Til samninga Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags, kynna kröfugerð sambandsins að loknum fundi samninganefndar í gær.
Til samninga Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags, kynna kröfugerð sambandsins að loknum fundi samninganefndar í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands beinir sérstökum kröfum að stjórnvöldum, meðal annars um tvöföldun persónuafsláttar til að gera lægstu laun skattfrjáls.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands beinir sérstökum kröfum að stjórnvöldum, meðal annars um tvöföldun persónuafsláttar til að gera lægstu laun skattfrjáls. Í kröfugerð á hendur viðsemjendum, Samtökum atvinnulífsins, er meðal annars krafist 425 þúsund króna lágmarkslauna við lok þriggja ára samningstíma.

Öll nítján aðildarfélög Starfsgreinasambandsins (SGS) standa að kröfugerðinni. Er það í fyrsta skipti sem öll félögin veita sambandinu samningsumboð sitt. Á síðustu árum hafa félögin við Faxaflóa samið sér.

Átak í húsnæðismálum

„Fólk í okkar félögum leggur mikið upp úr skattamálunum. Láglaunafólk hefur farið verr út úr skattabreytingum undanfarinna ára en þeir sem hærri laun hafa og finnst nú kominn tími til að njóta góðærisins,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður SGS. Hann segir að með því að leggja fram sérstaka kröfugerð gagnvart stjórnvöldum sé sambandið að sýna ríkinu hvernig það geti bætt hag fólksins og þannig liðkað fyrir gerð kjarasamninga. Hann tekur fram að eftir því sem minna komi frá ríkinu verði kröfurnar á hendur atvinnurekendum meiri.

Í kröfugerð á hendur stjórnvöldum er farið fram á að lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar en fari síðan stiglækkandi með hærri tekjum. Þannig verði lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa meðal annars fjármögnuð með hærri sköttum á þá tekjuhærri. Jafnframt verði lagt útsvar á fjármagnstekjur.

Meðal annarra atriða er að gert verði þjóðarátak í húsnæðismálum, sambærilegt að vöxtum og áhrifum og verkamannabústaðakerfið á sínum tíma. Ráðist verði í sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða til að gera það að veruleika.

Forsenda um jöfnuð

Í formála að kröfugerð gagnvart Samtökum atvinnulífsins kemur fram að forsendur þess að undirritaðir verði kjarasamningar séu að launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum og þau mæti opinberum framfærsluviðmiðum. Hækkanir lægstu launa skuli vera í forgangi.

Þess er krafist að lágmarkslaun verði 425 þúsund í lok samningstímans, eftir þrjú ár. Opnað er á að talan geti verið lægri ef gerðar verði umtalsverðar skattkerfisbreytingar og sköttum létt af lægstu launum og lægri millilaunum.

„Það er niðurstaðan hjá okkar félögum að þetta sé sú fjárhæð sem raunhæft er að ná fram á þremur árum. Við miðum við krónutölu og setjum það skilyrði að tekjuhærri hópar fái ekki miklu meiri hækkanir. Ef það gerist að ójöfnuður í samfélaginu eykst verður okkur heimilt að segja samningunum upp og ganga út úr þeim,“ segir Björn um lágmarkslaunakröfuna.

Ýmis fleiri atriði eru í kröfugerðinni. Nefnt er að staða lífeyrissjóðakerfisins verði rædd og sérstaklega hvernig nýta megi fjárfestingargetu þess til uppbyggingar á húsnæðismarkaði fyrir lág- og miðtekjuhópa.

Þá er ákvæði um að markvisst verði stefnt að styttingu vinnuvikunnar niður í 32 stundir á samningstímanum.

Eyðist það sem af er tekið

„Sameiginlegt markmið okkar allra er að bæta lífskjör allra á landinu og næstu vikur munu fara í það að byggja brýr á milli samningsáherslna SA og kröfugerðar Starfsgreinasambandsins,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við mbl.is í gær.

Halldór segir að í kröfugerð sambandsins sé litið framhjá þeirri staðreynd að það eyðist sem af er tekið. „Þau taka ekki mið af stöðu íslenskra fyrirtækja og líta framhjá því að laun hafa hækkað um 30% frá 2015 og lágmarkslaun um 40% og árangur okkar, það er að segja atvinnurekenda og launþegahreyfingarinnar, er að tryggja næstum því 25% kaupmáttaraukningu vegna lágrar verðbólgu.“

Kröfugerðin var samþykkt á fundi samninganefndar SGS í gær en í henni eiga sæti formenn allra félaganna. Viðræðunefnd var falið að ræða við Landssamband íslenskra verslunarmanna um hugsanlegt samstarf í kjaraviðræðum, hvort og þá hvernig það gæti orðið. „Eftir því sem fleiri standa saman þeim mun sterkari erum við í viðræðunum,“ segir Björn. Hann segir æskilegt að sem flestir komi að viðræðunum við stjórnvöld.

Björn segir að til hafi staðið að afhenda Samtökum atvinnulífsins kröfugerðina á fundi fyrir helgina. Það hafi ekki verið hægt vegna forfalla hjá SA. Hann segir að það verði gert á fundi næstkomandi þriðjudag. Hann segir óákveðið hvernig staðið verður að kynningu krafnanna gagnvart ríkisvaldinu.

SGS leggur áherslu á að nýr samningur gildi frá því núverandi samningur renni út, það er frá og með 1. janúar næstkomandi. Björn segir að samningurinn verði að vera afturvirkur til þess tíma, ef samningsgerðin dregst.