[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Guingamp Sindri Sverrisson sindris@mbl.

Í Guingamp

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það er kannski mér að kenna að ég sé ekki búinn að fá fleiri tækifæri,“ segir markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson sem farinn er að banka fastar á dyrnar í von um sæti í byrjunarliði íslenska knattspyrnulandsliðsins í alvöru mótsleik.

Rúnar Alex hefur aðeins leikið þrjá A-landsleiki, allt vináttulandsleiki og þann fyrsta í nóvember í fyrra. Þessi 23 ára gamli KR-ingur er hins vegar eflaust búinn að styrkja stöðu sína í samkeppninni við Hannes Þór Halldórsson um byrjunarliðssæti, með því að vera farinn að spila í frönsku 1. deildinni með liði Dijon þar sem hann er aðalmarkvörður. Það er einmitt hér í Frakklandi sem Rúnar Alex gæti spilað sinn fjórða landsleik, þegar Ísland mætir heimsmeisturunum í kvöld.

„Ég ferðaðist bara með lest hingað, sem er mjög einfaldur og góður ferðamáti sem vantar á Íslandi,“ segir Rúnar Alex léttur þegar ég hitti hann á hóteli landsliðsins. Eftir þessi skýru skilaboð til þeirra sem hafa með samgöngumál á Íslandi að gera ræðum við um byrjun tímabilsins hjá Dijon, en Rúnar Alex kom til félagsins frá Nordsjælland í sumar. Dijon vann fyrstu þrjá leiki sína í ágúst en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina og liðið aðeins náð í eitt stig í sex leikjum, í markalausu jafntefli við Reims.

„Mér persónulega hefur gengið ágætlega. Ég er búinn að vera mjög sáttur með mína frammistöðu í leikjunum. En ég get ekki bæði varið markið og skorað mörk fyrir okkur. Í síðustu sex leikjum höfum við samtals skorað eitt mark og það gerir okkur erfiðara fyrir að vinna leiki. Við höfum varist ágætlega, þó að við fáum á okkur talsvert af mörkum, en mörg þessara marka koma undir lok leikja þegar við erum að sækja. Ég held að við eigum helling inni og hef trú á að við komum bara sterkari til baka eftir þetta,“ segir Rúnar Alex.

Rúnar Alex hefur í viðtölum sýnt Hannesi tilhlýðilega virðingu, eftir frábæra frammistöðu hans og gullöld landsliðsins síðustu ár, og ekki farið fram með neinar fullyrðingar um að hann verðskuldi jafnvel tækifæri í byrjunarliðinu í mótsleik. En telur hann sig farinn að banka fast á dyrnar núna?

Gríp vonandi tækifærið betur

„Ég veit það ekki. Það er ekki ég sem stilli upp liðinu. Ég þarf bara að gera það sem ég get gert og bera svo virðingu fyrir þeim ákvörðunum sem eru teknar. Það að ég sé kominn í eina bestu deild í heimi og sé að spila alla leiki hlýtur að koma mér nær liðinu. Ég held að ég tali fyrir alla fótboltamenn í heiminum þegar ég segi að það langi alla frekar til að spila en að vera á bekknum, og að sjálfsögðu langar mig því að spila með landsliðinu og fá mótsleik. Ég bíð bara eftir tækifærinu og get þá vonandi gripið það betur en ég hef gert áður,“ segir Rúnar Alex, og er hreinskilinn varðandi sína frammistöðu:

„Ég veit alveg sjálfur að ég hef verið klaufi þegar ég hef fengið sénsinn, og það er kannski mér að kenna að ég sé ekki búinn að fá fleiri tækifæri. En ég er líka ungur og þarf að fá að gera mistök, og læra af þeim. Þau eru hluti af boltanum.“

Þó að flestum þyki eflaust spennandi að mæta ríkjandi heimsmeisturum, segist Rúnar Alex ekkert vera að missa sig yfir möguleikanum á því frekar en að mæta öðrum liðum: „Þetta er geggjað lið, og það er gaman að prófa að spila á móti svona liðum, en það er ekkert meira freistandi að spila þennan landsleik en aðra. Það er bara alltaf heiður að spila fyrir Ísland.“