[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Minjastofnun hefur enn ekki fengið í hendur skýrslu Völu Garðarsdóttur fornleifafræðings um fornleifauppgröftinn á Landssímareitnum í miðborg Reykjavíkur 2016 til 2017. Von var á skýrslunni 1.

Fréttaskýring

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Minjastofnun hefur enn ekki fengið í hendur skýrslu Völu Garðarsdóttur fornleifafræðings um fornleifauppgröftinn á Landssímareitnum í miðborg Reykjavíkur 2016 til 2017. Von var á skýrslunni 1. júní, fyrir rúmum fjórum mánuðum en hún hefur ekki borist. Engar upplýsingar fást um það hvenær niðurstöðurnar verða kynntar.

Vala hefur ekki viljað greina Morgunblaðinu frá helstu niðurstöðum fornleifarannsóknarinnar, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Þá hefur hún synjað ósk Morgunblaðsins um að fá að ljósmynda gripina sem fundust við uppgröftinn og geymdir eru á forvörsluverkstæði Þjóðminjasafnsins í Hafnarfirði. Í reglum Minjastofnunar um leyfi til fornleifarannsókna frá 2013 segir í 11. grein að leyfishafi skuli eiga fyrsta útgáfurétt um gögn og gripi í fimm ár frá lokum vettvangsrannsóknar. Ekki liggur þó í augum uppi að þetta ákvæði eigi að gilda um umfjöllun fréttamiðla.

Morgunblaðið hefur einnig leitað upplýsinga um kostnað við fornleifarannsóknina á Landssímareitnum en enn engin svör fengið. Samkvæmt lögum ber framkvæmdaaðili kostnaðinn. Það er Lindarvatn ehf. sem er eigandi fasteigna á reitnum þar sem nýtt gistihús Icelandair hotels er að rísa.

Tekjur námu 113 milljónum

Félagið réð Völu Garðarsdóttur til verksins 2016 þegar hún var starfsmaður Hornafjarðarsafna. Hún hætti störfum á þeim vinnustað í framhaldinu og stofnaði einkahlutafélagið VG fornleifarannsóknir og er það skráð fyrir verkinu. Samkvæmt gögnum sem Vala sendi Minjastofnun þegar hún fékk uppgraftarleyfið 2016 var gert ráð fyrir 7 fornleifafræðingum auk hennar við vettvangsvinnuna og tveimur öðrum sérfræðingum við úrvinnslu. Samtals var gert ráð fyrir því að verkið væri 30 mannmánuðir. Í gögnum Minjastofnunar sem Morgunblaðið fékk á grundvelli upplýsingalaga er ekkert að finna um breytingu á starfsmannafjölda eða mannmánuðum við verkið sem þó munu hafa orðið.

Samkvæmt ársreikningum sem VG fornleifarannsóknir ehf hafa skilað voru tekjur félagsins tæpar 84 milljónir króna árið 2016 og tæpar 29 milljónir árið 2017, samtals um 113 milljónir. Líklegt er að meginhluti þessara tekna séu greiðslur frá Lindarvatni ehf vegna fornleifarannsóknarinnar.

Fram kemur í ársreikningunum að rekstrargjöld 2016 voru rúmar 58 milljónir og tæpar 24 milljónir 2017. Hagnaður VG fornleifarannsókna ehf árið 2016 var 24,3 milljónir króna og 4,2 milljónir króna árið 2017, samtals um 28,5 milljónir þessi tvö ár.