Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Borgarstjóri hefur verið á flótta undan braggamálinu vikum saman. Sem gerir það mál svo sem ekkert óvenjulegt, hann hleypur í felur í öllum erfiðum málum. Sem eru mörg hjá borginni um þessar mundir.

Borgarstjóri hefur verið á flótta undan braggamálinu vikum saman. Sem gerir það mál svo sem ekkert óvenjulegt, hann hleypur í felur í öllum erfiðum málum. Sem eru mörg hjá borginni um þessar mundir. En nú hefur borgarstjóri áttað sig á að ekki er lengur hægt að forðast umræðuna.

Sennilega voru það stráin sem brutu bak borgarstjórans í þessu, ef svo má segja. Það er í öllu falli ljóst að nokkur strá fyrir 757.000 krónur eru ævintýralegri útgjöld en jafnvel núverandi borgarstjóri getur varið. Og líklega er það þess vegna sem hann vill nú láta rannsaka málið og hefur uppi stór orð um alvarleika þess.

En hvað sagði hann áður en dönsku höfundarréttarvörðu hönnunarstráin fóru að stinga sér upp úr moldinni í Nauthólsvík?

Þá varði hann framúrkeyrsluna með því að reyna að vísa vandanum á húsfriðunaryfirvöld, sem höfðu ekkert með málið að gera.

Hann reyndi að verja þetta með því að halda því fram að bragginn hefði verið í verra ástandi en ætlað hefði verið.

Og hann sagði „ekki hægt að slá því föstu“ að um mistök hefði verið að ræða.

En það hlýtur þó að mega slá því föstu að borg sem stendur fyrir slíkri framkvæmd og gerir ekkert fyrr en búið er að afhjúpa vitleysuna er stjórnlaus.