátt á vinnumarkaði,“ segir Vigdís.

En er einhver fyrirmynd sem þú horfir til þarna? „Ekki endilega. Þegar ég bjó í Danmörku var þar mjög gott barnalífeyriskerfi. Maður fékk góðan stuðning með börn og húsnæði. Ég var á leigumarkaðnum og það skipti miklu máli hvað maður fékk frá hinu opinbera. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt í okkar velferðarkerfi að geta stutt vel við unga fólkið með börnin sem margt er ekki með há laun en þarf að takast á við mikil útgjöld og mikla ábyrgð. Það er dýrast að missa unga fólkið á örorkuna,“ segir Vigdís.