Háskólinn í Reykjavík Uppsögn lektors við skólann er umdeild.
Háskólinn í Reykjavík Uppsögn lektors við skólann er umdeild. — Morgunblaðið/Eggert
„Ég hef sent rektor bréf og gefið honum kost á að hverfa frá þessu.

„Ég hef sent rektor bréf og gefið honum kost á að hverfa frá þessu. Það er dæmalaust að reka eigi mann úr starfi fyrir að hafa látið í ljós einhverja skoðun,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, sem tekið hefur að sér mál Kristins Sigurjónssonar, lektors við Háskólann í Reykjavík.

Kristni voru gerðir afarkostir vegna ummæla sem hann lét falla í lokuðum Facebookhópi. Þar sagði Kristinn m.a. að konur træðu sér inn á vinnustaði þar sem karlmenn ynnu. Þá sagði hann að konur eyðilegðu vinnustaðina því karlmenn ættu að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“. HR gerði Kristni að segja upp, ellegar yrði hann rekinn.

Jón Steinar segir ummæli Kristins inni í umræddum Facebookhópi ekki koma háskólanum við og að uppsögnin vegna þeirra sé „háðulegt frumhlaup“. Hann vonar að rektor sjái sóma sinn í að bakka út úr þessu hratt og örugglega.

„Þetta er orðið einhvers konar ofstæki sem lýtur að því að ef allir hafa ekki einhverja rétttrúnaðarskoðun á einhverju málefni, þá eru þeir óalandi og óferjandi. Í þessu tilfelli virðist vera að Háskólinn í Reykjavík vilji reka mann úr starfi fyrir einhverja skoðun sem hann hefur, sem skólanum kemur bara ekkert við,“ sagði Jón Steinar við mbl.is.

Bendir hann einnig á að Kristinn hafi réttarstöðu opinbers starfsmanns vegna þess að hann hafi verið kennari við Tækniskólann áður en skólarnir voru sameinaðir. Það hafi verið tekið skýrt fram í bréfi til Kristins, undirrituðu af báðum rektorum, að hann nyti þeirrar réttarstöðu. „Í því ljósi er enn fjarstæðukenndara að segja honum upp á þeim forsendum.“ thorgerdur@mbl.is