Elín Björg Jónsdóttir
Elín Björg Jónsdóttir
„Ég á ekki von á öðru en að þetta þing muni einkennast af samstöðu um stefnumál,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, um komandi þing samtakanna sem haldið verður á Hilton Reykjavik Nordica hótelinu dagana 17. til 19. október.

„Ég á ekki von á öðru en að þetta þing muni einkennast af samstöðu um stefnumál,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, um komandi þing samtakanna sem haldið verður á Hilton Reykjavik Nordica hótelinu dagana 17. til 19. október. Þingið sitja um 200 manns frá öllum aðildarfélögunum sem eru 26. Það er haldið undir yfirskriftinni Bætt lífskjör – betri þjónusta .

Elín gefur ekki kost á sér til áframhaldandi forystu og hefur aðeins eitt framboð til formannsembættis verið tilkynnt. Það er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB til síðustu 10 ára, sem gefur kost á sér. Elín Björg segir að ekki sé hægt að útiloka fleiri framboð, þar sem hægt sé að tilkynna um framboð á þinginu sjálfu.

Spurð um helstu mál þingsins segir hún að stóru málin séu eins og venjulega stefnumörkun samtakanna til næstu þriggja ára. Þar beri hæst komandi kjarasamninga, húsnæðismál og almannaþjónustu.

Fjórir málefnahópar starfa á þinginu, um vinnumarkaðinn og starfsumhverfi starfsmanna í almannaþjónustu, um vinnumarkað framtíðar, um velferðarmál og fjölskylduvænna samfélag.

Á þingvef samtakanna er búið að birta tillögu stjórnar um umræðuefni málefnahópanna. Um kjaramálin segir að BSRB telji grundvallaratriði að launamunur milli hins opinbera og hins almenna vinnumarkaðar verði jafnaður og er í því sambandi vísað til samkomulags um lífeyrismál frá 19. september 2016. Þá segir að launakannanir hafi sýnt að launamunur á milli markaða sé u.þ.b. 17%. Áfram verði að vinna að hækkun lægstu launa. Grundvallaratriði sé að launafólk geti lifað af dagvinnulaunum. Draga þurfi úr yfirvinnu en minna vinnuálag leiði til þess að afköst starfsfólks aukist hlutfallslega. BSRB vilji að lögfest verði að vinnuvikan sé ekki lengri en 36 stundir. gudmundur@mbl.is