Yfirferð Tinni og Kolbeinn í Delhí; þeir vilja sjá margt en ná ekki öllu - missa nær af fluginu.
Yfirferð Tinni og Kolbeinn í Delhí; þeir vilja sjá margt en ná ekki öllu - missa nær af fluginu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af bókum Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Fyrir sextíu árum millilentu tveir ferðalangar á flugvellinum í Delhí hér á Indlandi. Þeir voru á leið til Nepals, ferðuðust með hvítan hund og hugðust leita að vini sem var talinn af eftir flugslys í Tíbet.

Af bókum

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Fyrir sextíu árum millilentu tveir ferðalangar á flugvellinum í Delhí hér á Indlandi. Þeir voru á leið til Nepals, ferðuðust með hvítan hund og hugðust leita að vini sem var talinn af eftir flugslys í Tíbet. Þetta voru hinn hugdjarfi blaðamaður Tinni og Kolbeinn kafteinn og með þeim var vitaskuld terríerhundurinn Tobbi. Ég segi að þessi uppdiktaði viðburður hafi gerst fyrir sextíu árum en árið 1958 hóf tuttugasta Tinnasagan, Tinni í Tíbet , að koma út í tímaritaformi. Höfundurinn Hergé lauk henni árið eftir og það var svo árið 1960 sem hún kom fyrst út á bók. Síðan hefur sagan verið gefin út í nánast öllum löndum jarðar, meðal annars hér á Indlandi hvar Tinni mun enn vera lesinn – eins og vera ber. Og margir Tinnaaðdáendur nefna Tinna í Tíbet fyrst þegar spurt er um eftirlætis Tinnabók þeirra. Þeim finnst að þar hafi frásagnar- og teiknitækni Hergés náð ákveðnum hátindi.

Eftir að hafa farið æði frjálslega með staðreyndir þegar Hergé sendi Tinna út í heim í fystu bókunum, þá tók höfundurinn sig verulega á og tók að leggja mikið upp úr heimildum og rannsóknarvinnu. Ég ólst upp með Tinna á íslensku, varð mikill aðdáandi söguheimsins og var orðinn 12 ára þegar Tinni í Tíbet k om út. Þá tók ég eftir því að á þriggja tíma stoppi í Delhí ná félagarnir að skoða Qutab mínarettuna háu og Rauða virki en verða að sleppa Jama Majsid moskunni og Raj Ghat. Ég ákvað nú sex áratugum síðar að feta í fótspor þeirra og skoða líka staðina sem Tinni vildi sjá en missti af. Og það var gott flakk, ég sannreyndi að Hergé var afar nákvæmur er hann teiknaði þessa staði – en rétt eins og Tinni náði ég ekki að sjá þá alla.