Þóra Lilja Bjarnadóttir fæddist 12. júní 1917. Hún lést 13. september 2018.

Útför Þóru fór fram 10. október 2018.

Elsku besta amma Þóra er dáin, það verður erfitt að venjast því að þú sért ekki lengur hjá okkur.

Síðustu 40 árin eða frá því að afi dó rak amma ein heimili, nú síðast á Sólvangsvegi þar sem okkur stóðu ávallt allar dyr opnar. Hún kunni vel við sig þar, hún gat hitt nágranna niðri í handavinnusal, matsal og í hárgreiðslu en á þriðjudögum fór hún með rútunni í Bónus til að draga björg í bú. Amma var síðustu ár í dagvistun á Sólvangi, þar sem hún undi sér vel, oft var tekið í spil og handavinnu til að stytta sér stundir.

Fjölskyldan, börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin voru henni svo kær.

Frá því að ég man fyrst eftir mér hafði amma gaman af að fylgjast með okkur og heyra í hvaða ævintýrum við höfðum lent. Henni fannst yndislegt að heyra frá gönguferðum um hálendi Íslands, ferðalögum innan- jafnt sem utanlands. En jafnan var hún því þó fegnust, þegar allir höfðu skilað sér heilir heim.

Amma var mjög hjálpleg, þegar ég átti mitt fyrsta barn voru foreldrar mínir erlendis, þá kom amma óbeðin til mín á hverjum degi þar sem hún rak mig upp í rúm til að jafna mig eftir barnsburðinn og hugsaði um litla barnið á meðan ég hvíldi mig.

Amma var mjög ákveðin og hafði sterkar skoðanir, en ávallt var stutt í hláturinn hjá henni. Rétt fyrir jól fyrir nokkrum árum dó þvottavélin hennar. Henni var bent á að hún gæti nú látið þvo fyrir sig en það taldi hún af og frá, þvottavélarlaus gæti hún nú ekki verið komin á tíræðisaldur en benti aftur á móti á að ekki væri verra ef til væri þvottavél með íslenskum leiðbeiningum sem varð raunin og sú gamla keypti sér nýja þvottavél. Nokkru síðar ákvað amma að nú væri kominn tími til að fá sér nýtt sjónvarp. Hún hafði tekið eftir því að hún sá mikið betur á þessa stóru flatskjái sem allir voru að fá sér heldur en gamla túputækið sitt. Haldið var af stað út í búð og skoðaðir flatskjáir. Einhverjum varð að orði hvort 37´ tæki væri ekki nógu stórt fyrir hana og nei, 42´skyldi það vera og hún var ekki lengi að læra á fjarstýringuna, 10 mín. eftir að mynd komst á tækið var hún með það alveg á hreinu hvaða takki gerði hvað og undi sér vel við að horfa á þættina sína á stærri skjá.

Yndislegt var að bjóða ömmu í mat, hún var nýjungagjörn og hafði ekkert á móti því að prófa eitthvað nýtt í matargerð, kunni vel að meta osta og þótti ekkert verra ef brauðið kæmi frá Jóa Fel.

Í október ár hvert fórum við amma í bæinn til að kaupa jólagjafir, amma var búin að ákveða hvað ætti að kaupa handa hverjum og því var ekki breytt, síðan enduðum við alltaf í sömu búðinni þar sem við gátum sest niður í góða hægindastóla á meðan starfsfólkið var að pakka inn gjöfunum. Okkur ömmu leiddist það ekki eftir góða verslun og enduðum við oftar en ekki á KFC eftir jólagjafainnkaupin.

Margs er að minnast en minningin um góða og kærleiksríka ömmu mun standa eftir.

Hvíldu í friði, elsku amma, minningin um þig mun lifa með okkur.

Kveðja, þín

Margrét.

Það er varla hægt að ímynda sér meiri breytingar á einni mannsævi en þær sem amma Þóra lifði. Hún var ein af „fullveldisbörnunum“ fædd 14. júní 1917 og var því hundrað og eins árs þegar hún kvaddi þetta líf.

Amma fæddist í Selvogi, hún ólst upp í stórum systkinahópi, var sjöunda í röðinni af sautján börnum. Hún vildi ekki mikið ræða bernskuna en talaði þó um að sér hafi oft þótt það óréttlátt að þurfa að vinna á meðan „strákarnir“ bræður hennar gátu leikið sér. Selvogurinn var henni þó alla tíð mjög kær og hún fór þangað á hverju ári. Alltaf þegar hún dvaldi hjá okkur í Þorlákshöfn var það fastur liður að skreppa út í Vog. Ég man fyrst eftir ömmu og afa þegar þau bjuggu á Lækjargötunni í húsinu þar sem pabbi og systur hans tvær ólust upp og í minningunni var það ævintýraheimur þar sem lækurinn var beint fyrir framan húsið með sitt aðdráttarafl fyrir okkur krakkana en tilheyrandi áhyggjum fullorðna fólksins.

Amma og afi eignuðust 11 barnabörn sem eru fædd á 12 árum, mjög samrýndur hópur, níu stelpur og tveir strákar. Það varð ömmu mikið áfall að missa eitt barnabarn sitt langt fyrir aldur fram. Amma var sterk kona, hún dvaldi ekki við liðna tíð heldur horfði fram á við. Hún gerði aldrei upp á milli okkar barnabarnanna, sýndi okkur öllum jafnan áhuga, hún prédikaði heldur aldrei yfir okkur, hún var hlý og umhyggjusöm. Amma var samt ákveðin og gat verið mjög þrjósk ef því var að skipta.

Þegar ég hélt upp á fimmtugsafmælið mitt fyrir nokkrum árum var ég ekki viss um að hún myndi treysta sér til að mæta, en ég frétti svo af því að hún væri stórlega móðguð yfir að vera ekki boðin í veisluna. Ég brunaði því til hennar með boðskortið og þegar við kvöddumst sagði ég „við sjáumst svo í veislunni“. Þá sagði hún „ég hefði sko ekki komið ef ég hefði ekki fengið bréf eins og hinir“.

Við stelpurnar í fjölskyldunni höfum reglulega haldið frænkupartí og var amma að sjálfsögðu með í þeim. Síðast í maí á þessu ári hittumst við allar og amma var ekki sú fyrsta að yfirgefa samkvæmið, mætti hress og kát og skálaði með okkur þá orðin hundrað ára gömul. Okkur ömmu kom alltaf vel saman en við urðum sérstaklega nánar þegar ég bjó hjá henni þegar ég var í Flensborg. Hún var nett kona, fíngerð, alltaf vel til fara, það fór ekki mikið fyrir henni en hún hafði samt sínar skoðanir og lá ekki á þeim. Amma blótaði aldrei en sagði stundum ef henni fannst eitthvað að „þetta er nú meiri djöluvis vitleysan“. Ég vitna oft í orð hennar og segi þá „nú segi ég bara eins og amma Þóra, þetta er nú meiri djöluvis vitleysan“. Hún var mér góð fyrirmynd og við áttum auðvelt með að tala saman um alla hluti og ekki síst ef það var um prjónaskap og hannyrðir.

Nú hefur amma loksins fengið hvíldina, hún var orðin þreytt á sál og líkama og kvaddi þetta líf sátt við guð og menn.

Allt er af sama meiði

Það sem var, er og verður

og í greinum trésins sem vex á gröf þinni

þjóta orð þín.

(Vigdís Grímsdóttir)

Hvíl í friði, elsku amma, og hafðu þökk fyrir allt sem þú gafst mér.

Þóra.