Gunnar Guðmundsson fæddist 14. desember 1938. Hann lést 29. september 2018.

Útför Gunnars fór fram 10. október 2018.

Gunnar Guðmundsson, hinn sanni vinur vina sinna. Það er rúmt 51 ár síðan ég flutti frá Íslandi. Öll þessi ár hef ég verið stoltur Íslendingur í ýmsum heimshornum og er það enn. Margt hefur breyst á Íslandi á þessum árum en annað breytist aldrei. Það eru þeir góðu vinir sem ég átti þá og á enn í dag. Þegar ég lít aftur yfir mína löngu og litríku lífstíð þá sé ég fjölmarga vini, og þar á meðal nokkra „sannvini“.

Það er gott að eiga góða vini en erfitt þegar þeir bregðast þegar mest liggur á. Gunnar var hinn sanni vinur vina sinna; vinátta sem aldrei brást. Það er sárt að sætta sig við þá staðreynd að Gunnar sé farinn heim, en heiður að hafa þekkt þennan sérstaka og góða mann. Hann sá um sína ágætu eiginkonu; sína fjölskyldu og kom víða við þar sem hans er minnst með innilegum söknuði. Það verður erfitt, Guðmundur, að stíga í fótspor föður þíns.

Við Gunnar höfum átt samleið frá því við vorum ungir og brattir skátar. Skátastarfið var okkar líf og kraftur, allt fram á fullorðinsár. Minnisstæðast er ferð okkar á Jamboree í Bretlandi, þegar 11 Gráhausar fóru sjóleiðina með gamla Gullfossi til Edinborgar. Þetta var einstök ferð, sem hefur haft lífslöng áhrif á okkur alla, sem hafa enst fram til þessa dags. Við höfum haldið hópinn; hist reglulega og farið í ferðir saman. Gunnar var ávallt í miðjum hópnum og oft sá sem skipulagði ferðirnar; lagði til bíl og bílstjóra án þess að þiggja krónu fyrir ómakið.

Ég var á Íslandi í júní síðastliðnum og auðvitað áttum við Gunnar góðar stundir saman. Við fórum í tveggja daga ferð um Suðurlandið; alla leið austur í Höfn í Hornafirði, – að skoða hótel o.fl. í sambandi við mín viðskipti í ferðamálum. Það var stórskemmtileg ferð. Gunnar var mín stoð og stytta; ráðgjafi án þóknunar, þessi árin þegar ég hef byggt upp hópferðir til Íslands fyrir Bandaríkjamenn. Hann hafði gaman af að sjá „gamla manninn“ takast á við ný og skemmtileg verkefni. Ég talaði síðast við Gunnar daginn áður en hann lést. Við töluðum um mína næstu heimsókn til Íslands nú í vetur.

Það verða margir sem sakna Gunnars. Hann hafði víða komið við, hérlendis og erlendis. Gunnar var stórskemmtilegur og fróður um fólk, fjöll og firnindi. Hann átti til að segja sögu eða brandara í ferðum þar sem hann þekkti bændur, nöfn á fjöllum og annað minnisvert. Hann setti sitt jákvæða mark á umhverfið sem sannur Íslendingur.

Ég sakna Gunnars og minnist hans sem hann hafi verið minn eigin bróðir.

Með Gráhausakveðju,

Ingólfur Blöndal,

Simpsonville, S.C., USA.

Þessi maður, þessi ferðafélagi, þessi mikli viskubrunnur um vegi og borgir í Evrópu. Hvert er hann farinn? Kannski í nýtt ferðalag sem við þekkjum ekki nóg um. Gunnar vinur okkar var svo einstakur og magnaður að mann setur hljóðan þegar snillingur veganna, fjallaferðanna og autobananna í Evrópu fer í nýtt endanlegt ferðalag. Við vonum að það séu magnaðar hópferðabifreiðar og ævintýri í því landi sem hann nú mun gista. Þessi góði drengur er vinur okkar, ferðafélagi og leiðsögumaður um alla Evrópu. Allar þær ferðir sem við höfum farið saman eru geymdar og munu ekki gleymast. Samstarf um ferðir við Sókn, og síðar Eflingu stéttarfélag, hófust snemma en fyrsta ferðin til útlanda var til Færeyja og þvílík ferð. Allt gekk upp. Svo allar okkar ferðir innan lands um alla staði þar sem hægt var að finna góða gistingu þó um dýnustæði væri að ræða. Ferð um Norðausturland með matarbíl mun aldrei gleymast.

Atvikin eru svo mörg og ævintýrin og sögurnar svo magnaðar. Um alla Evrópu flökkuðum við og vorum alltaf sammála um að finna eitthvað sem enginn myndi gleyma, Vín, Búdapest, Prag, Heidelberg, Berlín, Dresden, Kaupmannahöfn, Köln, Goslar, Kraká, Stettin, Ósló, Bergen, Þrándheimur, Gautaborg, Trier, Lúxemborg og Garda. Við vorum á flakki til að kynna fólki menningu og dásemdir allra þessara staða. Sem fyrirliði og ökumaður í ótal ferðum í Bláfjöll á skíði og svo í Þórsmörk í vor- og haustferðir með grunnskólabörn og unglinga þökkum við Gunnari örugga og farsæla stjórn. Í hartnær fjóra áratugi stýrði þessi öðlingur á einn eða annan hátt ferðum fyrir grunnskóla í Reykjavík. Til að komast í Skagfjörðsskála í Þórsmörk verður að fara yfir Krossá. Hún getur verið ófrýnileg. Þar myndast viðsjárverðar sandbleytur. Eitt sinn komum við of snemma inn að Álfakirkju og sáum að hópurinn á undan okkur var ekki farinn frá skálanum. Gunnar vatt sér út á bakkann við aðalstrenginn, sótti vöðlur, járnkarl og kaðal í kistuna í lestinni. Setti nokkra unglinga og reyndan kennara á enda kaðalsins á þurru og óð út í svelginn. Við þessa sýn þusti liðið allt út úr hlýjunni og tók myndir í gríð og erg. Leikrit sem tók tíma en engin hætta á ferðum. Gunnar kunni lagið á liðinu. Svo sannarlega. Öll komumst við þurr, hress og glöð í skálann. Þessi magnaði sögumaður kunni svo margt, lausavísur, brandara, skemmtisögur og öll þekkingin sem hann miðlaði til fólksins okkar.

Elsku Gunnar. Hafðu þökk fyrir alla þína þekkingu og svo skemmtilegheit. Vonandi hittumst við í rútuferð með þér á öðrum slóðum.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Þórhallur Runólfsson.