Berglind Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 30. janúar 1969. Hún lést á heimili sínu á Álftanesi 28. september 2018.

Foreldrar hennar eru Guðmundur Vilhjálmsson, f. 20.12. 1946, rafeindavirki, og Guðbjörg Gunnarsdóttir. f. 4.5. 1948, hjúkrunarfræðingur.

Eftirlifandi sambýlismaður Berglindar er Geir Magnússon. f. 8.11. 1968, sjómaður. Tengdaforeldrar Berglindar eru Magnús V. Stefánsson, f. 16.12. 1930, d. 18.5. 1989, og Gróa Guðbjörnsdóttir, f. 31.10. 1933.

Dætur Berglindar og Geirs eru: 1) Linda María, f. 25.7. 1988, nemi í þroskaþjálfafræðum við HÍ, sambýlismaður hennar er Guðmundur Þórir Sigurðsson tæknifræðingur, f. 14.4. 1988. Börn þeirra eru Andrea Rut, f. 13.12. 2008, og Lovísa María, f. 1.8. 2014. 2) Freyja Björk, leiðbeinandi á leikskólanum Ökrum, f. 27.7. 1994.

Systur Berglindar eru: Bergþóra, f. 19.11. 1966. Börn hennar eru Guðmundur Berg, f. 1985, Guðbjörg Berg, f. 1987, Jóhannes Berg, f. 1990, Brynjar Berg, f. 1997, og Birta Kristrún Berg, f. 1998, og Dagbjört Rún félagsráðgjafi. Dætur hennar eru Sara Rún, f. 5. september 2006, og Elísa Rún, f. 27. september 2010.

Berglind starfaði við bókhald hjá Gunnars ehf. en lengst af starfaði hún sem bókari.

Útför Berglindar fer fram frá Bessastaðakirkju í dag, 11. október 2018, klukkan 13.

Elsku mamma.

Ég man hvað mér leið undarlega þennan dag sem þú fórst frá okkur, þessum degi mun ég aldrei gleyma. Að missa mömmu sína svona snemma er eitthvað sem enginn óskar sér og finnst mér lífið svo ósanngjarnt akkúrat núna, af hverju þú? Þú varst svo góð mamma og amma, alltaf til í að hjálpa öllum í fjölskyldunni, þú varst mín hægri hönd og ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að lifa án þín. Við töluðumst við nánast daglega og alltaf hafðir þú svo mikinn áhuga á öllu í mínu lífi og mun lífið verða svo tómlegt án þín, alltaf hafði ég svo mikla þörf fyrir þig, elsku mamma. Það er erfitt að hugsa til þess að þú verðir ekki með okkur í framtíðinni. Ég leitaði alltaf til þín þegar mig vantaði svör við hinu og þessu, þú vissir alltaf svarið eða nálgaðist upplýsingarnar einn, tveir og tíu. Þú áttir tvær ömmustelpur, Andreu og Lovísu, það sást langar leiðir hvað þú varst stolt af þeim og er ég þakklát fyrir tímann sem við fengum með þér, að sjá þig verða amma í fyrsta skipti gaf mér svo mikið, það var svo fallegt.

Elsku mamma, mig langar að þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og fjölskylduna okkar, ég mun halda áfram fyrir þig og gera þig stolta, ég veit að þú vakir yfir okkur. Elska þig.

Þín dóttir,

Linda María.

Móðir mín var svo skilningsrík og umhyggjusöm. Hún var alltaf dugleg að hrósa mér og ég gat alltaf treyst á hana til að láta mér líða vel. Við stóðum saman í blíðu og stríðu, hún var skjól mitt og minn verndari. Ég hafði alltaf svo gaman af því að heyra hana hlæja og sjá hana brosa.

Hún var svo góð við alla í kringum sig og vildi að öllum liði vel. Mamma kenndi okkur systrum að fjölskyldan er það sem skiptir öllu máli, hún sá um okkur öll og var miðpunkturinn í okkar fjölskyldu. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir tímann okkar saman og ég geymi minningu hennar í hjarta mínu.

Elsku móðir mín kær,

ætíð varst þú mér nær,

ég sakna þín, góða mamma mín.

Já, mild var þín hönd

er um vanga þú straukst,

ef eitthvað mér bjátaði á.

Við minningu um þig geymum

og aldrei við gleymum,

hve trygg varst þú okkur og góð.

Við kveðjum þig, mamma,

og geymum í ramma

í hjarta okkar minningu um þig.

(Gylfi V. Óskarsson.)

Þín dóttir,

Freyja Björk.

Elsku systir.

Ég trúi því varla að ég sé að skrifa hér minningarorð um þig. Síðustu dagar hafa verið óraunverulegir, eftir sitjum við öll hálfdofin og sorgmædd. Þú varst mér alltaf meira en bara stóra systir mín enda ólst þú mig að hluta til upp og varst mér alltaf svo góð. Ég sá svo um að passa stelpurnar þínar þegar þær fæddust og eru þær mér svo dýrmætar. Ég mun auðvitað passa vel upp á þær áfram fyrir þig og ömmustelpurnar þínar, þú getur treyst því. Við vorum ekki alltaf sammála um alla hluti, en eitt áhugamál áttum við sameiginlegt og það voru íþróttir. Þú komst mér á bragðið með það og eru minningarnar ótalmargar tengdar hinum ýmsu landsleikjum, hvort sem um var að ræða handbolta eða fótbolta. Æsingurinn var þó alltaf töluvert meiri þegar handboltaleikir voru í gangi, þú verður væntanlega glöð að heyra það að Elísa Rún er byrjuð í handbolta. Þú komst mér í fótboltann, eina sem kom til greina var auðvitað að ég færi í Haukana. Þegar stelpurnar mínar fóru svo í FH var það ákveðinn skellur, enda þú búin að ala móðurina upp í að vera Haukamanneskja. Ég veit þó að þú gladdist yfir því þegar Sara Rún skartaði Haukabúningnum þegar hún fór að æfa körfubolta líka. Minningarnar eru svo ótalmargar, elsku Berglind, t.d utanlandsferðirnar þar sem litla örverpið ég fékk að fylgja með.

Fyrst og fremst varstu alltaf styðjandi í öllu því sem ég og stelpurnar mínar tókum okkur fyrir hendur. Ég alltaf á hraða ljóssins gegnum lífið, þú meira róleg og yfirveguð.

Takk, elsku systir, fyrir samfylgdina, ég hugsa hlýlega til þín og þakka fyrir þann tíma sem við áttum saman. Ég sakna þín og það verður erfitt að aðlagast þeim veruleika að þú verðir ekki lengur til staðar.

Ást og kærleikur.

Þín litla systir,

Dagbjört Rún.

Elsku Berglind. Þú varst mér afar hjartfólgin og ég elska þig mjög.

Þú varst í raun ein af mínum uppalendum – ein af mömmum mínum í rauninni. Þú tókst okkur öllum svo vel, við vorum svo velkomin í ykkar daglega líf, þitt, Lindu, Freyju og Geirs – einn af þeim sem ég hef alltaf haldið mikið upp á, enda ekki skrýtið, þið tvö gerðuð líf mitt aðeins bjartara á mínum yngri árum.

Þið hafið alltaf verið svo fallegar vinkonur þið amma frá því ég man eftir mér. Hjarta mitt grætur fyrir hana og afa líka og ykkur öll. Ég kveð þig með svo miklum trega, svo mikilli sorg og ekki síst þakklæti í hjarta mínu fyrir að hafa bæði fengið að hafa þig í lífi mínu frá fæðingu og fyrir alla samúðina og umhyggjuna í minn garð og systkina minna. Alltaf varst þú til staðar fyrir mig, Berglind, og ég held að ég hafi aldrei þakkað þér fyrir.

Þú varst okkur öllum góð frænka.

Svo ég nefni eina minningu um þig, elsku Berglind, þá kemur upp í hugann kjúklingakvöldið á fimmtudögum og óskabeinið. Ég reyni ennþá að líkja eftir bragðinu, minningin er bara svo góð. Við vitum öll að það var örugglega bara season all en þú varst einn sá besti kokkur og bakari sem ég veit um, alltaf gat ég leitað til þín með allt því tengt.

Ég veit með vissu að þín verður mikið saknað af öllum því þú varst mjög elskuð.

Blessuð sé minning þín engill.

Þín frænka,

Guðbjörg Berg.

Við skulum svífa um með englum þeim,sem ávallt láta bjartar sálir kætast.

Þeir munu okkur færa fagran heim,

í friði þar sem allir draumar rætast.

(Kristján Hreinsson) Fallegt bros, hæglát framkoma, dugnaðarforkur, greiðvikin, nægjusöm, hrein og bein. Svona minnumst við Beggu eins og hún var ávallt kölluð. Það er ákaflega sárt að kveðja konu eins og Beggu á besta aldri. Hugur okkar er hjá fjölskyldu hennar, sem hún elskaði svo heitt og var alltaf tilbúin að fórna öllu fyrir.

Minning um Beggu lifir með okkur, björt og falleg, og við þökkum henni samfylgdina og hlýjuna.

Elsku Linda mín, Þórir, Geir, Freyja og ömmustelpurnar okkar Andrea og Lovísa, megi Guð og góðar vættir hjálpa ykkur að vinna úr sorginni. Minning um yndislega eiginkonu, mömmu, ömmu og vinkonu mun lifa um ókomin ár. Blessuð sé minning hennar.

Þar sem englarnir syngja sefur þú,

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra,

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Sigríður Bernadetta

Lorange og Hlöðver

Helgi Gunnarsson.